Molar 4. viku

Lestrarkeppni grunnskólanna

Lestrarkeppni grunnskólanna er nýlokið, en keppnin gekk út á að safna raddsýnum fyrir vefinn samróm.is og það er Almannarómur og Háskólinn í Reykjavík sem standa að keppninni.  Skemmst er frá því að segja að skólarnir okkar, Sandgerðisskóli og Gerðaskóli stóðu sig mjög vel í þessari keppni og fengu báðir verðlaun.  Sandgerðisskóli náði framúrskarandi árangri en þar lásu 593 einstaklingar 208.535 setningar og voru það hlutfallslega flestar setningar í keppninni.  Gerðaskóli náði einnig frábærum árangri en þar lásu 406 einstaklingar alls 89.336 setningar.  Skólarnir okkar fá hamingjuóskir og þakkir fyrir frábæra frammistöðu.

Lesið á fullu í Sandgerðisskóla

Bæjarráð og Suðurnesjalína

Nú í vikunni var fundur í bæjarráði Suðurnesjabæjar.  Að venju voru ýmis mál til umfjöllunar og af ýmsum toga.  Bæjarráð bókaði umsögn um frumvarp til laga um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2, sem gengur út á að lögbinda að línan verði lögð sem loftlína.  Í bókun bæjarráðs kemur m.a. fram að þrátt fyrir að undirbúningur framkvæmdarinnar hafi nú staðið yfir á annan áratug er ekki komin niðurstaða um hvernig línan verði lögð og er núverandi staða málsins algerlega óviðunandi. Löngu sé orðið tímabært að auka afhendingaröryggi raforku til Suðurnesjabæjar, sem og til að mæta eftirspurn fyrir aukna raforku bæði vegna mikillar fjölgunar íbúa og uppbyggingar atvinnulífs í sveitarfélaginu.  Lögð er áhersla á að brýnt og aðkallandi sé að fá niðurstöðu í málið og að framkvæmdir hefjist sem allra fyrst.  Bæjarráð gerir þá kröfu að allir viðkomandi aðilar leggi sitt af mörkum til lausnar málsins, hvort sem á við um viðkomandi sveitarfélög, Landsnet eða stjórnvöld sem málið varðar, stofnanir ríkisins, ráðuneyti og Alþingi.

Rafrænt skemmtikvöld Víðis

Síðasta laugardag var rafrænt skemmtikvöld Knattspyrnufélagsins Víðis, sem var sett upp í staðinn fyrir þorrablót sem átti að vera það kvöld.  Þetta frábæra framtak tókst einkar vel, margir fylgdust með um netið og tóku þátt.  Víðir fær bestu þakkir fyrir þetta skemmtilega og vel heppnaða framtak.

Covid

Það er meðvituð ákvörðun að fjalla ekkert sérstaklega um Covid faraldurinn í Molum, enda væri nánast verið að bera í bakkafullan lækinn með því miðað við alla umfjöllun um málið úti um allt.  Hins vegar verður athyglisvert að sjá hvernig stjórnvöld ætla að létta af þeim sóttvarnaaðgerðum sem eru í gildi, en það mun liggja fyrir í dag.  Vonandi gengur það allt sem best.

Handboltinn

Íslenska landsliðið í handbolta hefur náð ótrúlegum og eftirtektarverðum árangri á evrópumótinu í handbolta.  Fyrirfram bjuggust líklega fæsti við því að liðið kæmist í dauðafæri að komast í undanúrslit á mótinu og miðað við öll afföll leikmanna úr leikmannahópunum meðan keppnin hefur staðið yfir vegna covid smita var útlitið sannarlega ekki gott.  En, þegar upp er staðið höfum við orðið vitni að magnaðri frammistöðu og árangri langt umfram væntingar, í raun má halda því fram að frammistaða liðsins og þjálfaranna sé kraftaverki líkust.  Það er sannarlega bjart framundan hjá landsliðinu okkar og verður spennandi að sjá framgöngu strákanna á næstu árum.  Síðasti leikur liðsins í evrópumótinu verður síðar í dag, þegar leikið verður við Noreg um 5. sæti.  Til hamingju með frábæran árangur.

Facebooktwittermail

Bóndadagur og skemmtikvöld

Í dag föstudaginn 21. janúar 2022 er Bóndadagur, sem markar upphaf Þorra. Í venjulegu árferði væri nú hafið tímabil þorrablóta um allt land og þá stæði nú hæst undirbúningur fyrir þorrablót suðurnesjamanna í Garði sem væri haldið annað kvöld. En af ákveðnum ástæðum hefur þorrablótinu verið aflýst ! En, þegar svona aðstæður koma upp er mikilvægt að hugsa í lausnum og út fyrir boxið, eins og sagt er.

Knattspyrnufélagið Víðir í Garði hefur staðið að þorrablóti suðurnesjamanna í Garði mörg undanfarin ár. Þar sem þorrablót fellur niður í ár hefur verið brugðið á það ráð að bjóða upp á skemmtikvöld í streymi á netinu annað kvöld, laugardaginn 22. janúar. Hér fyrir neðan er auglýsing frá Knattspyrnufélaginu Víði um skemmtikvöldið. Þar eru m.a. upplýsingar um hvernig á að nálgast streymið í beinni útsendingu á netinu. Þá eru þar upplýsingar um styrktarreikning félagsins, ef einhver væri til í að verðlauna félagið fyrir þetta framlag með einhverju fjárframlagi. Dagskráin verður fjölbreytt og býður upp á mikla skemmtun.

