Vorkoma

Nokkuð er síðan síðasti molapistill fór í loftið og eru ýmsar ástæður fyrir því. Meðal annars sú að bæjarstjórinn tók sér smá frí og fór á íslendingaslóðir í suðurhöfum.  Hins vegar hefur margt verið um að vera að undanförnu, mikið um fundahöld og viðburði ásamt hinu daglega lífi í störfum bæjarstjórans, starfsfólks Suðurnesjabæjar og íbúanna.

Menningin

Gyrðir Elíasson rithöfundur og myndlistarmaður sem er búsettur í Garði opnaði fyrir nokkru myndlistarsýningu að Sunnubraut 4 í Garði, sem hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli. Þar sýnir Gyrðir um 1.200 myndverk sem hann hefur unnið á undanförnum árum. Sýningin er hin glæsilegasta og er hreint með ólíkindum hve hann hefur verið afkastamikill í myndlistinni samhliða ritstörfum. Það er mikill heiður fyrir Suðurnesjabæ og samfélagið okkar að slíkur listamaður sé búsettur í okkar samfélagi og að við getum notið hans lista. Mikil aðsókn hefur verið að myndlistarsýningunni og lýkur henni um komandi helgi. Full ástæða er til að hvetja alla til að sækja sýninguna og njóta þessa einstæða viðburðar. Hér að neðan er Gyrðir við brot af myndum á sýningunni.

Menningarsjóður Suðurnesjabæjar veitir styrki til menningarverkefna í Suðurnesjabæ og voru styrkir afhentir í Sjólyst, húsi Unu í Sjólyst í vikunni. Það er mikilvægt að sveitarfélagið stuðli að menningarverkefnum með því að veita slíka styrki og er með það að markmiði að efla menningarlífið.

Ljóðasamkeppni Dagstjörnunnar stendur nú yfir og lýkur með því að verðlaun verða veitt sumardaginn fyrsta þann 25. apríl. Hollvinafélag Unu Guðmundsdóttur í Garði hefur um árabil efnt til ljóðasamkeppninnar, sem ber heitið Dagstjarnan eftir fallegu blómunum sem uxu við hús Unu, Sjólyst í Garði. Ljóðasamkeppnin er ætluð öllum íbúum sveitarfélagsins og eru nemendur í leik-og grunnskólum sveitarfélagsins sérstaklega hvattir til þátttöku. Þátttakendur skili sínum ljóðum í ráðhúsi Suðurnesjabæjar að Sunnubraut 4 í Garði.

Könnunarviðræður um hugsanlega sameiningu sveitarfélaga

Sveitarfélögin Suðurnesjabær, Reykjanesbær og Vogar ákváðu fyrr í vetur að stofna til samstarfs um könnunarviðræður varðandi hugsanlega sameiningu sveitarfélaganna. Stofnaður var verkefnishópur fulltrúa sveitarfélaganna sem hóf störf í febrúar sl. Nú í vikunni voru haldnir íbúafundir í sveitarfélögunum í þeim tilgangi að fá fram sjónarmið íbúanna til ýmissa málefna. Fundirnir voru vel sóttir og einnig tók íbúar þátt í fundinum með rafrænum hætti. Gert er ráð fyrir að bæjarstjórnir sveitarfélaganna taki afstöðu til þess í júní hvort haldið verði áfram með verkefnið með lögbundnu ferli sameiningarviðræðna sem enda með því að íbúarnir kjósi um hvort af sameiningu verði, eða hvort látið verði staðar numið og gott heita við lok þessara könnunarviðræðna. Hér eru myndir frá íbúafundi í Sandgerði 16.apríl.

Fundargestir fullir áhuga

Bæjarstjórarnir hressir og sameinaðir

Uppbygging íbúðahverfa

Nú standa yfir framkvæmdir við gatnagerð og uppbyggingu innviða í íbúðahverfum í Garði og Sandgerði. Innan skamms munu verða auglýstar íbúðalóðir til úthlutunar og er útlit fyrir að töluverð eftirspurn verði eftir lóðum til uppbyggingar. Einnig er unnið að því að bjóða upp á íbúðalóðir við þegar byggðar götur í báðum byggðakjörnum, svonefnd þétting byggðar og von er til að áður en langt um líður verði slíkar lóðir einnig auglýstar til úthlutunar.

Samstarf við Bláa herinn

Suðurnesjabær hefur átt gott samstarf við Bláa herinn undanfarin ár, enda mikilvægt að eiga að slíkan aðila sem vinnur að umhverfisverkefnum og hreinsun umhverfisins. Nú í vikunni var gengið frá samningi við Bláa herinn um samstarfsverkefni. Á myndinni hér að neðan er Tómas  Knútsson hershöfðingi Bláa hersins með bæjarstjóranum eftir undirskrift samningsins.

