Gleðilegt sumar

Sumardagurinn fyrsti hefur jafnan markað ákveðin tímamót og gjarnan eru hátíðahöld af einhverju tagi til að fagna því að vetur er að baki. Við drögum íslenska fánann að hún þennan dag, enda er Sumardagurinn fyrsti einn af okkar hátíðardögum.  Að þessu sinni voru líklega hvergi almenn hátíðahöld í dag, við förum eftir leiðbeiningum og hlýðum tilmælum um sóttvarnir og það allt saman gerði það að verkum að við fögnum sumri hvert fyrir sig og kannski með okkar nánustu fjölskyldu, en ekki í fjölmenni eins og tíðkast hefur.

Liðinn vetur verður skráður í annála fyrir ýmsar sakir. Óvenju “leiðinleg” veður ríktu á löngum köflum og á Suðurnesjum var þessi vetur óvenju snjóþungur og oftar en flesta undanfarna vetur gusuðust yfir okkur hríðarveður með tilheyrandi samgöngutruflunum og snjómokstri.  Atburðir síðustu vikna vetrarins verða væntanlega ritaðir með feitu letri í annála vegna heimsfaraldurs Covid-19 sem setti allt á annan endann, bæði hér á landi en ekki síður um allan heiminn.  Það er því ekki með miklum trega sem við segjum bless við liðinn vetur.  En, við kveðjum hann þó með virðingu og þakklæti fyrir ýmislegt sem er þakkar vert, því það er aldrei svo að ekki sé eitthvað jákvætt að finna þegar litið er til baka.

Nú er rúmlega vika þar til fyrsta skref verður tekið við tilslakanir frá samkomubanni og sóttvarnarráðstöfunum vegna Covid-19 faraldursins.  Síðustu vikur hafa verið uppi alls konar áskoranir og margvísleg verkefni vegna faraldursins og sóttvarnarráðstafana.  Það hefur mikið mætt á mörgu starfsfólki Suðurnesjabæjar og á köflum hafa ríkt krefjandi aðstæður sem kölluðu á lausnamiðaða hugsun. Bæjarstjórinn er stoltur og þakklátur starfsfólki Suðurnesjabæjar fyrir það hve vel hefur gengið að halda starfsemi og þjónustu sveitarfélagsins í góðu horfi á þessum tíma. Þegar faraldurinn var að hefja innreið sína og sóttvarnayfirvöld fóru að herða tökin, þá voru dregnar fram og uppfærðar viðbragðsáætlanir sem unnið hefur verið eftir. Það hefur gengið vel, við erum öll reynslunni ríkari og erum enn betur en áður í stakk búin til að takast á við erfiðar og krefjandi aðstæður.  Þá hefur samstaðan verið þétt og í raun aðdáunarvert hve samfélagið hefur staðið saman eins og einn maður við að takast á við erfiðar aðstæður.

Þótt svo stutt sé í 4. maí, þegar fyrstu tilslakanirnar taka gildi, þá erum við ennþá stödd í apríl og við eigum öll að gera okkur grein fyrir því að faraldurinn deyr ekki út í byrjun maí.  Við verðum að halda áfram þeirri samstöðu og samtakamætti sem ríkt hefur, hvetjum hvert annað til að fylgja tilmælum og sýnum hið rómaða íslenska þolgæði til að takast á við erfiðar aðstæður.  Það er í þágu hagsmuna okkar allra og þannig mun okkur takast að komast á leiðarenda í baráttunni við faraldurinn.

Ég óska öllum gleðilegs sumars, með von um betri tíð og blóm í haga.

Facebooktwittermail

Faraldur í rénun

Það er ánægjulegt að fylgjast með því hve dregur úr Covid faraldrinum hér á landi.  Greinilegt er að aðgerðir til smitvarna hafa skilað miklum árangri.  Þeim árangri er ekki síst að þakka almenningi, sem hefur tekið virkan og almennan þátt í því að fylgja eftir þeim leiðbeiningum og fyrirmælum sem gefin hafa verið út til varnar útbreiðslu faraldursins. 

