Þorrinn kveður

Konudagur

Nú á sunnudaginn er konudagurinn, sem markar upphaf Góu og þá verður Þorrinn að baki. Við karlarnir í ráðhúsum Suðurnesjabæjar buðum samstarfskonum okkar í brunch nú í hádeginu á föstudegi í aðdraganda konudagsins. Þar var boðið upp á góðgæti og allar fengu konurnar gjafir frá okkur körlunum, svo var að sjálfsögðu slegið á létta strengi. Konur fá fyrirfram hamingjuóskir með konudaginn.

Samstarfskonur í bröns í tilefni konudags

Framlínustarfsfólk á Suðurnesjum

Sveitarfélögin og stofnanir ríkisins á Suðurnesjum hafa undanfarin misseri unnið sameiginlega að því að efla framlínustarfsfólks sitt og byggja upp upplýsingamiðlun fyrir íbúa á Suðurnesjum og fyrir nýja íbúa á svæðinu. Verkefnið hefur vakið verðskuldaða athygli og er markmiðið að starfsfólk sveitarfélaga og stofnana á Suðurnesjum sem eiga bein samskipti við íbúana séu sem best í stakk búin til að veita upplýsingar og leiðsögn til þeirra sem eftir því leita. Hópur framlínustarfsfólks hefur undanfarið heimsótt sveitarfélög og stofnanir til að fá fræðslu og upplýsingar um alla þá miklu starfsemi sem á sér stað á svæðinu. Nú í vikunni hittust um 30 manna hópur framlínustarfsfólks í Suðurnesjabæ, þar sem m.a. var kynning um sveitarfélagið og ýmsa starfsemi sem fer fram í Suðurnesjabæ. Þetta var ánægjulegt og alltaf gott og gaman hitta kollega frá hinum sveitarfélögunum og stofnunum á Suðurnesjum. Í þessu sambandi er vakin athygli á vefsíðunni sudurnes.is, sem var sett upp til að veita ýmsar upplýsingar um þá þjónustu og starfsemi sem sveitarfélögin og stofnanir bjóða upp á.

Fundurinn með framlínustarfsfólki og Árni Gísli sem tekur sig vel út í pontunni.

Heilbrigðisþjónusta í Suðurnesjabæ

Nú í vikunni áttu bæjarstjóri og formaður bæjarráðs fund með heilbrigðisráðherra og hans fólki, þar sem við fjölluðum um nauðsyn þess að íbúum Suðurnesjabæjar verði boðið upp á heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Þetta er mál sem bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ hafa lengi barist fyrir, enda eiga yfir 4.000 íbúar sveitarfélagsins ekki kost á að njóta heilbrigðisþjónustu í sinni heimabyggð. Það er alltaf ánægjulegt að hitta heilbrigðisráðherrann, enda hefur hann taugar til Suðurnesjabæjar eftir að hafa gert garðinn frægan þegar hann þjálfaði og lék með öflugu handboltaliði Reynis í Sandgerði á sínum tíma. Vonandi hjálpar það til að við fáum jákvæða niðurstöðu í þessu máli, en rétt að taka fram að við fengum mjög jákvæð viðbrögð á fundinum við erindi okkar.

Málefni Grindavíkur

Nú hefur Alþingi samþykkt lög sem veita eigendum íbúðarhúsnæðis í Grindavík val um að selja ríkinu sínar eignir og eiga síðan forkaupsrétt að þeim síðar. Þetta er mikilvægur áfangi í úrlausn málefna grindvíkinga eftir náttúruhamfarir síðustu mánuða. Vonandi verður þetta liður í farsælum úrlausnum fyrir íbúa Grindavíkur, sem hafa upplifað ótrúlegar aðstæður sem eru fordæmalausar á Íslandi. Grindvíkingar fá góðar kveðjur frá okkur í Suðurnesjabæ og við óskum þeim velfarnaðar í framtíðinni.

„Vonda nammi“

Eins og á flestum vinnustöðum fær samstarfsfólk ýmsar hugmyndir um tilbreytingu í amstri dagsins. Eitt af því sem hefur tíðkast á skrifstofu ráðhússins í Garði undanfarin ár er að hver og einn starfsmaður leggi til eitthvað „vonda nammi“, sem er sælgæti sem hverjum og einum finnst bara alls ekkert gott. Nú um daginn var svona viðburður og má sjá mynd af herlegheitunum hér fyrir neðan. Þess má geta að mest af nammibirgðunum á myndinni hefur verið klárað, en einhver rest af því liggur  óhreyft enda svo vont að það vill enginn snerta á því!

Góða helgi

Facebooktwittermail