Menntun og heilbrigði

Eftir að sumarleyfi eru að mestu gengin yfir er daglegt líf og störf nú að falla í sinn eðlilega farveg.

Skólaárið að hefjast hjá grunnskólum

Í liðinni viku sat undirritaður mjög áhugaverða haustráðstefnu fræðslusviðs Reykjanesbæjar fyrir starfsfólk grunnskólanna í Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ, nú við upphaf nýs skólaárs. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Menntun og velferð fyrir alla: skóli margbreytileika, fjölmenningar og vináttu“. Vel var staðið að ráðstefnunni og þar voru flutt athyglisverð og góð erindi.

Heilsueflandi samfélag á Suðurnesjum

Nú í vikunni var undirrituð viljayfirlýsing um samstarf vegna heilsueflandi samfélags á Suðurnesjum. Að verkefninu standa sveitarfélögin á Suðurnesjum ásamt Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum og Embætti landlæknis. Markmið með samstarfinu er að með markvissari hætti megi greina stöðu og leita lausna sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa á Suðurnesjum. Þetta er spennandi samstarfsverkefni og mun vera í fyrsta skipti sem Embætti landlæknis og heilbrigðisstofnun taka upp samstarf við sveitarfélög í heilum landshluta um þetta málefni. Myndin að neðan sýnir áhrifaþætti heilbrigðis og vellíðunar og gefur ágætt yfirlit yfir þá fjölmörgu þætti sem horfa þarf til varðandi vellíðan allra íbúa samfélagsins.

Bæjarráð

Nú í vikunni fundaði bæjarráð Suðurnesjabæjar. Að venju voru ýmis og margvísleg mál á dagskrá. Fyrir fundinum lá m.a. minnisblað um aðgerðir vegna grindhvala sem syntu á land neðan við Útskálakirkju fyrir nokkru. Bæjarráð færir starfsfólki Suðurnesjabæjar og öllum þeim aðilum sem komu að aðgerðum fyrir þeirra framlag og vel unnin störf. Þá samþykkti bæjarráð umsögn um drög að flugstefnu fyrir Ísland og samþykkt var að taka tilboði í framkvæmd við hringtorg við Byggðaveg í Sandgerði, svo örfá mál séu nefnd.

Sandgerðisdagar

Framundan er bæjarhátíðin Sandgerðisdagar, sem mun standa yfir vikuna 26. ágúst – 31. ágúst. Sandgerðisdagar hafa verið haldnir um langt árabil á þessum árstíma og má segja að hátíðin móti skilin milli sumars og hausts. Dagskrá Sandgerðisdaga verður birt á næstu dögum og eru íbúar Suðurnesjabæjar og gestir hvattir til þátttöku og að njóta þeirra viðburða sem í boði verða.

Haustið minnir á sig

Veðuráttan undanfarið minnir okkur á að hausttíðin færist yfir. Dagarnir hafa flestir verið sólríkir en blásið hefur með norðanvindi sem hefur haldið hitastiginu í skefjum. Nú fer að renna upp árstími uppskeru og sláturtíðar, þar sem meðal annars fólk sækir berjalönd heim í þeim tilgangi að tína safarík og meinholl ber. Þótt svo sumarið hafi verið sólríkt og hlýtt í veðri um sunnan og vestanvert landið þá berast fregnir af því að berjaspretta sé frekar takmörkuð, sem er líkleg afleiðing af langvarandi þurrkum. Þó má eflaust finna gjöful berjasvæði sem gefa vel af sér.

Facebooktwittermail