Suðurnesjabær í eitt ár

Þann 10. júní sl. var liðið eitt ár frá því sameinað sveitarfélag Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs tók til starfa. Þetta fyrsta starfsár sveitarfélagsins hefur verið viðburðaríkt og annasamt. Unnið hefur verið að því að formgera sveitarfélagið, það hefur falið í sér að unnið hefur verið að mjög mörgum stórum og minni verkefnum. Þá hefur verið unnið að samræmingu margra hluta, þar sem mismunandi hefðir og venjur voru hjá fyrri sveitarfélögum.

Á þessu fyrsta ári hafa náðst margir áfangar í því verkefni að móta nýtt sveitarfélag. Einn af stóru áföngunum var þegar heiti sveitarfélagsins, Suðurnesjabær tók gildi þann 1. janúar 2019 og í framhaldi af því var unnið að hönnun byggðamerkis, sem endaði með því að full samstaða var í bæjarstjórn í mars sl. þegar byggðamerki Suðurnesjabæjar var samþykkt. Hönnun þess var unnin í samstarfi við auglýsingastofuna Hvíta húsið. Það var ánægjulegt og í senn styrkleikamerki hve bæjarstjórn var algerlega samstiga við ákvörðun um heiti sveitarfélagsins og byggðamerkis.

Byggðamerki Suðurnesjabæjar var staðfest samhljóða í bæjarstjórn í mars 2019. Merkið hefur fengið mjög jákvæðar viðtökur meðal íbúa sveitarfélagsins.

Fleiri merkir áfangar urðu í starfsemi Suðurnesjabæjar á fyrsta starfsárinu. Sem dæmi um það má nefna að bæjarstjórn samþykkti fyrstu fjárhagsáætlun Suðurnesjabæjar í desember sl., þá afgreiddi bæjarstjórn ársreikning fyrir árið 2018 í byrjun júní, en sá ársreikningur náði fyrri hluta ársins yfir rekstur gömlu sveitarfélaganna, en yfir rekstur Suðurnesjabæjar frá 1. júlí 2018. Hvor tveggja eru þetta merkir áfangar.

Hér er aðeins stiklað á stóru um fyrsta starfsár Suðurnesjabæjar, en margt fleira væri þess virði að fjalla um og verður það gert síðar. Það má segja að sveitarfélagið sem varð til fyrir ári síðan hafi farið gegnum mikilvægt þroskaskeið á sínu fyrsta ári. Framundan eru margar áskoranir sem unnið verður úr á næstu vikum, mánuðum og árum. Mótun nýs sveitarfélags lýkur ekki á einu ári, heldur er um langtíma verkefni að ræða. Hins vegar má fullyrða að vel hafi gengið hjá kjörnum fulltrúum og starfsfólki sveitarfélagsins að leysa fjölmörg verkefni á þessu fyrsta ári.

Facebooktwittermail