Samkvæmt upplýsingum sem borist hafa, þá hafa 8 íbúar Suðurnesjabæjar smitast af Covid-19 en allir hafa náð bata.  Samkvæmt síðustu upplýsingum voru um 3 íbúar í sóttkví.  Það má því heita að í dag sé sveitarfélagið nánast laust við faraldurinn.  Þetta eru ánægjulegar staðreyndir, sem ættu að veita okkur styrk til að halda áfram að fylgja fyrirmælum um sóttvarnir.  Það hefur verið áberandi hvað íbúar Suðurnesjabæjar hafa tekið leiðbeiningum og fyrirmælum af mikilli alvöru og fylgt þeim vel eftir.  Í starfsemi sveitarfélagsins hefur öllum fyrirmælum verið fylgt og vel það, til dæmis í skólunum þar sem hefur gengið vel og engin smit komið upp.  Nokkrir starfsmenn hafa haldið sig heima að læknisráði, þar sem um er að ræða einhverja skilgreinda áhættuþætti hjá hverjum og einum.

Ráðhús Suðurnesjabæjar í Garði og Sandgerði hafa verið lokuð undanfarið og flest starfsfólk unnið að sínum verkefnum heimafyrir.  Með þessu fyrirkomulagi hefur verið gengið aðeins lengra í þágu sóttvarna en mörg sveitarfélög hafa gert.  Á næstu dögum verða stigin stutt skref til baka, ráðhúsið í Garði verður opnað aftur hluta úr degi, en með takmörkuðum aðgangi og verður það auglýst sérstaklega.  Starfsfólki ráðhúsanna verður skipt upp í tvo hópa, sem munu skiptast á að vinna í ráðhúsum eða heima.  Þetta gildir til 1.maí og verður nánar auglýst á heimasíðu sveitarfélagsins.  Eftir sem áður geta allir náð sambandi við ráðhúsin um síma 425-3000, eða í póstfang afgreidsla@sudurnesjabaer.is.

Eins og fram hefur komið munu heilbrigðisyfirvöld taka fyrstu skrefin til að létta á samkomubanni þann 4. maí nk.  Í næstu viku mun aðgerðastjórn sveitarfélagsins leggja línur um hvernig því verður mætt í Suðurnesjabæ og verður það tilkynnt þegar þar að kemur.  Það er ljóst að endurskoða þarf ýmis áform um viðburði og annað sem gert hafði verið ráð fyrir í vor, sumar og fram í haustið.  Vonandi getum við þrátt fyrir allt gert okkur ýmislegt til skemmtunar, en það verður að koma í ljós.

Fram hafa komið nokkrar áhyggjur af því að almenningur sé farinn að slaka á taumunum í sóttvörnum, sérstaklega eftir að ljóst var að dregið hefur úr faraldrinum og að byrjað verður að slaka á samkomubanni í byrjun maí.  Það eru ríkir hagsmunir okkar allra að við sýnum úthald og þolgæði við að fara eftir fyrirmælum og leiðbeiningum í þágu sóttvarna.  Það er ennþá apríl mánuður, maí er ekki kominn og við eigum að gera þá skýlausu kröfu hvert á annað að við förum öll eftir fyrirmælunum, því það er í þágu þjóðfélagsins alls og miðar í senn að því að drepa niður faraldurinn, en ekki síður að koma samfélagslegri virkni og atvinnulífinu af stað aftur.  Við erum öll upplýst um hvaða afleiðingar eru nú þegar orðnar af þessum faraldri, við höfum gengið samhent og taktviss í gegnum verkefnið síðustu vikur og við eigum að líta á það sem okkar skyldu og ábyrgð að halda því áfram því það þjónar hagsmunum okkar allra.  Gangi okkur öllum vel með það og munum að við erum öll almannavarnir.

Facebooktwittermail

Við lok Páska

Vonandi hafa allir haft það gott um Páska, þrátt fyrir óvenjulegar aðstæður.  Páskahátíðin að þessu sinni var öðru vísi en allar aðrar páskahelgar sem undirritaður hefur upplifað, enda er samfélagið allt mótað af aðgerðum og afleiðingum Covid-19 heimsfaraldursins.  Þær aðgerðir sem hafa verið í gildi undanfarnar vikur munu standa yfir í um þrjár vikur til viðbótar, þar til byrjað verður að draga úr þeim.  Hvernig það verður gert mun koma í ljós síðar í vikunni, en við megum gera ráð fyrir að hægt verði dregið úr þeim næstu vikur og jafnvel mánuði.  Sá góði árangur sem náðst hefur með þeim sóttvarnaaðgerðum sem hafa verið í gildi byggir á samstöðu þjóðarinnar allrar um að fylgja leiðbeiningum og tilmælum sóttvarnayfirvalda og almannavarna.  Það er í senn ánægjulegt og þakkar vert.  Þegar upp verður staðið mun sú samstaða hafa leitt okkur saman gegnum þann faraldur sem gengur yfir.  Framtíðin mun svo fela í sér þær afleiðingar sem þetta mun allt hafa, ekki aðeins á Íslandi heldur um allan heiminn.

