Við lok Páska

Vonandi hafa allir haft það gott um Páska, þrátt fyrir óvenjulegar aðstæður.  Páskahátíðin að þessu sinni var öðru vísi en allar aðrar páskahelgar sem undirritaður hefur upplifað, enda er samfélagið allt mótað af aðgerðum og afleiðingum Covid-19 heimsfaraldursins.  Þær aðgerðir sem hafa verið í gildi undanfarnar vikur munu standa yfir í um þrjár vikur til viðbótar, þar til byrjað verður að draga úr þeim.  Hvernig það verður gert mun koma í ljós síðar í vikunni, en við megum gera ráð fyrir að hægt verði dregið úr þeim næstu vikur og jafnvel mánuði.  Sá góði árangur sem náðst hefur með þeim sóttvarnaaðgerðum sem hafa verið í gildi byggir á samstöðu þjóðarinnar allrar um að fylgja leiðbeiningum og tilmælum sóttvarnayfirvalda og almannavarna.  Það er í senn ánægjulegt og þakkar vert.  Þegar upp verður staðið mun sú samstaða hafa leitt okkur saman gegnum þann faraldur sem gengur yfir.  Framtíðin mun svo fela í sér þær afleiðingar sem þetta mun allt hafa, ekki aðeins á Íslandi heldur um allan heiminn.

Þar sem þær aðgerðir sem hafa staðið yfir síðustu vikur munu gilda til 4. maí, þá mun starfsemi Suðurnesjabæjar verða með sama hætti og verið hefur undanfarnar vikur.  Fyrir páskafrí skólanna var tekin ákvörðun um að þriðjudagurinn 14. apríl verði starfsdagur í skólunum, til þess að gefa stjórnendum og starfsfólki svigrúm til að yfirfara skipulag skólastarfsins og leggja á ráðin fyrir næstu vikur.  Skólastarf mun svo hefjast með því að nemendur mæti í sína skóla miðvikudaginn 15. apríl.

Eins og áður var ákveðið, þá mun starfsfólk í ráðhúsum Suðurnesjabæjar halda áfram sínum störfum samkvæmt því fyrirkomulagi sem verið hefur og verður svo þar til fyrirmæli vegna sóttvarna taka breytingum.  Bæði ráðhúsin verða lokuð áfram, en hægt verður að ná sambandi við starfsfólk gegnum síma 425-3000, eða með tölvupósti í póstfangið afgreidsla@sudurnesjabaer.is. Flest starfsfólk ráðhúsanna vinnur sín verkefni heima. 

Þegar heilbrigðisráðherra hefur gefið út hvernig staðið verður að því að draga úr sóttvarnaaðgerðum eftir 4. maí, þá verður farið í að endurskoða skipulag á starfsemi sveitarfélagsins.  Þá verða einnig teknar frekari ákvarðanir um starfsemi og þjónustu, viðburði og annað sem ráðgert hafði verið á þessu ári, en hefur ekki verið mögulegt að skipuleggja eða ráðast í vegna þeirrar óvissu sem ríkir vegna faraldursins. 

Það er ljóst að undanfarnar vikur hefur mjög reynt á samfélagið allt, atvinnulíf og daglegt líf okkar allra.  Við þessar aðstæður reynir mjög á þolgæði okkar allra, úthald og þolinmæði.  Við verðum að mæta þessu öllu með æðruleysi og kærleika, horfa með bjartsýni og tilhlökkun til allra þeirra verkefna sem vinna þarf þegar þjóðfélagið fær aftur að sinna daglegu lífi og starfi án þeirra takmarkana og hamla sem við búum við um þessar mundir.  Þessa dagana á vel við að þolinmæði þrautir vinnur allar.

Gangi okkur öllum sem allra best 😉

Facebooktwittergoogle_plusmail