Sýningin Verk og vit

Nú um helgina fer fram stórsýningin Verk og vit í Laugardagshöll. Suðurnesjabær tekur þátt í sýningunni í samstarfi við Reykjanesbæ, Kadeco og Isavia, þar sem verður kynning á sameiginlegum þróunarverkefnum um uppbyggingu atvinnulífs á Suðurnesi, meðal annars á svæðinu Bergvík/Helguvík þar sem unnið er að þróun og uppbyggingu atvinnustarfsemi í grænum anda og út frá hugmyndafræði um hringrásarhagkerfið. Spennandi verkefni sem mun vonandi ganga sem best eftir á næstu misserum og árum. Í tengslum við sýninguna hefur verið sett upp vefsíðan svaedi.is, þar sem eru ýmsar upplýsingar um lóðamál og fleira varðandi uppbyggingu í sveitarfélögunum. Hér er mynd af kynningarbás okkar á sýningunni.

Sorporkustöð

Undanfarin misseri og ár hefur mikið verið unnið að framtíðarlausnum í úrgangsmálum. Fram til þessa hefur sorp verið urðað víða um land en eina sorpbrennslustöðin í landinu er Kalka í Helguvík. Nú í lok vikunnar voru kynntar hugmyndir og tillögur um uppbyggingu á stórri sorporkustöð og er horft til þess að hún rísi í nágrenni við Kölku, á svæðinu Bergvík/Helguvík. Svona stöðvar eru þekktar og hafa um árabil verið starfræktar víða um heiminn, meðal annars í íbuðahverfum stórborga í Evrópu. Svona starfsemi fellur vel að hugmyndafræði hringrásarhagkerfis, meðal annars vegna þess að hún skilar frá sér hráefnum fyrir aðra starfsemi. Sem dæmi myndi svona orkustöð skila frá sér orku og varma sem má nýta meðal annars til að styrkja vinnslu á heitu vatni fyrir svæðið og þar með stuðla að auka orkuöryggi á svæðinu.

Veðurfarið

Um þessar mundir standa yfir átök milli vetrar og sumars, þar sem skiptast á alls konar veðurbrigði sem mun enda með því að veturinn lætur eftir og vorið tekur völdin. Sem merki um það má nefna að vorboðinn blessuð lóan sést nú víða á vappi. Að vanda verður spennandi að sjá hvernig sumarkoman og sumarið sjálft mun meðhöndla okkur með sínu veðurfari, vonandi verðum við sólarmegin að þessu sinni.

Góða helgi 😉

Facebooktwittermail

Uppskeruhátíðir skólabarna

Árhátíðir og viðburðir í skólum

Nú er tími árshátíða og annarra viðburða hjá börnunum í skólunum. Í þessari viku hafa nemendur Sandgerðisskóla og Gerðaskóla haldið sínar árshátíðir og í síðustu viku var skemmtilegur viðburður í Sandgerðisskóla undir heitinu „Rokkskólinn í Sandgerði“. Þar stigu á stokk efnilegir tónlistarmenn í skólanum og fluttu mjög skemmtilegt rokkprógramm.  Myndin hér að neðan er af hópnum sem tók þátt í sýningunni í Sandgerðisskóla.

Heimsókn nemenda Gerðaskóla til bæjarstjóra

Nú í vikunni komu ungir nemendur Gerðaskóla til bæjarstjóra með undirskriftalista sem nemendur skólans höfðu áritað. Tilefnið er að þegar hitaveitulögn rofnaði af völdum eldgoss í febrúar og heitavatnslaust var á Suðurnesjum, þá varð tjón á gólfi íþróttamiðstöðvarinnar í Garði. Íþróttasalurinn hefur verið ónothæfur síðan og nemendur skólans hafa ekki getað komist í íþróttir í salnum af þessum völdum. Þetta eru nemendur eðlilega ekki sáttir við og vilja komast í íþróttasalinn sem fyrst. Þau virðast hins vegar gera sér góða grein fyrir því að það getur tekið tíma að koma íþróttasalnum aftur í nothæft horf. Undirskriftalistinn er undir þeirri fyrirsögn að nemendurnir vilja íþróttahúsið aftur í ágúst. Það er alltaf ánægjulegt að fá svona heimsókn barna til bæjarstjórans og hér að neðan er mynd af bæjarstjóra og nemendunum þegar þær afhentu bæjarstjóra undirskriftalistann.