Þar sem þær aðgerðir sem hafa staðið yfir síðustu vikur munu gilda til 4. maí, þá mun starfsemi Suðurnesjabæjar verða með sama hætti og verið hefur undanfarnar vikur.  Fyrir páskafrí skólanna var tekin ákvörðun um að þriðjudagurinn 14. apríl verði starfsdagur í skólunum, til þess að gefa stjórnendum og starfsfólki svigrúm til að yfirfara skipulag skólastarfsins og leggja á ráðin fyrir næstu vikur.  Skólastarf mun svo hefjast með því að nemendur mæti í sína skóla miðvikudaginn 15. apríl.

Eins og áður var ákveðið, þá mun starfsfólk í ráðhúsum Suðurnesjabæjar halda áfram sínum störfum samkvæmt því fyrirkomulagi sem verið hefur og verður svo þar til fyrirmæli vegna sóttvarna taka breytingum.  Bæði ráðhúsin verða lokuð áfram, en hægt verður að ná sambandi við starfsfólk gegnum síma 425-3000, eða með tölvupósti í póstfangið afgreidsla@sudurnesjabaer.is. Flest starfsfólk ráðhúsanna vinnur sín verkefni heima. 

Þegar heilbrigðisráðherra hefur gefið út hvernig staðið verður að því að draga úr sóttvarnaaðgerðum eftir 4. maí, þá verður farið í að endurskoða skipulag á starfsemi sveitarfélagsins.  Þá verða einnig teknar frekari ákvarðanir um starfsemi og þjónustu, viðburði og annað sem ráðgert hafði verið á þessu ári, en hefur ekki verið mögulegt að skipuleggja eða ráðast í vegna þeirrar óvissu sem ríkir vegna faraldursins. 

Það er ljóst að undanfarnar vikur hefur mjög reynt á samfélagið allt, atvinnulíf og daglegt líf okkar allra.  Við þessar aðstæður reynir mjög á þolgæði okkar allra, úthald og þolinmæði.  Við verðum að mæta þessu öllu með æðruleysi og kærleika, horfa með bjartsýni og tilhlökkun til allra þeirra verkefna sem vinna þarf þegar þjóðfélagið fær aftur að sinna daglegu lífi og starfi án þeirra takmarkana og hamla sem við búum við um þessar mundir.  Þessa dagana á vel við að þolinmæði þrautir vinnur allar.

Gangi okkur öllum sem allra best 😉

Facebooktwittermail

Enn ein vikan í farsótt

Eftir því sem lengra líður frá því Covid faraldurinn hófst fyrir alvöru, því betur er hægt að gera sér grein fyrir því fordæmalausa ástandi sem ríkir.  Tilveran hefur tekið algerum breytingum, ekki bara hér heima heldur nánast um veröld alla.  Einhvern veginn er erfitt að sjá fyrir sér nú að allt geti orðið aftur eins og var fyrir nokkrum vikum.  En, það kemur allt í ljós og vonandi tekst okkur vel til við að vinna okkur út úr þeim erfiðu aðstæðum sem skapast hafa.

Covid faraldurinn kemur misjafnlega niður á einstökum landsvæðum og byggðarlögum.  Við fáum reglulega upplýsingar um fjölda smitaðra og þeirra sem eru í sóttkví í hverju sveitarfélagi.  Það er mikilvægt fyrir stjórnendur sveitarfélaga að hafa alltaf nýjustu upplýsingar um stöðu mála í viðkomandi sveitarfélagi, m.a. til þess að geta tekið ákvarðanir og unnið út frá stöðunni.  Í dag, samkvæmt síðurstu upplýsingum þann 3. apríl voru 7 einstaklingar greindir með smit í Suðurnesjabæ og 47 í sóttkví.  Við sendum þeim sem eru veikir okkar bestu kveðjur með ósk um skjótan og farsælan bata.  Óskum þeim sem eru í sóttkví þess að sleppa við að greinast með smit.

