Sumartíð og grindhvalir

Tími sumarleyfa

Undanfarnar vikur hafa margir notið sumarleyfa. Bæjarhátíðir eru haldnar víða um land allar helgar sumarmánuðanna og margir ferðast um landið til að njóta náttúrunnar og samvista við fjölskyldur og vini. Veðrið á sunnan-og vestanverðu landinu hefur verið með besta móti þetta sumarið, en eins og yfirleitt er þá er veðurfarið með öðrum hætti á hinum helmingi landsins. Síðasta sumar var þessu alveg öfugt farið, þegar leiðinda tíð var meira og minna allt sumarið á sunnan-og vestanverðu landinu en gott sumarveður norðan-og austanlands. Sumarumferðin markast jafnan af veðrinu, eðlilega sækir landinn í góða veðrið þar sem það er hverju sinni. Mesta ferðahelgi sumarsins var um síðustu helgi, um Verslunarmannahelgina. Undirritaður sótti í fyrsta skipti Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og var það í senn mikil og ánægjuleg upplifun. Einmuna veðurblíða var í Eyjum alla helgina og var ánægjulegt að taka þátt í vel heppnaðri hátíð með þúsundum gesta sem dvöldu í Heimaey.

Grindhvalir í Garði

Verslunarmannahelgin var ekki tíðindalaus í Suðurnesjabæ. Á föstudags kvöldið syntu nokkrir tugir grindhvala á land á ströndina framan við Útskálakirkju í Garði. Skjótt var brugðist við og tókst að bjarga mörgum hvalanna af ströndinni á haf út, þannig að dýrin mættu ekki örlögum sínum á ströndinni. Eftir lá nokkur fjöldi dauðra hvala sem tókst að draga á haf og sökkva. Sú aðgerð var framkvæmd í samráði og með leyfi þar til bærra yfirvalda. Allar aðgerðir tókust mjög vel og margir tóku þátt í þeim. Framganga björgunarsveitafólks var aðdáunarverð, þar sem fagmennska og fumlausar aðgerðir báru þann árangur að þessum aðgerðum lauk á stuttum tíma. Þá voru öll samskipti og samstarf starfsfólks Suðurnesjabæjar við björgunarsveitir, stofnanir og aðra viðkomandi aðila til fyrirmyndar. Fyrir það þakkar Suðurnesjabær.

Það er ekki einfalt verkefni að takast á við aðstæður eins og þær sem komu upp við landgöngu grindhvalanna á föstudaginn. Það er athyglisvert hve slíkum atburðum hefur fjölgað undanfarin ár. Ýmist hafa hópar smáhvala hreinlega synt upp í fjörur, eða einstaka hvali hefur rekið á land. Stofnanir og stjórnvöld hafa mótað ákveðið verklag til að bregðast við slíkum atburðum, með ákveðnu samstarfi stofnana og ýmissa aðila. Hins vegar má læra af okkar reynslu af þessu máli og verður því komið á framfæri við viðkomandi stjórnvöld, en um þessar mundir er unnið að enn frekari útfærslu á viðbragðsáætlunum til að takast á við svona aðstæður. Þess má geta að áhersla er lögð á það, að ef fólk verður vart við einstaka hvali eða hvalahópa í fjörum, þá ber að tilkynna það til lögreglu sem virkjar viðkomandi viðbragðsaðila.

Framganga björgunarsveitarfólks við björgun grindhvalanna og hreinsun á ströndinni er aðdáunarverð. Þar sem mesta ferðahelgi sumarsins stóð yfir voru færri einstaklingar tiltækir til aðgerða en að öllu jöfnu, en þeir einstaklingar sem gáfu sig í verkefnið lögðu sig alla fram og skiluðu góðu verki. Björgunarsveitirnar sem tóku þátt í þessum aðgerðum fá sérstakar þakkir fyrir þeirra framlag, en það sýnir enn og aftur hve mikilvægar björgunarsveitirnar eru í okkar samfélagi og hve þeir einstaklingar sem starfa innan þeirra eru alltaf tilbúnir til aðgerða ef á þarf að halda.

Undirritaður þakkar einnig því starfsfólki Suðurnesjabæjar sem stóðu vaktina og tóku þátt í aðgerðum fyrir þeirra framlag. Þetta starfsfólk var að störfum alla Verslunarmannahelgina og fyrir það er þakkað.


Facebooktwittermail