Sandgerðisdagar

Þessa vikuna stendur yfir bæjarhátíðin Sandgerðisdagar í Suðurnesjabæ. Bæjarhátíðin í Sandgerði hefur verið haldin í um 20 ár og skapað fastan sess í samfélaginu. Dagskrá vikunnar er í senn fjölbreytileg og áhugaverð, þar ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Viðburðir eru alla daga vikunnar og lýkur Sandgerðisdögum með kvöldskemmtun og flugeldasýningu á laugardagskvöld. Fjölmargir aðilar koma að undirbúningi og framkvæmd viðburða og dagskrárliða á Sandgerðisdögum og er ánægjulegt hve allir þessir aðilar leggja fram sitt framlag af mikilli ánægju og jákvæðni.

Einn af föstu liðum Sandgerðisdaga er Loddugangan og fór hún fram í gærkvöldi, fimmtudag. Þá safnast íbúar saman við Vörðuna og gengið er um Sandgerði undir leiðsögn. Þessi liður hefur notið mikilla vinsælda og hefur þátttaka jafnan verið mikil. Hópurinn sem tekur þátt í göngunni er vigtaður á hafnarvoginni og að þessu sinni vó hópurinn 28,1 tonn. Leiðsögumenn að þessu sinni voru Hobbitarnir Ólafur Þór og Hlynur Þór, sem tóku lagið á öllum stoppistöðum.

Annar fastur liður Sandgerðisdaga er hátíðardagskrá í Sandgerðiskirkju. Að þessu sinni var sá viðburður á miðvikudagskvöldið, með tónleikum frábærra listamanna úr heimasveit og gesta. Eitt af mörgum hlutverkum bæjarstjórans er að aðstoða nemendur Sandgerðisskóla við að draga upp fána Sandgerðisdaga. Sú athöfn fór fram í morgun, föstudag og var ánægjulegt að aðstoða yngsta nemanda skólans við það verkefni. Á morgun laugardag verður skemmtidagskrá við Sandgerðisskóla og lýkur Sandgerðisdögum sem fyrr segir seint á laugardagskvöld.

Ragnheiður Gröndal söngkona og Guðmundur Pétursson gítarleikari í Sandgerðiskirkju

Svona bæjarhátíðir eru haldnar um allt land, nánast hverja viku og helgi frá vori og fram á haust. Þetta eru mikilvægir viðburðir í hverju samfélagi og eru til þess fallnir að efla kynni og auka samstarf íbúanna, sem styrkir hvert samfélag. Fjölmörg fyrirtæki og aðrir aðilar leggja sitt af mörkum með ýmsum hætti og sýna með því samfélagslega ábyrgð. Allt er þetta jákvætt.

Suðurnesjabær þakkar öllum þeim sem hafa komið að undirbúningi Sandgerðisdaga. Það er mikið verkefni og fjölmargt sem þarf að huga að. Þá eru færðar þakkir til allra þeirra sem taka þátt í framkvæmd og leggja sitt af mörkum við einstaka viðburði. Það er ánægjulegt að upplifa samtakamáttinn sem birtist í þessu öllu saman.

Góða helgi.

Facebooktwittermail

Menntun og heilbrigði

Eftir að sumarleyfi eru að mestu gengin yfir er daglegt líf og störf nú að falla í sinn eðlilega farveg.

Skólaárið að hefjast hjá grunnskólum

Í liðinni viku sat undirritaður mjög áhugaverða haustráðstefnu fræðslusviðs Reykjanesbæjar fyrir starfsfólk grunnskólanna í Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ, nú við upphaf nýs skólaárs. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Menntun og velferð fyrir alla: skóli margbreytileika, fjölmenningar og vináttu“. Vel var staðið að ráðstefnunni og þar voru flutt athyglisverð og góð erindi.

Heilsueflandi samfélag á Suðurnesjum

Nú í vikunni var undirrituð viljayfirlýsing um samstarf vegna heilsueflandi samfélags á Suðurnesjum. Að verkefninu standa sveitarfélögin á Suðurnesjum ásamt Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum og Embætti landlæknis. Markmið með samstarfinu er að með markvissari hætti megi greina stöðu og leita lausna sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa á Suðurnesjum. Þetta er spennandi samstarfsverkefni og mun vera í fyrsta skipti sem Embætti landlæknis og heilbrigðisstofnun taka upp samstarf við sveitarfélög í heilum landshluta um þetta málefni. Myndin að neðan sýnir áhrifaþætti heilbrigðis og vellíðunar og gefur ágætt yfirlit yfir þá fjölmörgu þætti sem horfa þarf til varðandi vellíðan allra íbúa samfélagsins.

Bæjarráð

Nú í vikunni fundaði bæjarráð Suðurnesjabæjar. Að venju voru ýmis og margvísleg mál á dagskrá. Fyrir fundinum lá m.a. minnisblað um aðgerðir vegna grindhvala sem syntu á land neðan við Útskálakirkju fyrir nokkru. Bæjarráð færir starfsfólki Suðurnesjabæjar og öllum þeim aðilum sem komu að aðgerðum fyrir þeirra framlag og vel unnin störf. Þá samþykkti bæjarráð umsögn um drög að flugstefnu fyrir Ísland og samþykkt var að taka tilboði í framkvæmd við hringtorg við Byggðaveg í Sandgerði, svo örfá mál séu nefnd.

