Lestrarkeppni grunnskólanna
Lestrarkeppni grunnskólanna er nýlokið, en keppnin gekk út á að safna raddsýnum fyrir vefinn samróm.is og það er Almannarómur og Háskólinn í Reykjavík sem standa að keppninni. Skemmst er frá því að segja að skólarnir okkar, Sandgerðisskóli og Gerðaskóli stóðu sig mjög vel í þessari keppni og fengu báðir verðlaun. Sandgerðisskóli náði framúrskarandi árangri en þar lásu 593 einstaklingar 208.535 setningar og voru það hlutfallslega flestar setningar í keppninni. Gerðaskóli náði einnig frábærum árangri en þar lásu 406 einstaklingar alls 89.336 setningar. Skólarnir okkar fá hamingjuóskir og þakkir fyrir frábæra frammistöðu.

Bæjarráð og Suðurnesjalína
Nú í vikunni var fundur í bæjarráði Suðurnesjabæjar. Að venju voru ýmis mál til umfjöllunar og af ýmsum toga. Bæjarráð bókaði umsögn um frumvarp til laga um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2, sem gengur út á að lögbinda að línan verði lögð sem loftlína. Í bókun bæjarráðs kemur m.a. fram að þrátt fyrir að undirbúningur framkvæmdarinnar hafi nú staðið yfir á annan áratug er ekki komin niðurstaða um hvernig línan verði lögð og er núverandi staða málsins algerlega óviðunandi. Löngu sé orðið tímabært að auka afhendingaröryggi raforku til Suðurnesjabæjar, sem og til að mæta eftirspurn fyrir aukna raforku bæði vegna mikillar fjölgunar íbúa og uppbyggingar atvinnulífs í sveitarfélaginu. Lögð er áhersla á að brýnt og aðkallandi sé að fá niðurstöðu í málið og að framkvæmdir hefjist sem allra fyrst. Bæjarráð gerir þá kröfu að allir viðkomandi aðilar leggi sitt af mörkum til lausnar málsins, hvort sem á við um viðkomandi sveitarfélög, Landsnet eða stjórnvöld sem málið varðar, stofnanir ríkisins, ráðuneyti og Alþingi.
Rafrænt skemmtikvöld Víðis
Síðasta laugardag var rafrænt skemmtikvöld Knattspyrnufélagsins Víðis, sem var sett upp í staðinn fyrir þorrablót sem átti að vera það kvöld. Þetta frábæra framtak tókst einkar vel, margir fylgdust með um netið og tóku þátt. Víðir fær bestu þakkir fyrir þetta skemmtilega og vel heppnaða framtak.
Covid
Það er meðvituð ákvörðun að fjalla ekkert sérstaklega um Covid faraldurinn í Molum, enda væri nánast verið að bera í bakkafullan lækinn með því miðað við alla umfjöllun um málið úti um allt. Hins vegar verður athyglisvert að sjá hvernig stjórnvöld ætla að létta af þeim sóttvarnaaðgerðum sem eru í gildi, en það mun liggja fyrir í dag. Vonandi gengur það allt sem best.
Handboltinn
Íslenska landsliðið í handbolta hefur náð ótrúlegum og eftirtektarverðum árangri á evrópumótinu í handbolta. Fyrirfram bjuggust líklega fæsti við því að liðið kæmist í dauðafæri að komast í undanúrslit á mótinu og miðað við öll afföll leikmanna úr leikmannahópunum meðan keppnin hefur staðið yfir vegna covid smita var útlitið sannarlega ekki gott. En, þegar upp er staðið höfum við orðið vitni að magnaðri frammistöðu og árangri langt umfram væntingar, í raun má halda því fram að frammistaða liðsins og þjálfaranna sé kraftaverki líkust. Það er sannarlega bjart framundan hjá landsliðinu okkar og verður spennandi að sjá framgöngu strákanna á næstu árum. Síðasti leikur liðsins í evrópumótinu verður síðar í dag, þegar leikið verður við Noreg um 5. sæti. Til hamingju með frábæran árangur.