Bæjarráð

Í síðustu viku var reglulegur fundur hjá bæjarráði. Að venju voru mörg og mismunandi mál á dagskrá fundarins. Þar má m.a. nefna erindi vegna 80 ára afmælis lýðveldisins Ísland, með upplýsingum um hátíðahöld af því tilefni. Fjallað var um erindi frá framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna kjarasamninga, með hvatningu til sveitarfélaga að endurskoða þjónustugjaldskrár og samþykkti bæjarráð að fela bæjarstjóra að koma með tillögur þar um. Þá var fjallað um samantekt á mögulegum byggingarlóðum við þegar byggðar götur og var því máli vísað til úrvinnslu hjá framkvæmda-og skipulagsráði. Loks má nefna að fjallað var um uppbyggingu á gervigrasvelli.

Uppbygging nýrra íbúðarhverfa í Suðurnesjabæ

Mikil eftirspurn er eftir íbúðalóðum í Suðurnesjabæ. Nú í vikunni samþykkti framkvæmda-og skipulagsráð úthlutun á sex lóðum undir einbýlishús í Garði og Sandgerði. Framkvæmdir standa yfir í nýju íbúðahverfi í Garði og á næstu dögum hefjast framkvæmdir við 2.áfanga uppbyggingar Skerjahverfis í Sandgerði. Verktaki í Garði er Gröfuþjónusta Tryggva Einarssonar og skrifað hefur verið undir verksamning við Ellert Skúlason ehf um framkvæmdina í Skerjahverfi.

Viðvörun um eiturloft í Garði

Nú í vikunni kom viðvörun frá Umhverfisstofnun og Almannavörnum um að loftgæðamælir í Garði hafi sýnt gríðarlega há gildi loftmengunar sem álitið var að væri af völdum eiturgufa frá eldgosinu á Reykjanesi. Viðbragðsáætlun Suðurnesjabæjar var strax virkjuð, gefnar út viðvaranir og upplýsingum komið á framfæri við íbúa. Stuttu eftir að viðvörunin var gefin út kom tilkynning um að viðkomandi loftgæðamælir væri bilaður og ekkert að marka þessa mælingu. Þetta var að sjálfsögðu óþægileg uppákoma, en það jákvæða er að þetta var þegar upp var staðið mjög góð æfing við að virkja viðbragðsáætlun og tókst hún því mjög vel.

Veðurfarið

Þegar þetta er ritað um miðjan dag föstudaginn 22.mars er sókskin og bjart veður, sem oft fylgir norðlægum áttum og er nokkur norðlægur vindur. Veðrið er hið besta, ekki síst ef miðað er við þennan árstíma. Í gærkvöldi og síðustu nótt snjóaði aðeins en snjóinn tók fljótt upp þegar leið inn í morguninn. Ágæt veðurspá er fyrir komandi helgi og ættu að vera fínar aðstæður til útivistar.

Góða helgi

Facebooktwittermail

Sól hækkar á lofti með hverjum degi

Er vorið að koma ?

Nú undanfarið hefur veðurfarið verið með þeim hætti að það er eins og sé vor í lofti. Það er að vísu ennþá bara byrjun mars mánuðar en engu að síður er þetta tilfinningin. Oft hefur þessi árstími einkennst af miklum snjóum og kulda, enda hávetur samkvæmt dagatalinu og í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við slíkt veðurfar á þessum tíma árs. Það er ágætt að veðurfarið sé með þessum hætti þessa dagana, það styttir að minnsta kosti veturinn en kannski er það ekki ákjósanlegt að öðru leyti, en það er önnur saga. Njótum meðan hægt er.

Bæjarstjórn í vikunni

Nú í vikunni var fundur hjá bæjarstjórn Suðurnesjabæjar, fundurinn var í beinni útsendingu um netið og má alltaf finna hlekk á útsendingu bæjarstjórnarfunda á facebook síðu Suðurnesjabæjar. Ýmis mál voru á dagskránni, mest afgreiðslumál frá nefndum og ráðum. Það er jafnan góður andi á fundum bæjarstjórnar og eru bæjarfulltrúar samheldinn hópur. Það skiptir miklu máli og er jafnan ávísun á góðan árangur bæjarstjórnar. Það á við um bæjarstjórn Suðurnesjabæjar.