Sandgerðisdagar

Framundan er bæjarhátíðin Sandgerðisdagar, sem mun standa yfir vikuna 26. ágúst – 31. ágúst. Sandgerðisdagar hafa verið haldnir um langt árabil á þessum árstíma og má segja að hátíðin móti skilin milli sumars og hausts. Dagskrá Sandgerðisdaga verður birt á næstu dögum og eru íbúar Suðurnesjabæjar og gestir hvattir til þátttöku og að njóta þeirra viðburða sem í boði verða.

Haustið minnir á sig

Veðuráttan undanfarið minnir okkur á að hausttíðin færist yfir. Dagarnir hafa flestir verið sólríkir en blásið hefur með norðanvindi sem hefur haldið hitastiginu í skefjum. Nú fer að renna upp árstími uppskeru og sláturtíðar, þar sem meðal annars fólk sækir berjalönd heim í þeim tilgangi að tína safarík og meinholl ber. Þótt svo sumarið hafi verið sólríkt og hlýtt í veðri um sunnan og vestanvert landið þá berast fregnir af því að berjaspretta sé frekar takmörkuð, sem er líkleg afleiðing af langvarandi þurrkum. Þó má eflaust finna gjöful berjasvæði sem gefa vel af sér.

Facebooktwittermail

Sumartíð og grindhvalir

Tími sumarleyfa

Undanfarnar vikur hafa margir notið sumarleyfa. Bæjarhátíðir eru haldnar víða um land allar helgar sumarmánuðanna og margir ferðast um landið til að njóta náttúrunnar og samvista við fjölskyldur og vini. Veðrið á sunnan-og vestanverðu landinu hefur verið með besta móti þetta sumarið, en eins og yfirleitt er þá er veðurfarið með öðrum hætti á hinum helmingi landsins. Síðasta sumar var þessu alveg öfugt farið, þegar leiðinda tíð var meira og minna allt sumarið á sunnan-og vestanverðu landinu en gott sumarveður norðan-og austanlands. Sumarumferðin markast jafnan af veðrinu, eðlilega sækir landinn í góða veðrið þar sem það er hverju sinni. Mesta ferðahelgi sumarsins var um síðustu helgi, um Verslunarmannahelgina. Undirritaður sótti í fyrsta skipti Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og var það í senn mikil og ánægjuleg upplifun. Einmuna veðurblíða var í Eyjum alla helgina og var ánægjulegt að taka þátt í vel heppnaðri hátíð með þúsundum gesta sem dvöldu í Heimaey.

Grindhvalir í Garði

Verslunarmannahelgin var ekki tíðindalaus í Suðurnesjabæ. Á föstudags kvöldið syntu nokkrir tugir grindhvala á land á ströndina framan við Útskálakirkju í Garði. Skjótt var brugðist við og tókst að bjarga mörgum hvalanna af ströndinni á haf út, þannig að dýrin mættu ekki örlögum sínum á ströndinni. Eftir lá nokkur fjöldi dauðra hvala sem tókst að draga á haf og sökkva. Sú aðgerð var framkvæmd í samráði og með leyfi þar til bærra yfirvalda. Allar aðgerðir tókust mjög vel og margir tóku þátt í þeim. Framganga björgunarsveitafólks var aðdáunarverð, þar sem fagmennska og fumlausar aðgerðir báru þann árangur að þessum aðgerðum lauk á stuttum tíma. Þá voru öll samskipti og samstarf starfsfólks Suðurnesjabæjar við björgunarsveitir, stofnanir og aðra viðkomandi aðila til fyrirmyndar. Fyrir það þakkar Suðurnesjabær.

Það er ekki einfalt verkefni að takast á við aðstæður eins og þær sem komu upp við landgöngu grindhvalanna á föstudaginn. Það er athyglisvert hve slíkum atburðum hefur fjölgað undanfarin ár. Ýmist hafa hópar smáhvala hreinlega synt upp í fjörur, eða einstaka hvali hefur rekið á land. Stofnanir og stjórnvöld hafa mótað ákveðið verklag til að bregðast við slíkum atburðum, með ákveðnu samstarfi stofnana og ýmissa aðila. Hins vegar má læra af okkar reynslu af þessu máli og verður því komið á framfæri við viðkomandi stjórnvöld, en um þessar mundir er unnið að enn frekari útfærslu á viðbragðsáætlunum til að takast á við svona aðstæður. Þess má geta að áhersla er lögð á það, að ef fólk verður vart við einstaka hvali eða hvalahópa í fjörum, þá ber að tilkynna það til lögreglu sem virkjar viðkomandi viðbragðsaðila.

Framganga björgunarsveitarfólks við björgun grindhvalanna og hreinsun á ströndinni er aðdáunarverð. Þar sem mesta ferðahelgi sumarsins stóð yfir voru færri einstaklingar tiltækir til aðgerða en að öllu jöfnu, en þeir einstaklingar sem gáfu sig í verkefnið lögðu sig alla fram og skiluðu góðu verki. Björgunarsveitirnar sem tóku þátt í þessum aðgerðum fá sérstakar þakkir fyrir þeirra framlag, en það sýnir enn og aftur hve mikilvægar björgunarsveitirnar eru í okkar samfélagi og hve þeir einstaklingar sem starfa innan þeirra eru alltaf tilbúnir til aðgerða ef á þarf að halda.

Undirritaður þakkar einnig því starfsfólki Suðurnesjabæjar sem stóðu vaktina og tóku þátt í aðgerðum fyrir þeirra framlag. Þetta starfsfólk var að störfum alla Verslunarmannahelgina og fyrir það er þakkað.


Facebooktwittermail