Gleðilegt sumar

Sumardagurinn fyrsti hefur jafnan markað ákveðin tímamót og gjarnan eru hátíðahöld af einhverju tagi til að fagna því að vetur er að baki. Við drögum íslenska fánann að hún þennan dag, enda er Sumardagurinn fyrsti einn af okkar hátíðardögum.  Að þessu sinni voru líklega hvergi almenn hátíðahöld í dag, við förum eftir leiðbeiningum og hlýðum tilmælum um sóttvarnir og það allt saman gerði það að verkum að við fögnum sumri hvert fyrir sig og kannski með okkar nánustu fjölskyldu, en ekki í fjölmenni eins og tíðkast hefur.

Liðinn vetur verður skráður í annála fyrir ýmsar sakir. Óvenju “leiðinleg” veður ríktu á löngum köflum og á Suðurnesjum var þessi vetur óvenju snjóþungur og oftar en flesta undanfarna vetur gusuðust yfir okkur hríðarveður með tilheyrandi samgöngutruflunum og snjómokstri.  Atburðir síðustu vikna vetrarins verða væntanlega ritaðir með feitu letri í annála vegna heimsfaraldurs Covid-19 sem setti allt á annan endann, bæði hér á landi en ekki síður um allan heiminn.  Það er því ekki með miklum trega sem við segjum bless við liðinn vetur.  En, við kveðjum hann þó með virðingu og þakklæti fyrir ýmislegt sem er þakkar vert, því það er aldrei svo að ekki sé eitthvað jákvætt að finna þegar litið er til baka.

Nú er rúmlega vika þar til fyrsta skref verður tekið við tilslakanir frá samkomubanni og sóttvarnarráðstöfunum vegna Covid-19 faraldursins.  Síðustu vikur hafa verið uppi alls konar áskoranir og margvísleg verkefni vegna faraldursins og sóttvarnarráðstafana.  Það hefur mikið mætt á mörgu starfsfólki Suðurnesjabæjar og á köflum hafa ríkt krefjandi aðstæður sem kölluðu á lausnamiðaða hugsun. Bæjarstjórinn er stoltur og þakklátur starfsfólki Suðurnesjabæjar fyrir það hve vel hefur gengið að halda starfsemi og þjónustu sveitarfélagsins í góðu horfi á þessum tíma. Þegar faraldurinn var að hefja innreið sína og sóttvarnayfirvöld fóru að herða tökin, þá voru dregnar fram og uppfærðar viðbragðsáætlanir sem unnið hefur verið eftir. Það hefur gengið vel, við erum öll reynslunni ríkari og erum enn betur en áður í stakk búin til að takast á við erfiðar og krefjandi aðstæður.  Þá hefur samstaðan verið þétt og í raun aðdáunarvert hve samfélagið hefur staðið saman eins og einn maður við að takast á við erfiðar aðstæður.

Þótt svo stutt sé í 4. maí, þegar fyrstu tilslakanirnar taka gildi, þá erum við ennþá stödd í apríl og við eigum öll að gera okkur grein fyrir því að faraldurinn deyr ekki út í byrjun maí.  Við verðum að halda áfram þeirri samstöðu og samtakamætti sem ríkt hefur, hvetjum hvert annað til að fylgja tilmælum og sýnum hið rómaða íslenska þolgæði til að takast á við erfiðar aðstæður.  Það er í þágu hagsmuna okkar allra og þannig mun okkur takast að komast á leiðarenda í baráttunni við faraldurinn.

Ég óska öllum gleðilegs sumars, með von um betri tíð og blóm í haga.

Facebooktwittermail