Vika undirskrifta samninga.

Þessi vika hefur verið óvenju annasöm fyrir bæjarstjórann, við að undirrita samninga. Í upphafi vikunnar var undirritaður samningur milli Suðurnesjabæjar og Reykjanesbæjar um þjónustukaup Suðurnesjabæjar af fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar. Um er að ræða framlengingu á fyrri samningi um að fræðsluskrifstofan veiti grunn-og leikskólum í Suðurnesjabæ faglega þjónustu. Þessi samningur gildir út skólaárið 2019-2020.

Suðurnesjabær vinnur að því í samstarfi við Sveitarfélagið Voga að undirbúa og byggja upp fræðsludeild til þjónustu við skólana. Í vikunni undirrituðu bæjarstjórar Suðurnesjabæjar og Sveitarfélagsins Voga samning um samstarf sveitarfélaganna við uppbyggingu og þróun fræðsludeildar, sem mun veita grunn-og leikskólum sveitarfélaganna faglega þjónustu. Fræðsludeildin mun taka við þessu verkefni þegar framangreindur þjónustusamningur við Reykjanesbæ rennur út. Það er ánægjulegt að eiga samstarf við Sveitarfélagið Voga um þetta verkefni, en sveitarfélögin hafa um árabil átt mjög gott samstarf um félagsþjónustu við íbúa sveitarfélaganna.

Á miðvikudaginn náðist mikilvægur áfangi í uppbyggingu á Suðurnesjum. Þá undirritaði bæjarstjórinn fyrir hönd Suðurnesjabæjar viljayfirlýsingu um samstarf Suðurnesjabæjar, fjármálaráðherra fyrir hönd Ríkissjóðs, Isavia og Reykjanesbæjar, um þróun og uppbyggingu á landi í eigu ríkisins í nágrenni við Keflavíkurflugvöll. Þetta er afrakstur mikillar vinnu þessara aðila mörg undanfarin ár, sem með góðri samvinnu hefur skilað þessum áfanga. Framundan er mikið verkefni við að skipuleggja, þróa og byggja upp þetta verðmæta landsvæði. Sveitarfélögin fara með skipulagsvald á svæðinu en ríkið er eigandi landsins, það er því mikilvægt að þessir aðilar eigi sem besta samvinnu um þetta þróunarverkefni. Unnið verður að þessu verkefni undir merkjum Kadeco, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar og munu sveitarfélögin leggja til sína fulltrúa í stjórn félagsins. Kadeco og Isavia hafa mörg undanfarin ár fylgst náið með svipuðum verkefnum í öðrum löndum, þar sem unnið er að skipulagi, þróun og uppbyggingu lands í næsta nágrenni við mikilvæga alþjóðaflugvelli. Vonandi tekst okkur vel til við þetta mikilvæga verkefni, í því felast mikil tækifæri til framtíðar og ríkir hagsmunir eru í húfi ekki aðeins fyrir Suðurnesin heldur íslenskt samfélag í heild.

Nú í vikunni var fundur í bæjarráði, þar sem að vanda voru mörg mál á dagskrá. Þar sem bæjarstjórn er í sumarleyfi frá reglulegum fundum hefur bæjarráð heimild til fullnaðarafgreiðslu mála og fyrir vikið er meira álag á bæjarráði en á öðrum tímum árs.

Nú í vikunni urðu umskipti í veðrinu. Eftir langvarandi þurrkatíð með sólskini nánast hvern dag snerist til suðlægari átta og hefur rignt nokkuð síðustu 2-3 daga. Þessi úrkoma var kærkomin fyrir gróðurinn, en hann var farinn að láta á sjá vegna þurrkatíðar.

Bæjarstjórinn og þar með molarnir, er kominn í tveggja vikna sumarleyfi og birtast næstu molar ekki fyrr en eftir miðjan júlí. Gleðilegt sumar.

Facebooktwittermail

Suðurnesjabær í eitt ár

Þann 10. júní sl. var liðið eitt ár frá því sameinað sveitarfélag Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs tók til starfa. Þetta fyrsta starfsár sveitarfélagsins hefur verið viðburðaríkt og annasamt. Unnið hefur verið að því að formgera sveitarfélagið, það hefur falið í sér að unnið hefur verið að mjög mörgum stórum og minni verkefnum. Þá hefur verið unnið að samræmingu margra hluta, þar sem mismunandi hefðir og venjur voru hjá fyrri sveitarfélögum.

Á þessu fyrsta ári hafa náðst margir áfangar í því verkefni að móta nýtt sveitarfélag. Einn af stóru áföngunum var þegar heiti sveitarfélagsins, Suðurnesjabær tók gildi þann 1. janúar 2019 og í framhaldi af því var unnið að hönnun byggðamerkis, sem endaði með því að full samstaða var í bæjarstjórn í mars sl. þegar byggðamerki Suðurnesjabæjar var samþykkt. Hönnun þess var unnin í samstarfi við auglýsingastofuna Hvíta húsið. Það var ánægjulegt og í senn styrkleikamerki hve bæjarstjórn var algerlega samstiga við ákvörðun um heiti sveitarfélagsins og byggðamerkis.

Byggðamerki Suðurnesjabæjar var staðfest samhljóða í bæjarstjórn í mars 2019. Merkið hefur fengið mjög jákvæðar viðtökur meðal íbúa sveitarfélagsins.

Fleiri merkir áfangar urðu í starfsemi Suðurnesjabæjar á fyrsta starfsárinu. Sem dæmi um það má nefna að bæjarstjórn samþykkti fyrstu fjárhagsáætlun Suðurnesjabæjar í desember sl., þá afgreiddi bæjarstjórn ársreikning fyrir árið 2018 í byrjun júní, en sá ársreikningur náði fyrri hluta ársins yfir rekstur gömlu sveitarfélaganna, en yfir rekstur Suðurnesjabæjar frá 1. júlí 2018. Hvor tveggja eru þetta merkir áfangar.

Hér er aðeins stiklað á stóru um fyrsta starfsár Suðurnesjabæjar, en margt fleira væri þess virði að fjalla um og verður það gert síðar. Það má segja að sveitarfélagið sem varð til fyrir ári síðan hafi farið gegnum mikilvægt þroskaskeið á sínu fyrsta ári. Framundan eru margar áskoranir sem unnið verður úr á næstu vikum, mánuðum og árum. Mótun nýs sveitarfélags lýkur ekki á einu ári, heldur er um langtíma verkefni að ræða. Hins vegar má fullyrða að vel hafi gengið hjá kjörnum fulltrúum og starfsfólki sveitarfélagsins að leysa fjölmörg verkefni á þessu fyrsta ári.

Facebooktwittermail