Stjórnendafundur

Stjórnendahópur Suðurnesjabæjar kemur saman nokkrum sinnum á ári og er á þeim fundum farið yfir ýmis málefni, bæði til kynningar og umræðu. Að þessu sinni var meðal annars fjallað um náttúruvá á Reykjanesi og viðbragð almannavarna. Þá var kynning á stjórnendum sem hafa nýlega hafið störf hjá sveitarfélaginu og einnig ítarleg yfirferð um verkefni og starfsemi umhverfismiðstöðvar, þar sem fram kom hve fjölbreytileg og mörg verkefni starfsmenn umhverfismiðstöðvar leysa af hendi í þágu íbúanna. Loks var yfirferð um nýja húsnæðisáætlun Suðurnesjabæjar. Hér er mynd af Eyjólfi forstöðumanni umhverfismiðstöðvar fara yfir allt það sem hann og hans menn eru að gera alla daga allt árið.

Vinnustofa HB64

HB64 er þróunarverkefni sem Suðurnesjabær tekur þátt í ásamt Reykjanesbæ og Kadeco. Um er að ræða þróun, skipulag og uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu Helguvík (H) og Bergvík (B) og er í grunninn í anda hringrásarhagkerfis og grænnar starfsemi. Í vikunni var vinnustofa fulltrúa þessara aðila ásamt erlendum og innlendum ráðgjöfum, en gríðarleg tækifæri liggja í þessu verkefni og er horft til framtíðar með það að markmiði að á þessu svæði byggist smám saman upp öflugt atvinnulíf í þeim anda sem upp er lagt með. Það verður í senn spennandi og áhugavert að fylgjast með hvernig til muni takast í náinni framtíð að fylgja þessu verkefni eftir. Það var ekki töluð vitleysan hjá sérfræðingunum við þetta borð á vinnustofunni.

Framboð á íbúðalóðum

Nú í vikunni auglýsti Suðurnesjabær nokkrar einbýlishúsalóðir lausar til umsókna.  Unnið er af krafti að gatnagerð og uppbyggingu innviða í íbúðahverfum bæði í Garði og Sandgerði og má reikna með að íbúðalóðir komi til úthlutunar í vor og í sumar. Suðurnesjabær hefur það að markmiði að uppfylla þarfir og mæta eftirspurn eftir íbúðalóðum, sem hefur verið mikil að undanförnu og er reiknað með að aukist jafnvel á næstu misserum. Við bjóðum nýja íbúa velkomna í Suðurnesjabæ.

Lífshlaupinu lokið þetta árið

Að undanförnu hefur staðið yfir hið árlega Lífshlaup. Lífshlaupið er heilsu-og hvatningarverkefni Íþrótta-og olympíusambands Íslands sem höfðar til allra landsmanna. Markmið þess er að hvetja landsmenn til þess að fara að ráðleggingum Embættis landslæknis um hreyfingu. Lífshlaupið í ár hófst 7.febrúar. Starfsfólk Suðurnesjabæjar hélt uppskeruhátíð í lok Lífshlaupsins, þar sem veittar voru viðurkenningar fyrir bestan árangur og ástundun, ásamt því að boðið var upp á annálað heilsufæði frá Hjá Höllu, sem hóf starfsemi í Vörðunni í Sandgerði nú í vikunni. Hér er mynd af þeim sem stóðu sig hvað best af starfsfólki ráðhúsa Suðurnesjabæjar, til hamingju !

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna

Í dag þann 8.mars er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Konur í nokkrum löndum hófu sína baráttu á þessum degi snemma á síðustu öld og smám saman hefur 8.mars orðið alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Við sendum konum um allan heim baráttukveðjur í tilefni dagsins á þeirra vegferð til aukinna réttinda og bættra lífskjara kvenna, sem því miður er mikil þörf á í mörgum löndum í heiminum.

Góða helgi

Facebooktwittermail

Hlaupár

Hlaupársdagurinn 29. febrúar

Á fjögurra ára fresti er svokallað hlaupár og þau ár telur febrúarmánuður 29 daga en ekki 28 daga eins og önnur ár. Í almanaki Háskóla Íslands er eftirfarandi almanaksskýring á hlaupári: „Hlaupár er almanaksár sem er degi lengra en venjuleg almanaksár, þ.e. 366 dagar í stað 365. Hlaupár eru alltaf þegar talan 4 gengur upp í ártalinu, nema á aldamótum þegar ártalið endar á 00. Þá er hlaupár aðeins þegar talan 400 gengur upp í ártalinu. Aukadeginum sem nefndur er hlaupársdagur, er aukið við febrúarmánuð. Nafnið hlaupár mun dregið af því, að merkisdagar eftir hlaupársdag „hlaupa yfir“ þann vikudag sem þeir myndu annars falla á. Reglur um hlaupár eru nauðsynlegar til að fella almanaksárið að árstíðaárinu, sem ekki telur heila tölu daga“.

