Faraldur í rénun

Það er ánægjulegt að fylgjast með því hve dregur úr Covid faraldrinum hér á landi.  Greinilegt er að aðgerðir til smitvarna hafa skilað miklum árangri.  Þeim árangri er ekki síst að þakka almenningi, sem hefur tekið virkan og almennan þátt í því að fylgja eftir þeim leiðbeiningum og fyrirmælum sem gefin hafa verið út til varnar útbreiðslu faraldursins. 

Samkvæmt upplýsingum sem borist hafa, þá hafa 8 íbúar Suðurnesjabæjar smitast af Covid-19 en allir hafa náð bata.  Samkvæmt síðustu upplýsingum voru um 3 íbúar í sóttkví.  Það má því heita að í dag sé sveitarfélagið nánast laust við faraldurinn.  Þetta eru ánægjulegar staðreyndir, sem ættu að veita okkur styrk til að halda áfram að fylgja fyrirmælum um sóttvarnir.  Það hefur verið áberandi hvað íbúar Suðurnesjabæjar hafa tekið leiðbeiningum og fyrirmælum af mikilli alvöru og fylgt þeim vel eftir.  Í starfsemi sveitarfélagsins hefur öllum fyrirmælum verið fylgt og vel það, til dæmis í skólunum þar sem hefur gengið vel og engin smit komið upp.  Nokkrir starfsmenn hafa haldið sig heima að læknisráði, þar sem um er að ræða einhverja skilgreinda áhættuþætti hjá hverjum og einum.

Ráðhús Suðurnesjabæjar í Garði og Sandgerði hafa verið lokuð undanfarið og flest starfsfólk unnið að sínum verkefnum heimafyrir.  Með þessu fyrirkomulagi hefur verið gengið aðeins lengra í þágu sóttvarna en mörg sveitarfélög hafa gert.  Á næstu dögum verða stigin stutt skref til baka, ráðhúsið í Garði verður opnað aftur hluta úr degi, en með takmörkuðum aðgangi og verður það auglýst sérstaklega.  Starfsfólki ráðhúsanna verður skipt upp í tvo hópa, sem munu skiptast á að vinna í ráðhúsum eða heima.  Þetta gildir til 1.maí og verður nánar auglýst á heimasíðu sveitarfélagsins.  Eftir sem áður geta allir náð sambandi við ráðhúsin um síma 425-3000, eða í póstfang afgreidsla@sudurnesjabaer.is.

Eins og fram hefur komið munu heilbrigðisyfirvöld taka fyrstu skrefin til að létta á samkomubanni þann 4. maí nk.  Í næstu viku mun aðgerðastjórn sveitarfélagsins leggja línur um hvernig því verður mætt í Suðurnesjabæ og verður það tilkynnt þegar þar að kemur.  Það er ljóst að endurskoða þarf ýmis áform um viðburði og annað sem gert hafði verið ráð fyrir í vor, sumar og fram í haustið.  Vonandi getum við þrátt fyrir allt gert okkur ýmislegt til skemmtunar, en það verður að koma í ljós.

Fram hafa komið nokkrar áhyggjur af því að almenningur sé farinn að slaka á taumunum í sóttvörnum, sérstaklega eftir að ljóst var að dregið hefur úr faraldrinum og að byrjað verður að slaka á samkomubanni í byrjun maí.  Það eru ríkir hagsmunir okkar allra að við sýnum úthald og þolgæði við að fara eftir fyrirmælum og leiðbeiningum í þágu sóttvarna.  Það er ennþá apríl mánuður, maí er ekki kominn og við eigum að gera þá skýlausu kröfu hvert á annað að við förum öll eftir fyrirmælunum, því það er í þágu þjóðfélagsins alls og miðar í senn að því að drepa niður faraldurinn, en ekki síður að koma samfélagslegri virkni og atvinnulífinu af stað aftur.  Við erum öll upplýst um hvaða afleiðingar eru nú þegar orðnar af þessum faraldri, við höfum gengið samhent og taktviss í gegnum verkefnið síðustu vikur og við eigum að líta á það sem okkar skyldu og ábyrgð að halda því áfram því það þjónar hagsmunum okkar allra.  Gangi okkur öllum vel með það og munum að við erum öll almannavarnir.

Facebooktwittermail