Gleðilegt sumar

Sumardagurinn fyrsti hefur jafnan markað ákveðin tímamót og gjarnan eru hátíðahöld af einhverju tagi til að fagna því að vetur er að baki. Við drögum íslenska fánann að hún þennan dag, enda er Sumardagurinn fyrsti einn af okkar hátíðardögum.  Að þessu sinni voru líklega hvergi almenn hátíðahöld í dag, við förum eftir leiðbeiningum og hlýðum tilmælum um sóttvarnir og það allt saman gerði það að verkum að við fögnum sumri hvert fyrir sig og kannski með okkar nánustu fjölskyldu, en ekki í fjölmenni eins og tíðkast hefur.

Liðinn vetur verður skráður í annála fyrir ýmsar sakir. Óvenju “leiðinleg” veður ríktu á löngum köflum og á Suðurnesjum var þessi vetur óvenju snjóþungur og oftar en flesta undanfarna vetur gusuðust yfir okkur hríðarveður með tilheyrandi samgöngutruflunum og snjómokstri.  Atburðir síðustu vikna vetrarins verða væntanlega ritaðir með feitu letri í annála vegna heimsfaraldurs Covid-19 sem setti allt á annan endann, bæði hér á landi en ekki síður um allan heiminn.  Það er því ekki með miklum trega sem við segjum bless við liðinn vetur.  En, við kveðjum hann þó með virðingu og þakklæti fyrir ýmislegt sem er þakkar vert, því það er aldrei svo að ekki sé eitthvað jákvætt að finna þegar litið er til baka.

Nú er rúmlega vika þar til fyrsta skref verður tekið við tilslakanir frá samkomubanni og sóttvarnarráðstöfunum vegna Covid-19 faraldursins.  Síðustu vikur hafa verið uppi alls konar áskoranir og margvísleg verkefni vegna faraldursins og sóttvarnarráðstafana.  Það hefur mikið mætt á mörgu starfsfólki Suðurnesjabæjar og á köflum hafa ríkt krefjandi aðstæður sem kölluðu á lausnamiðaða hugsun. Bæjarstjórinn er stoltur og þakklátur starfsfólki Suðurnesjabæjar fyrir það hve vel hefur gengið að halda starfsemi og þjónustu sveitarfélagsins í góðu horfi á þessum tíma. Þegar faraldurinn var að hefja innreið sína og sóttvarnayfirvöld fóru að herða tökin, þá voru dregnar fram og uppfærðar viðbragðsáætlanir sem unnið hefur verið eftir. Það hefur gengið vel, við erum öll reynslunni ríkari og erum enn betur en áður í stakk búin til að takast á við erfiðar og krefjandi aðstæður.  Þá hefur samstaðan verið þétt og í raun aðdáunarvert hve samfélagið hefur staðið saman eins og einn maður við að takast á við erfiðar aðstæður.

Þótt svo stutt sé í 4. maí, þegar fyrstu tilslakanirnar taka gildi, þá erum við ennþá stödd í apríl og við eigum öll að gera okkur grein fyrir því að faraldurinn deyr ekki út í byrjun maí.  Við verðum að halda áfram þeirri samstöðu og samtakamætti sem ríkt hefur, hvetjum hvert annað til að fylgja tilmælum og sýnum hið rómaða íslenska þolgæði til að takast á við erfiðar aðstæður.  Það er í þágu hagsmuna okkar allra og þannig mun okkur takast að komast á leiðarenda í baráttunni við faraldurinn.

Ég óska öllum gleðilegs sumars, með von um betri tíð og blóm í haga.

Facebooktwittermail

Faraldur í rénun

Það er ánægjulegt að fylgjast með því hve dregur úr Covid faraldrinum hér á landi.  Greinilegt er að aðgerðir til smitvarna hafa skilað miklum árangri.  Þeim árangri er ekki síst að þakka almenningi, sem hefur tekið virkan og almennan þátt í því að fylgja eftir þeim leiðbeiningum og fyrirmælum sem gefin hafa verið út til varnar útbreiðslu faraldursins. 