Allmargir hafa fæðst á hlaupársdegi þann 29.febrúar. Það hlýtur að vera sérstakt fyrir viðkomandi að sjálfur afmælisdagurinn sé fjórða hvert ár. Það er því full ástæða til að óska öllum afmælisbörnum sem fæddust 29.febrúar sérstaklega til hamingju með afmælisdaginn í gær, þann 29.febrúar 2024.

Bæjarráð í vikunni

Fundur var í bæjarráði Suðurnesjabæjar nú í vikunni og að vanda voru ýmis mál úr ýmsum áttum á dagskrá fundarins. Í upphafi fundar komu starfsmenn Kadeco sem gestir á fundinn og kynntu þróunaráætlunina HB64, sem nær yfir landsvæðið Helguvík og Bergvík. Spennandi verkefni sem fróðlegt verður að fylgjast með á næstu misserum og árum. Fjallað var um íþróttamannvirki og íþróttamál, gestur fundarins vegna þessa dagskrárliðar var Unnur Ýr Kristinsdóttir íþrótta-og tómstundafulltrúi. Þá var fjallað um húsnæðisáætlun Suðurnesjabæjar, henni vísað til staðfestingar hjá bæjarstjórn. Meðal annarra mála má m.a. nefna fundargerð verkefnishóps um könnunarviðræður Suðurnesjabæjar, Reykjanesbæjar og Sveitarfélagsins Voga um hugsanlega/mögulega sameiningu sveitarfélaga, en þessi vinna er óformleg og án allra skuldbindinga sveitarfélaganna. Þá má einnig nefna að bæjarráð samþykkti að veita bæjarstjóra umboð til að ganga frá samningi við verktaka um framkvæmdir við gatnagerð í Skerjahverfi í Sandgerði og mun það verk væntanlega hefjast á næstu dögum. Alltaf nóg um að vera hjá bæjarráði.

FabLab Suðurnes

Fyrir nokkrum dögum var boðið til opnunar FabLab smiðjunnar sem staðsett er í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Fjöldi manns mætti í smiðjuna og kynntu sér þá starfsemi sem þar er í boði. Svona FabLab smiðjur hafa verið starfræktar á nokkrum stöðum í landinu og hefur orðið góður árangur af þeim. FabLab Suðurnes er opin öllum sem hafa hugmyndir og vantar vettvang til að vinna að þeim og koma þeim á fyrstu skref til úrvinnslu. Ástæða er til að hvetja alla sem hafa slíkar hugmyndir til að líta við í FabLab Suðurnes í fjölbrautaskólanum, fá leiðsögn og aðstoð við að vinna úr sínum hugmyndum. Verkefnisstjóri FabLab Suðurnes er Vihjálmur Magnússon, en hann starfaði m.a. við FabLab smiðju á Höfn og hefur því góða reynslu af svona starfsemi. Á myndinni hér að neðan er bæjarstjóri ásamt þeim Vilhjálmi og Kristjáni skólameistara Fjölbrautaskóla Suðurnesja þegar formleg opnun FabLab Suðurnes var síðasta föstudag.

Góðir gestir frá Grundarfirði

Það er alltaf ánægjulegt að taka á móti góðum gestum. Nú í dag, föstudag kom bæjarstjórn, bæjarstjóri og skipulagsfulltrúi Grundarfjarðarbæjar í heimsókn. Þau eru að kynna sér ákveðin mál varðandi skipulagsmál og uppbyggingu og bæjarstjórinn kynnti Suðurnesjabæ fyrir gestunum. Skipulagsfulltrúi Grundarfjarðarbæjar er Sigurður Valur Ásbjarnarson, sem á árum fyrr var bæjarstjóri Sandgerðisbæjar og var áhugavert að heyra hann fara yfir ýmis málefni frá því hann starfaði sem bæjarstjóri í Sandgerðisbæ. Undirritaður var fyrir nokkru síðan sveitarstjóri Eyrarsveitar, eins og Grundarfjarðarbær hét á þeim tíma, það var á árunum 1990-1995. Það var því sérstök ánægja að taka á móti grundfirðingunum, enda eru í þeim hópi góðir vinir frá fyrri tíð. Núverandi bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar er Björg Ágústsdóttir, en hún tók einmitt við starfi sveitarstjóra Eyrarsveitar þegar undirritaður lét af því starfi árið 1995, en rétt að geta þess að Björg hefur ekki samfellt starfað sem sveitar-og bæjarstjóri í Grundarfirði allan þennan tíma en gert það með hléum, en starfstími hennar er orðinn ansi langur og farsæll. Hér fyrir neðan eru myndir frá heimsóknin bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar, annars vegar gestirnir ásamt bæjarstjóra og hins vegar bæjarstjórar Suðurnesjabæjar og Grundarfjarðarbæjar ásamt Jósep forseta bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar. Bestu þakkir fyrir ánægjulega heimsókn kæru grundfirðingar.