Síðasta vika hefur eins og undanfarnar vikur verið annasöm og viðburðarík.  Fyrir utan öll Covid málin sem upp hafa komið og þurft hefur að bregðast við, þá var fundur í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar í vikunni.  Fundurinn var haldinn í Vörðunni og þess gætt að fara eftir öllum fyrirmælum um sóttvarnir, m.a. fjarlægð milli einstaklinga, hreinlæti o.fl.   Þar var að vanda mikill fjöldi mála á dagskrá og bæjarstjórnin tók afstöðu til og afgreiddi fjölda mörg mál.   Eitt af þeim málum sem var á dagskrá var ósk frá Ólafi Þór Ólafssyni bæjarfulltrúa til 18 ára um lausn frá setu í bæjarstjórn.  Ólafur Þór er nýr sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps og er því bæði að skipta um starfsvettvang og heimasveitarfélag.  Það er mikil eftirsjá að Ólafi Þór.  Hann er í senn traustur, ábyrgur og víðsýnn samstarfsmaður sem gott hefur verið að vinna með.  Ég óska Ólafi Þór alls góðs og farsældar á nýjum vettvangi. Hér er Ólafur Þór með gjafir sem bæjarstjórn færði honum á fundi bæjarstjórnar.

Undanfarnar vikur hefur mikið mætt á skólunum okkar.  Nú eru grunnskólarnir og tónlistarskólarnir farnir í páskafrí, en leikskólarnir munu starfa í næstu viku.  Ég þakka stjórnendum allra skólanna í Suðurnesjabæ, öllu starfsfólki þeirra, nemendum og foreldrum fyrir þeirra framlag til þess að skólarnir hafa getað starfað.  Það hefur verið flókið verkefni, margar áskoranir, aðlögunarhæfni og umfram allt lausnarmiðuð vinnubrögð.  Allt þetta fólk á skilið mikið hrós.

Þegar svona aðstæður koma upp, spretta gjarnan fram alls konar hugmyndir og lausnir.  Sem dæmi um það má nefna heimanám nemenda í grunnskólunum, í bókasafninu var opnuð bókalúga til þess að íbúar gætu nýtt sér útlán bóka en það var síðan stoppað af vegna smitvarna.  Tónlistarskólarnir í Suðurnesjabæ settu af stað fjarkennsla strax fyrstu daga í samkomubanni, heimilisfræðikennarar í Sandgerðisskóla settu af stað netkennslu og í Gerðaskóla var fylgst náið með páskaungum klekjast úr eggjum, því var streymt beint á netinu.  Þjálfarar í líkamsræktarstöðvum íþróttamiðstöðvanna settu af stað netþjálfun og loks má nefna heimsendingarþjónusta á tilbúnum mat frá veitingahúsinu Röst á Garðskaga.  Það hefur verið gaman að fylgjast með hugmyndaauðgi margra í þessum aðstæðum.

Framundan er Dymbilvika, sem leiðir okkur inn í Páskahelgina, með öllum sínum góðu frídögum og helgidögum.  Það er ástæða til þess að taka undir áherslur almannavarna um að sem flestir haldi sig heima um Páska og forðist mannfagnaði.  Þetta mun örugglega reynast mörgum erfitt, því okkar hefð um Páska felur í sér ferðalög, samfundi og mannfögnuði.  Við verðum að breyta frá venjunni að þessu sinni, allt í þágu smitvarna og baráttunnar gegn farsóttinni.  Eftir því sem við stöndum öll þéttar saman og förum bókstaflega eftir leiðbeiningum og fyrirmælum almannavarna, því fyrr getum við búist við því að líf okkar færist í eðlilegt horf.

Góða helgi.

Facebooktwittermail

Fjórar vikur í faraldri

Fyrir um fjórum vikum greindist fyrsta Covid-19 smit á Íslandi.  Þar með hófst vegferð þessarar veiru í okkar samfélagi, sem hefur að mörgu leyti umturnað því.  Þessi veira hefur líka lagt allan heiminn að fótum sér og æðir yfir allt eins og eldur í sinu.  Það hefur haft þau áhrif að sú heimsmynd sem við þekktum fyrir nokkrum vikum síðan hefur tekið ótrúlegum breytingum á stuttum tíma. 

Það hefur verið magnað að upplifa þennan stutta tíma hér á Íslandi.  Lýst var neyðarstigi almannavarna vegna heimsfarsldurs, sem er út af fyrir sig ógnvekjandi staða og í fyrsta skipti var sett á samkomubann í landinu.  Sóttvarnir og aðgerðir í þeirra þágu hafa verið markvissar og árangursríkar, það er algerlega augljóst að þjóðin er ótrúlega rík og vel sett með sérfræðinga og fagfólk, ekki bara í sóttvörnum og heilbrigðisþjónustu heldur á öllum sviðum almannaþjónustu. Þá birtist líka hve innviðir eru góðir og sveigjanlegir. 