Samkvæmt upplýsingum sem borist hafa, þá hafa 8 íbúar Suðurnesjabæjar smitast af Covid-19 en allir hafa náð bata.  Samkvæmt síðustu upplýsingum voru um 3 íbúar í sóttkví.  Það má því heita að í dag sé sveitarfélagið nánast laust við faraldurinn.  Þetta eru ánægjulegar staðreyndir, sem ættu að veita okkur styrk til að halda áfram að fylgja fyrirmælum um sóttvarnir.  Það hefur verið áberandi hvað íbúar Suðurnesjabæjar hafa tekið leiðbeiningum og fyrirmælum af mikilli alvöru og fylgt þeim vel eftir.  Í starfsemi sveitarfélagsins hefur öllum fyrirmælum verið fylgt og vel það, til dæmis í skólunum þar sem hefur gengið vel og engin smit komið upp.  Nokkrir starfsmenn hafa haldið sig heima að læknisráði, þar sem um er að ræða einhverja skilgreinda áhættuþætti hjá hverjum og einum.

Ráðhús Suðurnesjabæjar í Garði og Sandgerði hafa verið lokuð undanfarið og flest starfsfólk unnið að sínum verkefnum heimafyrir.  Með þessu fyrirkomulagi hefur verið gengið aðeins lengra í þágu sóttvarna en mörg sveitarfélög hafa gert.  Á næstu dögum verða stigin stutt skref til baka, ráðhúsið í Garði verður opnað aftur hluta úr degi, en með takmörkuðum aðgangi og verður það auglýst sérstaklega.  Starfsfólki ráðhúsanna verður skipt upp í tvo hópa, sem munu skiptast á að vinna í ráðhúsum eða heima.  Þetta gildir til 1.maí og verður nánar auglýst á heimasíðu sveitarfélagsins.  Eftir sem áður geta allir náð sambandi við ráðhúsin um síma 425-3000, eða í póstfang afgreidsla@sudurnesjabaer.is.

Eins og fram hefur komið munu heilbrigðisyfirvöld taka fyrstu skrefin til að létta á samkomubanni þann 4. maí nk.  Í næstu viku mun aðgerðastjórn sveitarfélagsins leggja línur um hvernig því verður mætt í Suðurnesjabæ og verður það tilkynnt þegar þar að kemur.  Það er ljóst að endurskoða þarf ýmis áform um viðburði og annað sem gert hafði verið ráð fyrir í vor, sumar og fram í haustið.  Vonandi getum við þrátt fyrir allt gert okkur ýmislegt til skemmtunar, en það verður að koma í ljós.

Fram hafa komið nokkrar áhyggjur af því að almenningur sé farinn að slaka á taumunum í sóttvörnum, sérstaklega eftir að ljóst var að dregið hefur úr faraldrinum og að byrjað verður að slaka á samkomubanni í byrjun maí.  Það eru ríkir hagsmunir okkar allra að við sýnum úthald og þolgæði við að fara eftir fyrirmælum og leiðbeiningum í þágu sóttvarna.  Það er ennþá apríl mánuður, maí er ekki kominn og við eigum að gera þá skýlausu kröfu hvert á annað að við förum öll eftir fyrirmælunum, því það er í þágu þjóðfélagsins alls og miðar í senn að því að drepa niður faraldurinn, en ekki síður að koma samfélagslegri virkni og atvinnulífinu af stað aftur.  Við erum öll upplýst um hvaða afleiðingar eru nú þegar orðnar af þessum faraldri, við höfum gengið samhent og taktviss í gegnum verkefnið síðustu vikur og við eigum að líta á það sem okkar skyldu og ábyrgð að halda því áfram því það þjónar hagsmunum okkar allra.  Gangi okkur öllum vel með það og munum að við erum öll almannavarnir.

