Enn ein vikan í farsótt

Eftir því sem lengra líður frá því Covid faraldurinn hófst fyrir alvöru, því betur er hægt að gera sér grein fyrir því fordæmalausa ástandi sem ríkir.  Tilveran hefur tekið algerum breytingum, ekki bara hér heima heldur nánast um veröld alla.  Einhvern veginn er erfitt að sjá fyrir sér nú að allt geti orðið aftur eins og var fyrir nokkrum vikum.  En, það kemur allt í ljós og vonandi tekst okkur vel til við að vinna okkur út úr þeim erfiðu aðstæðum sem skapast hafa.

Covid faraldurinn kemur misjafnlega niður á einstökum landsvæðum og byggðarlögum.  Við fáum reglulega upplýsingar um fjölda smitaðra og þeirra sem eru í sóttkví í hverju sveitarfélagi.  Það er mikilvægt fyrir stjórnendur sveitarfélaga að hafa alltaf nýjustu upplýsingar um stöðu mála í viðkomandi sveitarfélagi, m.a. til þess að geta tekið ákvarðanir og unnið út frá stöðunni.  Í dag, samkvæmt síðurstu upplýsingum þann 3. apríl voru 7 einstaklingar greindir með smit í Suðurnesjabæ og 47 í sóttkví.  Við sendum þeim sem eru veikir okkar bestu kveðjur með ósk um skjótan og farsælan bata.  Óskum þeim sem eru í sóttkví þess að sleppa við að greinast með smit.

Síðasta vika hefur eins og undanfarnar vikur verið annasöm og viðburðarík.  Fyrir utan öll Covid málin sem upp hafa komið og þurft hefur að bregðast við, þá var fundur í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar í vikunni.  Fundurinn var haldinn í Vörðunni og þess gætt að fara eftir öllum fyrirmælum um sóttvarnir, m.a. fjarlægð milli einstaklinga, hreinlæti o.fl.   Þar var að vanda mikill fjöldi mála á dagskrá og bæjarstjórnin tók afstöðu til og afgreiddi fjölda mörg mál.   Eitt af þeim málum sem var á dagskrá var ósk frá Ólafi Þór Ólafssyni bæjarfulltrúa til 18 ára um lausn frá setu í bæjarstjórn.  Ólafur Þór er nýr sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps og er því bæði að skipta um starfsvettvang og heimasveitarfélag.  Það er mikil eftirsjá að Ólafi Þór.  Hann er í senn traustur, ábyrgur og víðsýnn samstarfsmaður sem gott hefur verið að vinna með.  Ég óska Ólafi Þór alls góðs og farsældar á nýjum vettvangi. Hér er Ólafur Þór með gjafir sem bæjarstjórn færði honum á fundi bæjarstjórnar.

Undanfarnar vikur hefur mikið mætt á skólunum okkar.  Nú eru grunnskólarnir og tónlistarskólarnir farnir í páskafrí, en leikskólarnir munu starfa í næstu viku.  Ég þakka stjórnendum allra skólanna í Suðurnesjabæ, öllu starfsfólki þeirra, nemendum og foreldrum fyrir þeirra framlag til þess að skólarnir hafa getað starfað.  Það hefur verið flókið verkefni, margar áskoranir, aðlögunarhæfni og umfram allt lausnarmiðuð vinnubrögð.  Allt þetta fólk á skilið mikið hrós.

Þegar svona aðstæður koma upp, spretta gjarnan fram alls konar hugmyndir og lausnir.  Sem dæmi um það má nefna heimanám nemenda í grunnskólunum, í bókasafninu var opnuð bókalúga til þess að íbúar gætu nýtt sér útlán bóka en það var síðan stoppað af vegna smitvarna.  Tónlistarskólarnir í Suðurnesjabæ settu af stað fjarkennsla strax fyrstu daga í samkomubanni, heimilisfræðikennarar í Sandgerðisskóla settu af stað netkennslu og í Gerðaskóla var fylgst náið með páskaungum klekjast úr eggjum, því var streymt beint á netinu.  Þjálfarar í líkamsræktarstöðvum íþróttamiðstöðvanna settu af stað netþjálfun og loks má nefna heimsendingarþjónusta á tilbúnum mat frá veitingahúsinu Röst á Garðskaga.  Það hefur verið gaman að fylgjast með hugmyndaauðgi margra í þessum aðstæðum.

Framundan er Dymbilvika, sem leiðir okkur inn í Páskahelgina, með öllum sínum góðu frídögum og helgidögum.  Það er ástæða til þess að taka undir áherslur almannavarna um að sem flestir haldi sig heima um Páska og forðist mannfagnaði.  Þetta mun örugglega reynast mörgum erfitt, því okkar hefð um Páska felur í sér ferðalög, samfundi og mannfögnuði.  Við verðum að breyta frá venjunni að þessu sinni, allt í þágu smitvarna og baráttunnar gegn farsóttinni.  Eftir því sem við stöndum öll þéttar saman og förum bókstaflega eftir leiðbeiningum og fyrirmælum almannavarna, því fyrr getum við búist við því að líf okkar færist í eðlilegt horf.

Góða helgi.

Facebooktwittergoogle_plusmail