Góða helgi.

Facebooktwittermail

Þorrinn kveður

Konudagur

Nú á sunnudaginn er konudagurinn, sem markar upphaf Góu og þá verður Þorrinn að baki. Við karlarnir í ráðhúsum Suðurnesjabæjar buðum samstarfskonum okkar í brunch nú í hádeginu á föstudegi í aðdraganda konudagsins. Þar var boðið upp á góðgæti og allar fengu konurnar gjafir frá okkur körlunum, svo var að sjálfsögðu slegið á létta strengi. Konur fá fyrirfram hamingjuóskir með konudaginn.

Samstarfskonur í bröns í tilefni konudags

Framlínustarfsfólk á Suðurnesjum

Sveitarfélögin og stofnanir ríkisins á Suðurnesjum hafa undanfarin misseri unnið sameiginlega að því að efla framlínustarfsfólks sitt og byggja upp upplýsingamiðlun fyrir íbúa á Suðurnesjum og fyrir nýja íbúa á svæðinu. Verkefnið hefur vakið verðskuldaða athygli og er markmiðið að starfsfólk sveitarfélaga og stofnana á Suðurnesjum sem eiga bein samskipti við íbúana séu sem best í stakk búin til að veita upplýsingar og leiðsögn til þeirra sem eftir því leita. Hópur framlínustarfsfólks hefur undanfarið heimsótt sveitarfélög og stofnanir til að fá fræðslu og upplýsingar um alla þá miklu starfsemi sem á sér stað á svæðinu. Nú í vikunni hittust um 30 manna hópur framlínustarfsfólks í Suðurnesjabæ, þar sem m.a. var kynning um sveitarfélagið og ýmsa starfsemi sem fer fram í Suðurnesjabæ. Þetta var ánægjulegt og alltaf gott og gaman hitta kollega frá hinum sveitarfélögunum og stofnunum á Suðurnesjum. Í þessu sambandi er vakin athygli á vefsíðunni sudurnes.is, sem var sett upp til að veita ýmsar upplýsingar um þá þjónustu og starfsemi sem sveitarfélögin og stofnanir bjóða upp á.

Fundurinn með framlínustarfsfólki og Árni Gísli sem tekur sig vel út í pontunni.

Heilbrigðisþjónusta í Suðurnesjabæ

Nú í vikunni áttu bæjarstjóri og formaður bæjarráðs fund með heilbrigðisráðherra og hans fólki, þar sem við fjölluðum um nauðsyn þess að íbúum Suðurnesjabæjar verði boðið upp á heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Þetta er mál sem bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ hafa lengi barist fyrir, enda eiga yfir 4.000 íbúar sveitarfélagsins ekki kost á að njóta heilbrigðisþjónustu í sinni heimabyggð. Það er alltaf ánægjulegt að hitta heilbrigðisráðherrann, enda hefur hann taugar til Suðurnesjabæjar eftir að hafa gert garðinn frægan þegar hann þjálfaði og lék með öflugu handboltaliði Reynis í Sandgerði á sínum tíma. Vonandi hjálpar það til að við fáum jákvæða niðurstöðu í þessu máli, en rétt að taka fram að við fengum mjög jákvæð viðbrögð á fundinum við erindi okkar.

Málefni Grindavíkur

Nú hefur Alþingi samþykkt lög sem veita eigendum íbúðarhúsnæðis í Grindavík val um að selja ríkinu sínar eignir og eiga síðan forkaupsrétt að þeim síðar. Þetta er mikilvægur áfangi í úrlausn málefna grindvíkinga eftir náttúruhamfarir síðustu mánuða. Vonandi verður þetta liður í farsælum úrlausnum fyrir íbúa Grindavíkur, sem hafa upplifað ótrúlegar aðstæður sem eru fordæmalausar á Íslandi. Grindvíkingar fá góðar kveðjur frá okkur í Suðurnesjabæ og við óskum þeim velfarnaðar í framtíðinni.

„Vonda nammi“

Eins og á flestum vinnustöðum fær samstarfsfólk ýmsar hugmyndir um tilbreytingu í amstri dagsins. Eitt af því sem hefur tíðkast á skrifstofu ráðhússins í Garði undanfarin ár er að hver og einn starfsmaður leggi til eitthvað „vonda nammi“, sem er sælgæti sem hverjum og einum finnst bara alls ekkert gott. Nú um daginn var svona viðburður og má sjá mynd af herlegheitunum hér fyrir neðan. Þess má geta að mest af nammibirgðunum á myndinni hefur verið klárað, en einhver rest af því liggur  óhreyft enda svo vont að það vill enginn snerta á því!