Facebooktwittermail

Við lok Páska

Vonandi hafa allir haft það gott um Páska, þrátt fyrir óvenjulegar aðstæður.  Páskahátíðin að þessu sinni var öðru vísi en allar aðrar páskahelgar sem undirritaður hefur upplifað, enda er samfélagið allt mótað af aðgerðum og afleiðingum Covid-19 heimsfaraldursins.  Þær aðgerðir sem hafa verið í gildi undanfarnar vikur munu standa yfir í um þrjár vikur til viðbótar, þar til byrjað verður að draga úr þeim.  Hvernig það verður gert mun koma í ljós síðar í vikunni, en við megum gera ráð fyrir að hægt verði dregið úr þeim næstu vikur og jafnvel mánuði.  Sá góði árangur sem náðst hefur með þeim sóttvarnaaðgerðum sem hafa verið í gildi byggir á samstöðu þjóðarinnar allrar um að fylgja leiðbeiningum og tilmælum sóttvarnayfirvalda og almannavarna.  Það er í senn ánægjulegt og þakkar vert.  Þegar upp verður staðið mun sú samstaða hafa leitt okkur saman gegnum þann faraldur sem gengur yfir.  Framtíðin mun svo fela í sér þær afleiðingar sem þetta mun allt hafa, ekki aðeins á Íslandi heldur um allan heiminn.

Þar sem þær aðgerðir sem hafa staðið yfir síðustu vikur munu gilda til 4. maí, þá mun starfsemi Suðurnesjabæjar verða með sama hætti og verið hefur undanfarnar vikur.  Fyrir páskafrí skólanna var tekin ákvörðun um að þriðjudagurinn 14. apríl verði starfsdagur í skólunum, til þess að gefa stjórnendum og starfsfólki svigrúm til að yfirfara skipulag skólastarfsins og leggja á ráðin fyrir næstu vikur.  Skólastarf mun svo hefjast með því að nemendur mæti í sína skóla miðvikudaginn 15. apríl.

Eins og áður var ákveðið, þá mun starfsfólk í ráðhúsum Suðurnesjabæjar halda áfram sínum störfum samkvæmt því fyrirkomulagi sem verið hefur og verður svo þar til fyrirmæli vegna sóttvarna taka breytingum.  Bæði ráðhúsin verða lokuð áfram, en hægt verður að ná sambandi við starfsfólk gegnum síma 425-3000, eða með tölvupósti í póstfangið afgreidsla@sudurnesjabaer.is. Flest starfsfólk ráðhúsanna vinnur sín verkefni heima. 

Þegar heilbrigðisráðherra hefur gefið út hvernig staðið verður að því að draga úr sóttvarnaaðgerðum eftir 4. maí, þá verður farið í að endurskoða skipulag á starfsemi sveitarfélagsins.  Þá verða einnig teknar frekari ákvarðanir um starfsemi og þjónustu, viðburði og annað sem ráðgert hafði verið á þessu ári, en hefur ekki verið mögulegt að skipuleggja eða ráðast í vegna þeirrar óvissu sem ríkir vegna faraldursins. 

Það er ljóst að undanfarnar vikur hefur mjög reynt á samfélagið allt, atvinnulíf og daglegt líf okkar allra.  Við þessar aðstæður reynir mjög á þolgæði okkar allra, úthald og þolinmæði.  Við verðum að mæta þessu öllu með æðruleysi og kærleika, horfa með bjartsýni og tilhlökkun til allra þeirra verkefna sem vinna þarf þegar þjóðfélagið fær aftur að sinna daglegu lífi og starfi án þeirra takmarkana og hamla sem við búum við um þessar mundir.  Þessa dagana á vel við að þolinmæði þrautir vinnur allar.

Gangi okkur öllum sem allra best 😉

Facebooktwittermail

Enn ein vikan í farsótt

Eftir því sem lengra líður frá því Covid faraldurinn hófst fyrir alvöru, því betur er hægt að gera sér grein fyrir því fordæmalausa ástandi sem ríkir.  Tilveran hefur tekið algerum breytingum, ekki bara hér heima heldur nánast um veröld alla.  Einhvern veginn er erfitt að sjá fyrir sér nú að allt geti orðið aftur eins og var fyrir nokkrum vikum.  En, það kemur allt í ljós og vonandi tekst okkur vel til við að vinna okkur út úr þeim erfiðu aðstæðum sem skapast hafa.

