Fjórar vikur í faraldri

Fyrir um fjórum vikum greindist fyrsta Covid-19 smit á Íslandi.  Þar með hófst vegferð þessarar veiru í okkar samfélagi, sem hefur að mörgu leyti umturnað því.  Þessi veira hefur líka lagt allan heiminn að fótum sér og æðir yfir allt eins og eldur í sinu.  Það hefur haft þau áhrif að sú heimsmynd sem við þekktum fyrir nokkrum vikum síðan hefur tekið ótrúlegum breytingum á stuttum tíma. 

Það hefur verið magnað að upplifa þennan stutta tíma hér á Íslandi.  Lýst var neyðarstigi almannavarna vegna heimsfarsldurs, sem er út af fyrir sig ógnvekjandi staða og í fyrsta skipti var sett á samkomubann í landinu.  Sóttvarnir og aðgerðir í þeirra þágu hafa verið markvissar og árangursríkar, það er algerlega augljóst að þjóðin er ótrúlega rík og vel sett með sérfræðinga og fagfólk, ekki bara í sóttvörnum og heilbrigðisþjónustu heldur á öllum sviðum almannaþjónustu. Þá birtist líka hve innviðir eru góðir og sveigjanlegir. 

Þegar ástandið fór í alvöru að láta til sín taka í Suðurnesjabæ, með tilmælum og leiðbeiningum sóttvarnayfirvalda og almannavarna var brugðist hratt og markvisst við og ráðstafanir gerðar.  Sérstök aðgerðastjórn var ræst af stað og viðbragðs-og aðgerðaáætlanir virkjaðar. 

Eftir að gefið var út samkomubann fór ástandið á nýtt stig þann 16. mars. Stokka þurfti upp skipulag og starfsemi skólanna og allra stofnana og vinnustaða sveitarfélagsins.  Það var aðdáunarvert og mjög ánægjulegt hve stjórnendur stofnana sveitarfélagsins og starfsfólk brugðust fljótt og vel við, með jákvæðum hug og lausnarmiðuðum vinnubrögðum. Þetta lagðist eðlilega þyngst á leik-og grunnskólana, allir stjórnendur þeirra stóðu sig frábærlega við þær aðgerðir sem ráðast þurfti í og áttu þau náið og markvisst samstarf við aðgerðastjórn og fjölskyldusvið.  Við höfum fylgst náið og daglega með starfsemi skólanna og hefur allt skólastarf gengið ótrúlega vel við þessar erfiðu aðstæður.  Full ástæða er til að þakka foreldrum og forráðamönnum skólabarna fyrir gott samstarf og viðbrögð vegna þeirra aðstæðna sem upp hafa komið í skólunum.

Sveitarfélagið hefur fylgt leiðbeiningum og fyrirmælum almannavarna á hverjum tíma. Það hefur gengið vel, íbúar sveitarfélagsins leggja sig fram um að gera það líka. Samstaðan um þetta allt saman er nánast áþreifanleg í okkar samfélagi.

Suðurnesjabær hefur tekið fyrstu skrefin með aðgerðir til að koma til móts við heimilin vegna skertrar þjónustu sveitarfélagsins og eins vegna rekstrarerfiðleika hjá atvinnufyrirtækjum vegna tekjuskerðingar af völdum faraldursins.  Á heimasíðu Suðurnesjabæjar eru frekari upplýsingar um það.  Búast má við að fljótlega þurfi að taka frekari ákvarðanir um einhverjar aðgerðir og mun það koma í ljós jafnóðum.

Við getum ekki gert ráð fyrir að dragi úr faraldrinum fyrr en eftir nokkrar vikur.  Við verðum öll að halda áfram samstöðu um aðgerðir til að draga sem mest úr áhrifum faraldursins og við verðum að hafa úthald til þess.  Eins og fjölmörg dæmi sögunnar sanna, þá er íslenska þóðin ótrúlega þrautseig og samheldin þegar á þarf að halda.  Við erum að upplifa það um þessar mundir.

Stjórnendur, starfsfólk og kjörnir fulltrúar í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar fá í senn hrós og þakkir fyrir framlag allra og fórnfúsa vinnu við að halda starfsemi og þjónustu sveitarfélagsins virkri við þessar erfiðu aðstæður.  Lausnamiðað hugarfar og þétt samstaða allra hefur skipt sköpum og fyrir það verður seint fullþakkað.

Við erum öll almannavarnir.  

Facebooktwittermail