Um leið og við þökkum Knattspyrnufélaginu Víði fyrir þetta skemmtilega framtak er hvatt til að sem flestir streymi skemmtikvöldinu og njóti þess sem þar verður boðið upp á. Það er ánægjulegt fyrir okkur í Suðurnesjabæ að búa að öflugum félagasamtökum og er Knattspyrnufélagið Víðir gott dæmi um það.

Góða skemmtun og til hamingju með daginn karlmenn.

Facebooktwittermail

Molar lifna við

Nokkuð er liðið síðan síðustu Molar úr Suðurnesjabæ birtust.  Molar eru ágætur vettvangur til að koma á framfæri ýmsu því sem á sér stað í Suðurnesjabæ, en allt sem fram kemur í Molum eru á ábyrgð bæjarstjóra og er markmiðið að deila fréttamolum og upplýsingum, ásamt því að bæjarstjóri á það til að deila sínum sjónarmiðum um einstök mál.

Um nýliðin áramót birti bæjarstjóri Suðurnesjabæjar pistil á heimasíðu sveitarfélagsins undir yfirsögninni „Við áramót“.  Þar var stiklað á stóru um ýmislegt sem tilheyrir árinu 2021 og kenndi þar ýmissa grasa, án þess að nánar sé farið út í það hér heldur vísað á greinina á heimasíðunni sudurnesjabaer.is.  Hins vegar er ástæða til að endurtaka það sem þar var skrifað, að áramót eru jafnan mjög sérstök tímamót þar sem litið er yfir liðið ár og rifjað upp hvað það bar í skauti sér.  Þá er ekki síður spennandi að horfa fram á veg og íhuga hvaða væntingar eru til komandi árs. 

Það er ótrúlegt hvað okkur finnst tíminn líða hratt, þegar þetta er skrifað er janúar strax meira en hálfnaður en það er eins og áramótin hafi verið í gær.  Á þeim tíma sem liðinn er frá áramótum hefur ýmislegt verið í gangi.  Covid faraldurinn hefur náð áður óþekktum hæðum hvað fjölda daglegra smita varðar og líður nú óðum að tveggja ára „afmæli“ faraldursins hér á landi.  Þessi faraldur hefur haft mikil áhrif á flestum ef ekki öllum sviðum mannlífs og samfélags, sóttvarnaaðgerðir hafa tekið sífelldum breytingum og eftir því sem faraldurinn dregst á langinn hafa aðgerðir stjórnvalda á hverjum tíma orðið umdeildari, eða réttara sagt um þær hafa orðið skiptari skoðanir en áður.  Auðvitað viljum við öll vera laus við faraldurinn og þær takmarkanir sem honum fylgja.  En, meðan faraldurinn geysar þá er veiran sökudólgurinn sem þarf að bregðast við en ekki þeir aðilar sem bera ábyrgð á aðgerðum.  Vonandi förum við að sjá fyrir endann á þessu ástandi, sem allir eru fyrir löngu búnir að fá nóg af.

Vegna faraldursins og samkomutakmarka sem eru af hans völdum, þá hafa alls konar mannamót legið niðri.  Nú líður að bóndadegi sem markar upphaf Þorra og áralöng hefð er fyrir þorrablótum um allt land.  Um árabil og fram til 2021 var fyrsta laugardag í Þorra haldið þorrablót suðurnesjamanna í Garði.  Vegna samkomutakmarkana féll þorrablótið niður á síðasta ári og ekkert verður af þorrablóti um komandi helgi af sömu ástæðum.  Þess í stað ætlar Knattspyrnufélagið Víðir að bjóða upp á skemmtikvöld í beinu streymi á netinu næsta laugardagskvöld.  Víðir hefur staðið að þorrablótinu mörg undanfarin ár, en að þessu sinni er lausnamiðuð hugsun alls ráðandi og því er brugðið á það ráð að nota tæknina og internetið til að færa skemmtidagskrá heim til okkar.  Það verður spennandi að fylgjast með þeirri dagskrá og vonandi munu sem flestir streyma dagskránni og njóta hennar.

Með tilvísun í þann sérstaka tíma sem áramótin eru, þá er spennandi að horfa fram á veginn og velta fyrir sér hvað nýliðið ár muni bera í skauti sér.  Bæjarstjórinn er bjartsýnn á nýju ári, en burt séð frá Covid faraldrinum eru ýmis merki um að árið geti orðið gott og margt jákvætt muni eiga sér stað.  Hjá Suðurnesjabæ liggja fyrir mörg verkefni og víst er að ýmsar áskoranir eru nánast við hvert fótmál.  Það hefur gengið vel að formgera nýtt sveitarfélag sem varð til um mitt ár 2018, en því verkefni er ekki lokið auk þess sem almennt er starfsumhverfi sveitarfélaga í mikilli þróun.  Þegar Suðurnesjabær varð til þann 10. júní 2018 voru íbúarnir um 3.400, en um síðustu áramót voru þeir orðnir um 3.750. Íbúum hefur því fjölgað á tæpum fjórum árum um 350 manns, sem er rúmlega 10% fjölgun.  Mikill kraftur er í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu þannig að búast má við að fjölgun íbúa verði enn meiri á komandi misserum.  Það er ánægjulegt hve margir sækja til Suðurnesjabæjar með búsetu og eru allir boðnir velkomnir í okkar samfélag.

Facebooktwittermail