Covid faraldurinn kemur misjafnlega niður á einstökum landsvæðum og byggðarlögum.  Við fáum reglulega upplýsingar um fjölda smitaðra og þeirra sem eru í sóttkví í hverju sveitarfélagi.  Það er mikilvægt fyrir stjórnendur sveitarfélaga að hafa alltaf nýjustu upplýsingar um stöðu mála í viðkomandi sveitarfélagi, m.a. til þess að geta tekið ákvarðanir og unnið út frá stöðunni.  Í dag, samkvæmt síðurstu upplýsingum þann 3. apríl voru 7 einstaklingar greindir með smit í Suðurnesjabæ og 47 í sóttkví.  Við sendum þeim sem eru veikir okkar bestu kveðjur með ósk um skjótan og farsælan bata.  Óskum þeim sem eru í sóttkví þess að sleppa við að greinast með smit.

Síðasta vika hefur eins og undanfarnar vikur verið annasöm og viðburðarík.  Fyrir utan öll Covid málin sem upp hafa komið og þurft hefur að bregðast við, þá var fundur í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar í vikunni.  Fundurinn var haldinn í Vörðunni og þess gætt að fara eftir öllum fyrirmælum um sóttvarnir, m.a. fjarlægð milli einstaklinga, hreinlæti o.fl.   Þar var að vanda mikill fjöldi mála á dagskrá og bæjarstjórnin tók afstöðu til og afgreiddi fjölda mörg mál.   Eitt af þeim málum sem var á dagskrá var ósk frá Ólafi Þór Ólafssyni bæjarfulltrúa til 18 ára um lausn frá setu í bæjarstjórn.  Ólafur Þór er nýr sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps og er því bæði að skipta um starfsvettvang og heimasveitarfélag.  Það er mikil eftirsjá að Ólafi Þór.  Hann er í senn traustur, ábyrgur og víðsýnn samstarfsmaður sem gott hefur verið að vinna með.  Ég óska Ólafi Þór alls góðs og farsældar á nýjum vettvangi. Hér er Ólafur Þór með gjafir sem bæjarstjórn færði honum á fundi bæjarstjórnar.

Undanfarnar vikur hefur mikið mætt á skólunum okkar.  Nú eru grunnskólarnir og tónlistarskólarnir farnir í páskafrí, en leikskólarnir munu starfa í næstu viku.  Ég þakka stjórnendum allra skólanna í Suðurnesjabæ, öllu starfsfólki þeirra, nemendum og foreldrum fyrir þeirra framlag til þess að skólarnir hafa getað starfað.  Það hefur verið flókið verkefni, margar áskoranir, aðlögunarhæfni og umfram allt lausnarmiðuð vinnubrögð.  Allt þetta fólk á skilið mikið hrós.

Þegar svona aðstæður koma upp, spretta gjarnan fram alls konar hugmyndir og lausnir.  Sem dæmi um það má nefna heimanám nemenda í grunnskólunum, í bókasafninu var opnuð bókalúga til þess að íbúar gætu nýtt sér útlán bóka en það var síðan stoppað af vegna smitvarna.  Tónlistarskólarnir í Suðurnesjabæ settu af stað fjarkennsla strax fyrstu daga í samkomubanni, heimilisfræðikennarar í Sandgerðisskóla settu af stað netkennslu og í Gerðaskóla var fylgst náið með páskaungum klekjast úr eggjum, því var streymt beint á netinu.  Þjálfarar í líkamsræktarstöðvum íþróttamiðstöðvanna settu af stað netþjálfun og loks má nefna heimsendingarþjónusta á tilbúnum mat frá veitingahúsinu Röst á Garðskaga.  Það hefur verið gaman að fylgjast með hugmyndaauðgi margra í þessum aðstæðum.

Framundan er Dymbilvika, sem leiðir okkur inn í Páskahelgina, með öllum sínum góðu frídögum og helgidögum.  Það er ástæða til þess að taka undir áherslur almannavarna um að sem flestir haldi sig heima um Páska og forðist mannfagnaði.  Þetta mun örugglega reynast mörgum erfitt, því okkar hefð um Páska felur í sér ferðalög, samfundi og mannfögnuði.  Við verðum að breyta frá venjunni að þessu sinni, allt í þágu smitvarna og baráttunnar gegn farsóttinni.  Eftir því sem við stöndum öll þéttar saman og förum bókstaflega eftir leiðbeiningum og fyrirmælum almannavarna, því fyrr getum við búist við því að líf okkar færist í eðlilegt horf.

Góða helgi.

Facebooktwittermail