38. vika.

Reykjanes Jarðvangur er alþjóðlega viðurkenndur sem Unesco Global Geopark. Þessi viðurkenning er mikilvæg fyrir jarðvanginn, fyrir Suðurnes og atvinnustarfsemi á svæðinu, sérstaklega ef litið er til ferðaþjónustu. Margir ferðamenn sækjast eftir því að heimsækja jarðvanga víða um heiminn og því er mikilvægt að viðhalda alþjóðlegu viðurkenningunni undir merkjum Unesco. Nú í vikunni voru fulltrúar frá Unesco á ferð um Suðurnes, í þeim tilgangi að gera úttekt á Reykjanes Jarðvangi og leggja mat á hvort jarðvangurinn uppfylli áfram þær kröfur sem gerðar eru til þess að starfa undir merkjum Unesco. Fulltrúar Unesco fóru víða um svæðið, í fylgd með starfsfólki og fulltrúum Reykjanes Jarðvangs. Meðal annars heimsóttu þeir Garðskaga, Þekkingarsetrið í Sandgerði, Hvalsneskirkju og veitingahúsið Vitann í Sandgerði, sem er Geopark fyrirtæki. Fulltrúarnir skoðuðu einnig fjölmarga aðra staði í sveitarfélögunum á Suðurnesjum. Vonandi mun heimsókn fulltrúa Unesco og yfirferð um svæðið tryggja að Reykjanes Jarðvangur verði áfram viðurkenndur sem Unesco Global Geopark næstu fjögur árin, enda mikilvægt fyrir Suðurnesin.

Í sumar eru ýmsar framkvæmdir í gangi á vegum Suðurnesjabæjar, einstaklinga og fyrirtækja í sveitarfélaginu. Meðal annars hefur Suðurnesjabær ráðist í malbikun gatna, bæði nýrra gatna sem og til viðhalds og endurbóta á eldri götum. Í Sandgerði og Garði standa yfir framkvæmdir við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, bæði í nýjum og eldri íbúðahverfum. Það er ánægjulegt hve mikill kraftur er í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í báðum byggðarkjörnum sveitarfélagsins.

Á miðvikudaginn í þessari viku var haldin árleg Skötumessa í Miðgarði, sal Gerðaskóla. Að vanda var fjölmenni sem mætti og naut þess að borða skötu og annað fiskmeti sem Skólamatur framreiddi, ásamt því að njóta ýmissa skemmtiatriða. Ágóði af skötumessunni rennur jafnan til þess að styrkja góð málefni og voru styrkir afhentir undir lok dagskrár kvöldsins.

Veðrið hefur leikið við okkur á Suðurnesjum í sumar og hafa sumir haldið því fram að við höfum átt það inni frá síðasta sumri. Einna helst hefur verið hægt að kvarta undan langvarandi þurrki, en úr því hefur ræst að undanförnu enda gott fyrir gróðurinn. Útlit er fyrir áframhald á veðurblíðunni næstu daga.


Facebooktwittermail