Þegar ástandið fór í alvöru að láta til sín taka í Suðurnesjabæ, með tilmælum og leiðbeiningum sóttvarnayfirvalda og almannavarna var brugðist hratt og markvisst við og ráðstafanir gerðar.  Sérstök aðgerðastjórn var ræst af stað og viðbragðs-og aðgerðaáætlanir virkjaðar. 

Eftir að gefið var út samkomubann fór ástandið á nýtt stig þann 16. mars. Stokka þurfti upp skipulag og starfsemi skólanna og allra stofnana og vinnustaða sveitarfélagsins.  Það var aðdáunarvert og mjög ánægjulegt hve stjórnendur stofnana sveitarfélagsins og starfsfólk brugðust fljótt og vel við, með jákvæðum hug og lausnarmiðuðum vinnubrögðum. Þetta lagðist eðlilega þyngst á leik-og grunnskólana, allir stjórnendur þeirra stóðu sig frábærlega við þær aðgerðir sem ráðast þurfti í og áttu þau náið og markvisst samstarf við aðgerðastjórn og fjölskyldusvið.  Við höfum fylgst náið og daglega með starfsemi skólanna og hefur allt skólastarf gengið ótrúlega vel við þessar erfiðu aðstæður.  Full ástæða er til að þakka foreldrum og forráðamönnum skólabarna fyrir gott samstarf og viðbrögð vegna þeirra aðstæðna sem upp hafa komið í skólunum.

Sveitarfélagið hefur fylgt leiðbeiningum og fyrirmælum almannavarna á hverjum tíma. Það hefur gengið vel, íbúar sveitarfélagsins leggja sig fram um að gera það líka. Samstaðan um þetta allt saman er nánast áþreifanleg í okkar samfélagi.

Suðurnesjabær hefur tekið fyrstu skrefin með aðgerðir til að koma til móts við heimilin vegna skertrar þjónustu sveitarfélagsins og eins vegna rekstrarerfiðleika hjá atvinnufyrirtækjum vegna tekjuskerðingar af völdum faraldursins.  Á heimasíðu Suðurnesjabæjar eru frekari upplýsingar um það.  Búast má við að fljótlega þurfi að taka frekari ákvarðanir um einhverjar aðgerðir og mun það koma í ljós jafnóðum.

Við getum ekki gert ráð fyrir að dragi úr faraldrinum fyrr en eftir nokkrar vikur.  Við verðum öll að halda áfram samstöðu um aðgerðir til að draga sem mest úr áhrifum faraldursins og við verðum að hafa úthald til þess.  Eins og fjölmörg dæmi sögunnar sanna, þá er íslenska þóðin ótrúlega þrautseig og samheldin þegar á þarf að halda.  Við erum að upplifa það um þessar mundir.

Stjórnendur, starfsfólk og kjörnir fulltrúar í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar fá í senn hrós og þakkir fyrir framlag allra og fórnfúsa vinnu við að halda starfsemi og þjónustu sveitarfélagsins virkri við þessar erfiðu aðstæður.  Lausnamiðað hugarfar og þétt samstaða allra hefur skipt sköpum og fyrir það verður seint fullþakkað.

Við erum öll almannavarnir.  

Facebooktwittermail

Sandgerðisdagar

Þessa vikuna stendur yfir bæjarhátíðin Sandgerðisdagar í Suðurnesjabæ. Bæjarhátíðin í Sandgerði hefur verið haldin í um 20 ár og skapað fastan sess í samfélaginu. Dagskrá vikunnar er í senn fjölbreytileg og áhugaverð, þar ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Viðburðir eru alla daga vikunnar og lýkur Sandgerðisdögum með kvöldskemmtun og flugeldasýningu á laugardagskvöld. Fjölmargir aðilar koma að undirbúningi og framkvæmd viðburða og dagskrárliða á Sandgerðisdögum og er ánægjulegt hve allir þessir aðilar leggja fram sitt framlag af mikilli ánægju og jákvæðni.

