Molar 6. vika 2022.

Ánægjulegur áfangi

Nú í vikunni hófst starfsemi dagdvalar fyrir aldraða í Suðurnesjabæ og Sveitarfélaginu Vogum.  Dagdvölin er í húsnæði þar sem áður var Garðvangur, en í góðu samstarfi við eiganda húsnæðisins er það tekið á leigu fyrir dagdvölina.  Þetta er merkilegur áfangi, ekki aðeins í því tilliti að verið er að auka þjónustu við aldraða, heldur og ekki síður að þetta er fyrsta heilbrigðisþjónusta sem fjármögnuð er að mestu af ríkinu sem sett er upp í Suðurnesjabæ um langt árabil.  Næsti áfangi á sömu leið er að ná því fram að íbúunum bjóðist að njóta þjónustu heilsugæslu í sinni heimabyggð.  Það er full ástæða til að óska Suðurnesjabæ og Sveitarfélaginu Vogum til hamingju með þennan áfanga, jafnframt er þess óskað að aldraðir megi njóta þessarar þjónustu, sem er meðal annars með það að markmiði að styðja aldraða við að hafa sem lengst búsetu á eigin heimili.  Á heimasíðu Suðurnesjabæjar er frétt um málið, þar sem fram koma frekari upplýsingar.

Bæjarráð

Nú í vikunni var fundur hjá bæjarráði.  Óvenju fá mál voru á dagskrá, en þau voru hvert öðru stærra og mikilvægara.  Í fyrsta lagi var fjallað um undirbúning framkvæmda við byggingu á nýjum leikskóla, sem vonandi hefjast fljótlega og er stærsta fjárfesting sveitarfélagsins.  Síðan má nefna að lagðar voru fram niðurstöður könnunar um viðhorf íbúa til þjónustu og búsetu í Suðurnesjabæ.  Skemmst er frá því að segja að Suðurnesjabær fær mjög góða einkunn hjá íbúum sínum, hvort sem litið er til þjónustu sveitarfélagsins eða kosti þess að búa í Suðurnesjabæ.  Starfsfólk og kjörnir fulltrúar eru í senn stolt og þakklát fyrir þessar niðurstöður, sem benda til þess að sveitarfélagið stendur sig mjög vel í þjónustu við íbúana.  Í nokkrum liðum er hægt að gera betur og verður unnið að úrbótum í þeim efnum. 

Nýbygging leikskólans er fjárfesting sem varðar 66. grein sveitarstjórnarlaga, þar sem kveðið er á um að ef einstaka fjárfestingar fara umfram 20% af skatttekjum beri að vinna sérstaka greiningu um áhrif fjárfestingarinnar á fjárhag og rekstur sveitarfélagsins.  Á fundi bæjarráðs var lögð fram álitsgerð Haraldar Líndal Haraldssonar um greiningu á áhrifum fjárfestingar í leikskólanum, sem mun fara umfram 20% af skatttekjum Suðurnesjabæjar.  Niðurstaðan er sú að fjárhagur sveitarfélagsins er mjög sterkur, sveitarfélagið mun standast fjármálareglur sveitarstjórnarlaga þannig að ekki eru gerðar athugasemdir um að fjárfestingin muni komi illa við fjárhag eða rekstur sveitarfélagsins.  Það er að sjálfsögðu ánægjuleg niðurstaða sem staðfestir góða og sterka fjárhagslega og efnahagslega stöðu Suðurnesjabæjar.  Loks má nefna að bæjarráð samþykkti samhljóða að staðfesta nýja starfræna húsnæðisáætlun Suðurnesjabæjar.

Skipulag og þróun lands í nágrenni Keflavíkurflugvallar

Kadeco fer fyrir hönd ríkisins með eignarhald á víðfeðmu landi í nágrenni Keflavíkurflugvallar.  Á síðasta ári fór fram alþjóðleg samkeppni um skipulag og þróun svæðisins og liggur nú fyrir að alþjóðlegt teymi undir merkjum KCAP vann samkeppnina.  Í teyminu eru m.a. VSÓ ráðgjöf og Kanon arkitektar, sem Suðurnesjabær hefur átt ágætt samstarf við undanfarin ár.  KCAP teymið kom á fund bæjarstjórnar og æðstu stjórnenda Suðurnesjabæjar í byrjun vikunnar, þar sem teymið kynnti sínar hugmyndir um skipulag og þróun svæðisins.  Fulltrúar Suðurnesjabæjar komu sínum áherslum á framfæri og var augljóst að ekki var fullur samhljómur milli aðila, en framundan er mikilvægt samstarf um verkefnið og að sjálfsögðu er von til þess að niðurstöðurnar verði hagfelldar því í verkefninu felast mjög spennandi og mikil tækifæri sem geta haft mikil og jákvæð áhrif á hagkerfi svæðisins og í raun landsins í heild til framtíðar.

Náttúruöflin

Í Suðurnesjabæ felst helsta náttúruváin í sjávarflóðum.  Nú frá áramótum hefur veðurfar verið mjög rysjótt og í vikunni fengum við yfir okkur óveður í tvígang.  Vegagerðin rekur öldumælingadufl út af Garðskaga og er oft áhugavert að fylgjast með sjólagi út frá mælingum á ölduhæð frá duflinu.  Nú í vikunni setti duflið íslandsmet og að öllum líkindum heimsmet, þegar duflið mældi mestu ölduhæð sem mælst hefur.  Að vísu brann duflið yfir, því það hætti að mæla ölduhæð sem var komin í 40 metra, þar sem duflið er ekki hannað til að mæla hærri öldur.  Duflið mældi margar öldur sem fóru langt yfir 20 metra hæð í sama veðri.  Þetta er með ólíkindum, en skýrir af hverju ágangur sjávar er að valda miklu landbroti víða við strönd Suðurnesjabæjar, einnig að laska sjóvarnir á nokkrum stöðum auk þess sem sjórinn kastar langt upp á land stórgrýti og þara, en einnig hefur á nokkrum stöðum orðið vart við fiska af ýmsum tegundum og fugla sem hafa kastast upp á land og liggja eins og hráviði á nokkrum stöðum.  Við hjá Suðurnesjabæ höfum við hvert tækifæri lagt okkur fram um að vekja athygli á þeirri vá sem beinist að svæðinu, annars vegar þar sem land er víða að síga við ströndina og hins vegar þar sem sjávarborð er að hækka vegna loftslagsbreytinga.  Heimsmetið í ölduhæð sem var slegið í vikunni er líklega gott dæmi um þær breytingar sem eru að verða á sjávarhæð við landið af völdum loftslagsbreytinga.  Það er augljóst að framundan er frekari og nauðsynleg uppbygging sjóvarna víða með ströndum.  Til þess þarf mikla fjármuni og það er nokkuð rökrétt að ríkið ætti að setja upp sérstakan sjóð til að fjármagna nauðsynlegar sjóvarnir, líkt og gert var með stofnun ofanflóðasjóðs til að fjármagna snjóflóðavarnir og aðrar varnir gegn skriðuföllum. 

Líður á veturinn

Nú er febrúar næstum hálfnaður og tíminn líður hratt að vanda.  Mörgum þykir janúar og febrúar erfiðustu mánuðir ársins vegna vetrartíðar, leiðinda veðurfars og myrkurs.  Það má til sanns vegar færa, en nú er sannarlega ástæða til að hlakka til komandi vikna þegar febrúar rennur sitt skeið og vorið nálgast með sama hraða og veturinn hopar. 

Góða helgi.

Facebooktwittermail