Sól hækkar á lofti með hverjum degi

Er vorið að koma ?

Nú undanfarið hefur veðurfarið verið með þeim hætti að það er eins og sé vor í lofti. Það er að vísu ennþá bara byrjun mars mánuðar en engu að síður er þetta tilfinningin. Oft hefur þessi árstími einkennst af miklum snjóum og kulda, enda hávetur samkvæmt dagatalinu og í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við slíkt veðurfar á þessum tíma árs. Það er ágætt að veðurfarið sé með þessum hætti þessa dagana, það styttir að minnsta kosti veturinn en kannski er það ekki ákjósanlegt að öðru leyti, en það er önnur saga. Njótum meðan hægt er.

Bæjarstjórn í vikunni

Nú í vikunni var fundur hjá bæjarstjórn Suðurnesjabæjar, fundurinn var í beinni útsendingu um netið og má alltaf finna hlekk á útsendingu bæjarstjórnarfunda á facebook síðu Suðurnesjabæjar. Ýmis mál voru á dagskránni, mest afgreiðslumál frá nefndum og ráðum. Það er jafnan góður andi á fundum bæjarstjórnar og eru bæjarfulltrúar samheldinn hópur. Það skiptir miklu máli og er jafnan ávísun á góðan árangur bæjarstjórnar. Það á við um bæjarstjórn Suðurnesjabæjar.

Stjórnendafundur

Stjórnendahópur Suðurnesjabæjar kemur saman nokkrum sinnum á ári og er á þeim fundum farið yfir ýmis málefni, bæði til kynningar og umræðu. Að þessu sinni var meðal annars fjallað um náttúruvá á Reykjanesi og viðbragð almannavarna. Þá var kynning á stjórnendum sem hafa nýlega hafið störf hjá sveitarfélaginu og einnig ítarleg yfirferð um verkefni og starfsemi umhverfismiðstöðvar, þar sem fram kom hve fjölbreytileg og mörg verkefni starfsmenn umhverfismiðstöðvar leysa af hendi í þágu íbúanna. Loks var yfirferð um nýja húsnæðisáætlun Suðurnesjabæjar. Hér er mynd af Eyjólfi forstöðumanni umhverfismiðstöðvar fara yfir allt það sem hann og hans menn eru að gera alla daga allt árið.

Vinnustofa HB64

HB64 er þróunarverkefni sem Suðurnesjabær tekur þátt í ásamt Reykjanesbæ og Kadeco. Um er að ræða þróun, skipulag og uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu Helguvík (H) og Bergvík (B) og er í grunninn í anda hringrásarhagkerfis og grænnar starfsemi. Í vikunni var vinnustofa fulltrúa þessara aðila ásamt erlendum og innlendum ráðgjöfum, en gríðarleg tækifæri liggja í þessu verkefni og er horft til framtíðar með það að markmiði að á þessu svæði byggist smám saman upp öflugt atvinnulíf í þeim anda sem upp er lagt með. Það verður í senn spennandi og áhugavert að fylgjast með hvernig til muni takast í náinni framtíð að fylgja þessu verkefni eftir. Það var ekki töluð vitleysan hjá sérfræðingunum við þetta borð á vinnustofunni.

Framboð á íbúðalóðum

Nú í vikunni auglýsti Suðurnesjabær nokkrar einbýlishúsalóðir lausar til umsókna.  Unnið er af krafti að gatnagerð og uppbyggingu innviða í íbúðahverfum bæði í Garði og Sandgerði og má reikna með að íbúðalóðir komi til úthlutunar í vor og í sumar. Suðurnesjabær hefur það að markmiði að uppfylla þarfir og mæta eftirspurn eftir íbúðalóðum, sem hefur verið mikil að undanförnu og er reiknað með að aukist jafnvel á næstu misserum. Við bjóðum nýja íbúa velkomna í Suðurnesjabæ.

Lífshlaupinu lokið þetta árið

Að undanförnu hefur staðið yfir hið árlega Lífshlaup. Lífshlaupið er heilsu-og hvatningarverkefni Íþrótta-og olympíusambands Íslands sem höfðar til allra landsmanna. Markmið þess er að hvetja landsmenn til þess að fara að ráðleggingum Embættis landslæknis um hreyfingu. Lífshlaupið í ár hófst 7.febrúar. Starfsfólk Suðurnesjabæjar hélt uppskeruhátíð í lok Lífshlaupsins, þar sem veittar voru viðurkenningar fyrir bestan árangur og ástundun, ásamt því að boðið var upp á annálað heilsufæði frá Hjá Höllu, sem hóf starfsemi í Vörðunni í Sandgerði nú í vikunni. Hér er mynd af þeim sem stóðu sig hvað best af starfsfólki ráðhúsa Suðurnesjabæjar, til hamingju !

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna

Í dag þann 8.mars er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Konur í nokkrum löndum hófu sína baráttu á þessum degi snemma á síðustu öld og smám saman hefur 8.mars orðið alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Við sendum konum um allan heim baráttukveðjur í tilefni dagsins á þeirra vegferð til aukinna réttinda og bættra lífskjara kvenna, sem því miður er mikil þörf á í mörgum löndum í heiminum.

Góða helgi

Facebooktwittermail