Einn af föstu liðum Sandgerðisdaga er Loddugangan og fór hún fram í gærkvöldi, fimmtudag. Þá safnast íbúar saman við Vörðuna og gengið er um Sandgerði undir leiðsögn. Þessi liður hefur notið mikilla vinsælda og hefur þátttaka jafnan verið mikil. Hópurinn sem tekur þátt í göngunni er vigtaður á hafnarvoginni og að þessu sinni vó hópurinn 28,1 tonn. Leiðsögumenn að þessu sinni voru Hobbitarnir Ólafur Þór og Hlynur Þór, sem tóku lagið á öllum stoppistöðum.

Annar fastur liður Sandgerðisdaga er hátíðardagskrá í Sandgerðiskirkju. Að þessu sinni var sá viðburður á miðvikudagskvöldið, með tónleikum frábærra listamanna úr heimasveit og gesta. Eitt af mörgum hlutverkum bæjarstjórans er að aðstoða nemendur Sandgerðisskóla við að draga upp fána Sandgerðisdaga. Sú athöfn fór fram í morgun, föstudag og var ánægjulegt að aðstoða yngsta nemanda skólans við það verkefni. Á morgun laugardag verður skemmtidagskrá við Sandgerðisskóla og lýkur Sandgerðisdögum sem fyrr segir seint á laugardagskvöld.

Ragnheiður Gröndal söngkona og Guðmundur Pétursson gítarleikari í Sandgerðiskirkju

Svona bæjarhátíðir eru haldnar um allt land, nánast hverja viku og helgi frá vori og fram á haust. Þetta eru mikilvægir viðburðir í hverju samfélagi og eru til þess fallnir að efla kynni og auka samstarf íbúanna, sem styrkir hvert samfélag. Fjölmörg fyrirtæki og aðrir aðilar leggja sitt af mörkum með ýmsum hætti og sýna með því samfélagslega ábyrgð. Allt er þetta jákvætt.

Suðurnesjabær þakkar öllum þeim sem hafa komið að undirbúningi Sandgerðisdaga. Það er mikið verkefni og fjölmargt sem þarf að huga að. Þá eru færðar þakkir til allra þeirra sem taka þátt í framkvæmd og leggja sitt af mörkum við einstaka viðburði. Það er ánægjulegt að upplifa samtakamáttinn sem birtist í þessu öllu saman.

Góða helgi.

Facebooktwittermail

Sumartíð og grindhvalir

Tími sumarleyfa

Undanfarnar vikur hafa margir notið sumarleyfa. Bæjarhátíðir eru haldnar víða um land allar helgar sumarmánuðanna og margir ferðast um landið til að njóta náttúrunnar og samvista við fjölskyldur og vini. Veðrið á sunnan-og vestanverðu landinu hefur verið með besta móti þetta sumarið, en eins og yfirleitt er þá er veðurfarið með öðrum hætti á hinum helmingi landsins. Síðasta sumar var þessu alveg öfugt farið, þegar leiðinda tíð var meira og minna allt sumarið á sunnan-og vestanverðu landinu en gott sumarveður norðan-og austanlands. Sumarumferðin markast jafnan af veðrinu, eðlilega sækir landinn í góða veðrið þar sem það er hverju sinni. Mesta ferðahelgi sumarsins var um síðustu helgi, um Verslunarmannahelgina. Undirritaður sótti í fyrsta skipti Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og var það í senn mikil og ánægjuleg upplifun. Einmuna veðurblíða var í Eyjum alla helgina og var ánægjulegt að taka þátt í vel heppnaðri hátíð með þúsundum gesta sem dvöldu í Heimaey.

Grindhvalir í Garði

Verslunarmannahelgin var ekki tíðindalaus í Suðurnesjabæ. Á föstudags kvöldið syntu nokkrir tugir grindhvala á land á ströndina framan við Útskálakirkju í Garði. Skjótt var brugðist við og tókst að bjarga mörgum hvalanna af ströndinni á haf út, þannig að dýrin mættu ekki örlögum sínum á ströndinni. Eftir lá nokkur fjöldi dauðra hvala sem tókst að draga á haf og sökkva. Sú aðgerð var framkvæmd í samráði og með leyfi þar til bærra yfirvalda. Allar aðgerðir tókust mjög vel og margir tóku þátt í þeim. Framganga björgunarsveitafólks var aðdáunarverð, þar sem fagmennska og fumlausar aðgerðir báru þann árangur að þessum aðgerðum lauk á stuttum tíma. Þá voru öll samskipti og samstarf starfsfólks Suðurnesjabæjar við björgunarsveitir, stofnanir og aðra viðkomandi aðila til fyrirmyndar. Fyrir það þakkar Suðurnesjabær.