Góða helgi

Facebooktwittermail

Lognið eftir storminn

Daglegt líf komið í eðlilegt horf

Eftir að hitaveitan varð óvirk við það að hraunrennsli rauf heitavatnslögn frá Svartsengi fyrir rúmri viku síðan er daglegt líf komið í eðlilegt horf á ný. Mikilvægt var að hægt var að halda skólastarfi gangandi alla vikuna og smám saman hefur byggst upp þrýstingur í veitukerfinu aftur. Eina sem eftir stendur er að ná upp eðlilegum hita og þrýstingi í sundlaugunum, nú hillir undir að sundlaugarnar opni jafnvel nú um helgina.  Nánar er fjallað um atburðarásina sem hófst með eldgosinu á fimmtudaginn í síðustu viku í síðasta pistli í Molum.

Gatnagerð á fullu

Nú standa yfir framkvæmdir við gatnagerð og uppbyggingu innviða í öðrum áfanga í Teiga-og Klapparhverfi í Garði. Gröfuþjónusta Tryggva Einarssonar vinnur verkið og er von til að hægt verði að hefja úthlutanir á lóðum í lok mars eða byrjun apríl. Unnið er að því að framkvæmdir við annan áfanga í Skerjahverfi í Sandgerði hefjist af fullum krafti um næstu mánaðamót. Með framkvæmdum í báðum hverfunum eykst lóðaframboð í Suðurnesjabæ og er þar um að ræða lóðir fyrir nánast allar gerðir íbúðarhúsa, allt frá einbýli til fjölbýlis, ásamt rað-og parhúsum. Það verður spennandi að sjá hver eftirspurn verður eftir lóðunum þegar þær fara til úthlutunar.

Framkvæmdir í Teiga-og Klapparhverfi í Garði

Sjóvarnir

Framkvæmdir standa yfir við að styrkja sjóvarnir á nokkrum stöðum með ströndinni. Nú er verið að styrkja varnir framan við byggðina í Garði. Þegar því lýkur verður farið í önnur verkefni þar sem nauðsynlegt er að byggja upp og styrkja sjóvarnir til varnar ágangi sjávar og sjávarflóðum. Sjávarflóð eru helsta náttúruváin sem steðjar að Suðurnesjabæ og er mikilvægt að byggja upp sem öflugastar varnir gegn þeim og það er verkefni sem Suðurnesjabær vinnur í samstarfi við Vegagerðina.

Unnið að styrkingu sjóvarna framan við Garð

Blái herinn – „ekkert jafnast á við hreina strönd“

Suðurnesjabær hefur átt gott samstarf við Bláa herinn mörg undanfarin ár, sem felst í því að halda ströndinni hreinni ásamt öðrum umhverfisverkefnum. Þetta samstarf hefur skilað góðum árangri. Mörg undanfarin ár hefur Blái herinn unnið að hreinsunarverkefnum á ströndum sveitarfélagsins. Þetta er mikilvægt verkefni sem hefur skilað hreinni ströndum og mun halda áfram næstu árin enda nauðsynlegt meðan heimsbyggðin notar hafið sem ruslakistu. Tómas Knútsson hershöfðingi Bláa hersins leit við í ráðhúsinu og afhenti viðurkenningu fyrir samstarf og framlag, ásamt þakklæti fyrir stuðninginn við það verkefni að hreinsa strendur landsins. Full ástæða til að hrósa Tómasi og Bláa hernum fyrir ómetanlegt framlag í hreinsunarstarfi mörg undanfarin ár. Það ætti að vera sameiginlegt verkefni okkar allra að halda ströndum landsins hreinum, það varðar ekki síst ímynd landsins og okkar allra sem fiskveiðiþjóðar.

Tómas hershöfðingi afhendir bæjarstjóra og Einari Friðrik deildarstjóra umhverfismála viðurkenningar-og þakklætisskjal

Veðrið

Þegar þetta er skrifað föstudaginn 16.febrúar er hægviðri og hitastigið komið upp fyrir frostmark. Eftir að hitaveitan varð óvirk fyrir rúmri viku og allt húsnæði missti hita var heppilegt að veðrið var flesta dagana einkar hagstætt, ekki vindasamt og ekki mikið frost. Samkvæmt veðurspám eru hlýindi framundan næstu daga og þá tekur væntanlega upp nánast allan snjó og klaka sem legið hefur yfir undanfarið. Síðan má gera ráð fyrir að kólni aftur, enda erum við ennþá stödd í febrúarmánuði og allra veðra von. Hins vegar nálgast vorið með hverjum degi sem líður.

