Nýtt ár 2024

Áramót eru jafnan sérstakur tímapunktur, þar sem litið er yfir liðið ár og horft til nýrra tíma sem eru eins og autt blað, það er í senn spennandi og að mörgu leyti fylgir því tilhlökkun. Bæjarstjórinn fagnaði að þessu sinni nýju ári suður í höfum, með sólbaði á ströndinni á Gran Canary. Það er sérstök upplifun að njóta þess að dvelja fjarri Fróni í sól og hita yfir jól og áramót með sinni nánustu fjölskyldu og sérlega ánægjulegt.

Fyrir áramót og fyrstu vikur á nýju ári hafa atburðir í og við Grindavík verið íslendingum efst í huga. Vinir okkar íbúar Grindavíkur upplifa sérstaka tíma með óvissu og eftirsjá eftir samfélaginu sínu. Það er varla hægt að setja sig í spor þeirra við þessar aðstæður en við hin getum hins vegar lagt okkur fram um að styðja við grindvíkinga og veitt þeim alla þá aðstoð sem við getum til að vinna með þeim í að komast gegnum þá erfiðu tíma sem nú eru og eru því miður fyrirsjáanlegir í náinni framtíð.

Viðurkenningar

Það er jafnan spennandi árlegur viðburður þegar tilkynnt er um val á íþróttamanni ársins. Nú í byrjun janúar fór fram val á íþróttamanni Suðurnesjabæjar fyrir árið 2023. Að þessu sinni varð Ástvaldur Ragnar Bjarnason fyrir valinu og var ánægjulegt að vera viðstaddur þegar hann tók við viðurkenningunni. Ástvaldur Ragnar hefur átt góðu gengi að fagna í sinni íþrótt og var m.a. valinn í landsliðshóp í Boccia hjá Íþróttasambandi fatlaðra. Af sama tilefni var Hrönn Edvinsdóttur veitt viðurkenning fyrir óeigingjarnt starf að íþrótta-og tómstundamálum með sjálfboðaliðastarfi innan Víðis í Garði. Þau fá bæði hamingjuóskir.

Ástvaldur Ragnar Bjarnason íþróttamaður Suðurnesjabæjar 2023

Hrönn Edvinsdóttir sjálfboðaliði

Samningar

Á fyrstu vikum ársins hefur bæjarstjórinn haft í nógu að snúast við að ganga frá ýmsum málum. Strax eftir áramótin var skrifað undir samstarfssamning með mennta-og barnamálaráðherra um málefni fylgdarlausra barna sem barnavernd Suðurnesjabæjar heldur utan um. Af sama tilefni færði ráðherra Maríu Rós Skúladóttur deildarstjóra félagsþjónustu blómvönd með þakklæti fyrir vel unnin störf að málefnum fylgdarlausra barna, en þannig hittist á að þetta var síðasti starfsdagur Maríu hjá Suðurnesjabæ en hún hefur snúið til annarra starfa. María Rós fær bestu þakkir fyrir hennar störf hjá Suðurnesjabæ undanfarin ár og fyrir ánægjulegt samstarf.

Ásmundur Einar Daðason mennta-og barnamálaráðherra og bæjarstjórinn undirrita samstarfssamning um málefni fylgdarlausra barna.

Ráðherra og bæjarstjóri ásamt starfsfólki ráðuneytis og Suðurnesjabæjar, María Rós með blómin.

Gengið var frá endurnýjun á samningi við hið frábæra fyrirtæki Skólamat, um máltíðir fyrir grunnskólabörn í Sandgerðisskóla og Gerðaskóla. Skólamatur hefur í mörg ár séð um að skólabörnin fái hollar og staðgóðar máltíðir og leyst það af hendi með glæsibrag, þannig að sum börnin geta varla beðið eftir að mæta í skólann til að fá að borða matinn frá Skólamat.

Samningur við Skólamat handsalaður við Jón Axelsson.

Bæjarráð

Fyrsti fundur ársins hjá bæjarráði var 17. janúar og voru að vanda ýmis mál á dagskrá. Þar má m.a. nefna að fjallað var um gögn varðandi undirbúning að uppbyggingu á gervigrasvelli, sem er í framkvæmdaáætlun ársins. Kynning var á kostnaðarmatsverkefni vegna úrgangsstjórnunar á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem Suðurnesjabær var valinn til þáttöku. Samþykkt var að vinna að rýni á þörf fyrir þjónustu og sértæka búsetu fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Bæjarráð samþykkti erindi frá Sveitarfélaginu Vogum um að taka þátt í að skoða hvort forsendur séu fyrir því að skoða kosti þess að sameina sveitarfélög á Suðurnesjum. Þá lá fyrir bréf frá innviðaráðherra þar sem var tilkynnt að ekki verði lögð áhersla á að frumvarp til laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga verði að lögum, m.a. vegna dómsmáls sem Reykjavíkurborg höfðaði gegn ríkinu vegna Jöfnunarsjóðs. Kynnt var erindi varðandi hugmyndir um stækkun Fjölbrautarskóla Suðurnesja til að byggja betur undir starfsnám við skólann.  Loks má nefna að bæjarráð samþykkti bókun með sérstakri kveðju til íbúa Grindavíkur vegna þeirra atburða sem orðið hafa í og við Grindavík og vegna þeirrar erfiðu stöðu sem íbúarnir standa frammi fyrir.

Íbúafjöldi í Suðurnesjabæ

Í upphafi árs 2023 voru íbúar Suðurnesjabæjar 3.910 og þegar leið á árið var spennandi að fylgjast með því hvenær íbúafjöldinn næði 4.000 manns. í byrjun hausts náðist sá áfangi og í árslok voru íbúarnir orðnir 4.044 og hafði fjölgað um 134 á árinu, eða 3,4%. Í áætlun um þróun íbúafjölda í Suðurnesjabæ næstu árin er miðað við að fjölgun verði um 3% ár ári. Miðað við þá uppbyggingu á íbúðarhúsnæði sem er í gangi og er fyrirsjáanleg næstu misseri má reikna með að fjölgun íbúa verði samkvæmt áætluninni.

Veðrið

Veðrið hefur verið óvenju gott en kalt nú í upphafi ársins, ólíkt því sem var á sama tíma fyrir ári þegar allt var meira og minna á kafi í snjó. Að vísu kom smá snjógusa yfir okkur núna í lok vikunnar en vonandi verður ekki mikið meira úr því næstu daga. Þorrinn er á næsta leiti.

Facebooktwittermail