Það er ekki einfalt verkefni að takast á við aðstæður eins og þær sem komu upp við landgöngu grindhvalanna á föstudaginn. Það er athyglisvert hve slíkum atburðum hefur fjölgað undanfarin ár. Ýmist hafa hópar smáhvala hreinlega synt upp í fjörur, eða einstaka hvali hefur rekið á land. Stofnanir og stjórnvöld hafa mótað ákveðið verklag til að bregðast við slíkum atburðum, með ákveðnu samstarfi stofnana og ýmissa aðila. Hins vegar má læra af okkar reynslu af þessu máli og verður því komið á framfæri við viðkomandi stjórnvöld, en um þessar mundir er unnið að enn frekari útfærslu á viðbragðsáætlunum til að takast á við svona aðstæður. Þess má geta að áhersla er lögð á það, að ef fólk verður vart við einstaka hvali eða hvalahópa í fjörum, þá ber að tilkynna það til lögreglu sem virkjar viðkomandi viðbragðsaðila.

Framganga björgunarsveitarfólks við björgun grindhvalanna og hreinsun á ströndinni er aðdáunarverð. Þar sem mesta ferðahelgi sumarsins stóð yfir voru færri einstaklingar tiltækir til aðgerða en að öllu jöfnu, en þeir einstaklingar sem gáfu sig í verkefnið lögðu sig alla fram og skiluðu góðu verki. Björgunarsveitirnar sem tóku þátt í þessum aðgerðum fá sérstakar þakkir fyrir þeirra framlag, en það sýnir enn og aftur hve mikilvægar björgunarsveitirnar eru í okkar samfélagi og hve þeir einstaklingar sem starfa innan þeirra eru alltaf tilbúnir til aðgerða ef á þarf að halda.

Undirritaður þakkar einnig því starfsfólki Suðurnesjabæjar sem stóðu vaktina og tóku þátt í aðgerðum fyrir þeirra framlag. Þetta starfsfólk var að störfum alla Verslunarmannahelgina og fyrir það er þakkað.


Facebooktwittermail

Vika undirskrifta samninga.

Þessi vika hefur verið óvenju annasöm fyrir bæjarstjórann, við að undirrita samninga. Í upphafi vikunnar var undirritaður samningur milli Suðurnesjabæjar og Reykjanesbæjar um þjónustukaup Suðurnesjabæjar af fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar. Um er að ræða framlengingu á fyrri samningi um að fræðsluskrifstofan veiti grunn-og leikskólum í Suðurnesjabæ faglega þjónustu. Þessi samningur gildir út skólaárið 2019-2020.

Suðurnesjabær vinnur að því í samstarfi við Sveitarfélagið Voga að undirbúa og byggja upp fræðsludeild til þjónustu við skólana. Í vikunni undirrituðu bæjarstjórar Suðurnesjabæjar og Sveitarfélagsins Voga samning um samstarf sveitarfélaganna við uppbyggingu og þróun fræðsludeildar, sem mun veita grunn-og leikskólum sveitarfélaganna faglega þjónustu. Fræðsludeildin mun taka við þessu verkefni þegar framangreindur þjónustusamningur við Reykjanesbæ rennur út. Það er ánægjulegt að eiga samstarf við Sveitarfélagið Voga um þetta verkefni, en sveitarfélögin hafa um árabil átt mjög gott samstarf um félagsþjónustu við íbúa sveitarfélaganna.

Á miðvikudaginn náðist mikilvægur áfangi í uppbyggingu á Suðurnesjum. Þá undirritaði bæjarstjórinn fyrir hönd Suðurnesjabæjar viljayfirlýsingu um samstarf Suðurnesjabæjar, fjármálaráðherra fyrir hönd Ríkissjóðs, Isavia og Reykjanesbæjar, um þróun og uppbyggingu á landi í eigu ríkisins í nágrenni við Keflavíkurflugvöll. Þetta er afrakstur mikillar vinnu þessara aðila mörg undanfarin ár, sem með góðri samvinnu hefur skilað þessum áfanga. Framundan er mikið verkefni við að skipuleggja, þróa og byggja upp þetta verðmæta landsvæði. Sveitarfélögin fara með skipulagsvald á svæðinu en ríkið er eigandi landsins, það er því mikilvægt að þessir aðilar eigi sem besta samvinnu um þetta þróunarverkefni. Unnið verður að þessu verkefni undir merkjum Kadeco, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar og munu sveitarfélögin leggja til sína fulltrúa í stjórn félagsins. Kadeco og Isavia hafa mörg undanfarin ár fylgst náið með svipuðum verkefnum í öðrum löndum, þar sem unnið er að skipulagi, þróun og uppbyggingu lands í næsta nágrenni við mikilvæga alþjóðaflugvelli. Vonandi tekst okkur vel til við þetta mikilvæga verkefni, í því felast mikil tækifæri til framtíðar og ríkir hagsmunir eru í húfi ekki aðeins fyrir Suðurnesin heldur íslenskt samfélag í heild.

