Sandgerðisdagar

Þessa vikuna stendur yfir bæjarhátíðin Sandgerðisdagar í Suðurnesjabæ. Bæjarhátíðin í Sandgerði hefur verið haldin í um 20 ár og skapað fastan sess í samfélaginu. Dagskrá vikunnar er í senn fjölbreytileg og áhugaverð, þar ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Viðburðir eru alla daga vikunnar og lýkur Sandgerðisdögum með kvöldskemmtun og flugeldasýningu á laugardagskvöld. Fjölmargir aðilar koma að undirbúningi og framkvæmd viðburða og dagskrárliða á Sandgerðisdögum og er ánægjulegt hve allir þessir aðilar leggja fram sitt framlag af mikilli ánægju og jákvæðni.

Einn af föstu liðum Sandgerðisdaga er Loddugangan og fór hún fram í gærkvöldi, fimmtudag. Þá safnast íbúar saman við Vörðuna og gengið er um Sandgerði undir leiðsögn. Þessi liður hefur notið mikilla vinsælda og hefur þátttaka jafnan verið mikil. Hópurinn sem tekur þátt í göngunni er vigtaður á hafnarvoginni og að þessu sinni vó hópurinn 28,1 tonn. Leiðsögumenn að þessu sinni voru Hobbitarnir Ólafur Þór og Hlynur Þór, sem tóku lagið á öllum stoppistöðum.

Annar fastur liður Sandgerðisdaga er hátíðardagskrá í Sandgerðiskirkju. Að þessu sinni var sá viðburður á miðvikudagskvöldið, með tónleikum frábærra listamanna úr heimasveit og gesta. Eitt af mörgum hlutverkum bæjarstjórans er að aðstoða nemendur Sandgerðisskóla við að draga upp fána Sandgerðisdaga. Sú athöfn fór fram í morgun, föstudag og var ánægjulegt að aðstoða yngsta nemanda skólans við það verkefni. Á morgun laugardag verður skemmtidagskrá við Sandgerðisskóla og lýkur Sandgerðisdögum sem fyrr segir seint á laugardagskvöld.

Ragnheiður Gröndal söngkona og Guðmundur Pétursson gítarleikari í Sandgerðiskirkju

Svona bæjarhátíðir eru haldnar um allt land, nánast hverja viku og helgi frá vori og fram á haust. Þetta eru mikilvægir viðburðir í hverju samfélagi og eru til þess fallnir að efla kynni og auka samstarf íbúanna, sem styrkir hvert samfélag. Fjölmörg fyrirtæki og aðrir aðilar leggja sitt af mörkum með ýmsum hætti og sýna með því samfélagslega ábyrgð. Allt er þetta jákvætt.

Suðurnesjabær þakkar öllum þeim sem hafa komið að undirbúningi Sandgerðisdaga. Það er mikið verkefni og fjölmargt sem þarf að huga að. Þá eru færðar þakkir til allra þeirra sem taka þátt í framkvæmd og leggja sitt af mörkum við einstaka viðburði. Það er ánægjulegt að upplifa samtakamáttinn sem birtist í þessu öllu saman.

Góða helgi.

Facebooktwittermail