Bóndadagur og skemmtikvöld

Í dag föstudaginn 21. janúar 2022 er Bóndadagur, sem markar upphaf Þorra. Í venjulegu árferði væri nú hafið tímabil þorrablóta um allt land og þá stæði nú hæst undirbúningur fyrir þorrablót suðurnesjamanna í Garði sem væri haldið annað kvöld. En af ákveðnum ástæðum hefur þorrablótinu verið aflýst ! En, þegar svona aðstæður koma upp er mikilvægt að hugsa í lausnum og út fyrir boxið, eins og sagt er.

Knattspyrnufélagið Víðir í Garði hefur staðið að þorrablóti suðurnesjamanna í Garði mörg undanfarin ár. Þar sem þorrablót fellur niður í ár hefur verið brugðið á það ráð að bjóða upp á skemmtikvöld í streymi á netinu annað kvöld, laugardaginn 22. janúar. Hér fyrir neðan er auglýsing frá Knattspyrnufélaginu Víði um skemmtikvöldið. Þar eru m.a. upplýsingar um hvernig á að nálgast streymið í beinni útsendingu á netinu. Þá eru þar upplýsingar um styrktarreikning félagsins, ef einhver væri til í að verðlauna félagið fyrir þetta framlag með einhverju fjárframlagi. Dagskráin verður fjölbreytt og býður upp á mikla skemmtun.

Um leið og við þökkum Knattspyrnufélaginu Víði fyrir þetta skemmtilega framtak er hvatt til að sem flestir streymi skemmtikvöldinu og njóti þess sem þar verður boðið upp á. Það er ánægjulegt fyrir okkur í Suðurnesjabæ að búa að öflugum félagasamtökum og er Knattspyrnufélagið Víðir gott dæmi um það.

Góða skemmtun og til hamingju með daginn karlmenn.

Facebooktwittermail