Nú í vikunni var fundur í bæjarráði, þar sem að vanda voru mörg mál á dagskrá. Þar sem bæjarstjórn er í sumarleyfi frá reglulegum fundum hefur bæjarráð heimild til fullnaðarafgreiðslu mála og fyrir vikið er meira álag á bæjarráði en á öðrum tímum árs.

Nú í vikunni urðu umskipti í veðrinu. Eftir langvarandi þurrkatíð með sólskini nánast hvern dag snerist til suðlægari átta og hefur rignt nokkuð síðustu 2-3 daga. Þessi úrkoma var kærkomin fyrir gróðurinn, en hann var farinn að láta á sjá vegna þurrkatíðar.

Bæjarstjórinn og þar með molarnir, er kominn í tveggja vikna sumarleyfi og birtast næstu molar ekki fyrr en eftir miðjan júlí. Gleðilegt sumar.

Facebooktwittermail

Suðurnesjabær í eitt ár

Þann 10. júní sl. var liðið eitt ár frá því sameinað sveitarfélag Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs tók til starfa. Þetta fyrsta starfsár sveitarfélagsins hefur verið viðburðaríkt og annasamt. Unnið hefur verið að því að formgera sveitarfélagið, það hefur falið í sér að unnið hefur verið að mjög mörgum stórum og minni verkefnum. Þá hefur verið unnið að samræmingu margra hluta, þar sem mismunandi hefðir og venjur voru hjá fyrri sveitarfélögum.

Á þessu fyrsta ári hafa náðst margir áfangar í því verkefni að móta nýtt sveitarfélag. Einn af stóru áföngunum var þegar heiti sveitarfélagsins, Suðurnesjabær tók gildi þann 1. janúar 2019 og í framhaldi af því var unnið að hönnun byggðamerkis, sem endaði með því að full samstaða var í bæjarstjórn í mars sl. þegar byggðamerki Suðurnesjabæjar var samþykkt. Hönnun þess var unnin í samstarfi við auglýsingastofuna Hvíta húsið. Það var ánægjulegt og í senn styrkleikamerki hve bæjarstjórn var algerlega samstiga við ákvörðun um heiti sveitarfélagsins og byggðamerkis.

Byggðamerki Suðurnesjabæjar var staðfest samhljóða í bæjarstjórn í mars 2019. Merkið hefur fengið mjög jákvæðar viðtökur meðal íbúa sveitarfélagsins.

Fleiri merkir áfangar urðu í starfsemi Suðurnesjabæjar á fyrsta starfsárinu. Sem dæmi um það má nefna að bæjarstjórn samþykkti fyrstu fjárhagsáætlun Suðurnesjabæjar í desember sl., þá afgreiddi bæjarstjórn ársreikning fyrir árið 2018 í byrjun júní, en sá ársreikningur náði fyrri hluta ársins yfir rekstur gömlu sveitarfélaganna, en yfir rekstur Suðurnesjabæjar frá 1. júlí 2018. Hvor tveggja eru þetta merkir áfangar.

Hér er aðeins stiklað á stóru um fyrsta starfsár Suðurnesjabæjar, en margt fleira væri þess virði að fjalla um og verður það gert síðar. Það má segja að sveitarfélagið sem varð til fyrir ári síðan hafi farið gegnum mikilvægt þroskaskeið á sínu fyrsta ári. Framundan eru margar áskoranir sem unnið verður úr á næstu vikum, mánuðum og árum. Mótun nýs sveitarfélags lýkur ekki á einu ári, heldur er um langtíma verkefni að ræða. Hins vegar má fullyrða að vel hafi gengið hjá kjörnum fulltrúum og starfsfólki sveitarfélagsins að leysa fjölmörg verkefni á þessu fyrsta ári.

Facebooktwittermail