Góða helgi

Facebooktwittermail

Fordæmalaust ástand og þrekvirki

Eldgos hófst fimmtudaginn 8.febrúar um kl 6 að morgni. Örfáum klukkustundum síðar höfðu vísindamenn keyrt hraunflæðilíkan sem fól í sér að hætt væri við að hraun frá eldgosinu ógnaði heitavatnslögn frá orkustöð HS Orku í Svartsengi sem flytur heitt vatn til byggðarlaganna á Suðurnesjum. Kl 12:05 rofnaði heitavatnslögnin eftir að hraunjaðarinn og glóandi hraunið fór yfir hana. Þar með var orðið heitavatnslaust á Suðurnesjum, nú voru góð ráð dýr !

Glóandi hraun flæðir yfir Grindavíkurveg í átt að heitavatnslögninni

Búið var að virkja Aðgerðastjórn almannavarna á svæðinu (AST) og allir viðbragðsaðilar voru komnir til starfa til að bregðast við ástandinu. Alger óvissa var uppi um hvað væri framundan og hve langur tími myndi líða þar til aftur væri mögulegt að koma heitu vatni í veitukerfin. HS Orka gerði strax tilraun til að nota nýja lögn sem hafði verið lögð í jörðu en lenti undir rauðglóandi hrauninu, en sú tilraun gekk ekki upp þar sem lögnin hafði orðið fyrir tjóni við að hraun flæddi yfir hana. Fljótlega fór að kólna í öllu húsnæði á veitusvæði HS Veitna á Suðurnesjum. Almenningur og stjórnendur sveitarfélaganna sáu fram á mikla kuldatíð, enda voru tveir fyrstu dagarnir með meira frosti en almennt gerist á svæðinu. Sem betur fer fór veðrið fljótt hlýnandi og það sem betra var að það var nánast hægviðri alla dagana því vindkæling er vægast sagt ekki góður kostur við þessar aðstæður. Strax og tilraunin með lögnina undir hrauninu var fyrir bí og reyndar áður en það gerðist voru stjórnendur HS Orku og þeirra sérfræðingar byrjaðir að undirbúa að koma upp annarri lögn til að leiða heita vatnið frá Svartsengi inn í dreifikerfi HS Veitna.

Öll þjóðin hefur fylgst með því þrekvirki sem unnið var af hálfu HS Orku, starfsmanna þeirra og frábærum verktökum sem unnu að verkinu, sem bar þann árangur að aðeins fjórum sólarhringum eftir að hraunrennslið rauf hitaveitulögnina  á fimmtudeginum, þá fór heitt vatn að streyma um lögnina og inn í dreifikerfið, íbúar fóru að fá heitt vatn aftur og á mánudags kvöldi hafði heitt vatn náð að streyma um allt dreifikerfi HS Veitna á svæðinu. Nú er þrýstingur í kerfinu hægt og bítandi að aukast þannig að dreifikerfið muni virka eins og það á að gera. HS Veitur, starfsmenn og verktakar hafa á sama tíma unnið þrekvirki við að halda dreifikerfinu í horfinu, m.a. með því að flytja hátt í 2.000 tonn af heitu vatni með tankbílum frá höfuðborgarsvæðinu og dæla því í dreifikerfið, sú aðgerð var mjög athyglisverð og bar m.a. þann árangur að mun fljótlegra var að veita heita vatninu um dreifikerfið þegar vatnið fór að berast frá HS Orku inn í kerfi HS Veitna. Þá hafa HS Veitur lagt sig fram um alls konar upplýsingagjöf og ráðgjöf til almennings til að tryggja sem best að allt fari vel.

Eitt af því sem allir höfðu áhyggjur af var að allt skólastarf í leik-og grunnskólum var undir og það væri vond niðurstaða ef ekki væri hægt að halda skólastarfi gangandi vegna kulda í skólahúsnæði. Það væru hagsmunir allra í samfélaginu að skólastarf gæti haldist óskert. Að undirlagi almannavarna var hafist handa við það á laugardeginum að finna lausnir sem miðuðu að því að koma hita á allt skólahúsnæði þannig að skólastarf gæti gengið eins og ekkert hafi í skorist. Skemmst er frá að segja að það tókst að útvega rafhitunarbúnað í alla leik-og grunnskóla í Vogum, Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ og var þeim búnaði dreift í alla skóla á sunnudeginum. Búið var að greina getu rafkerfa skólanna til að keyra þennan búnað og gekk það upp í lang flestum tilvikum, að undanskildum grunnskólanum og leikskólanum í Sandgerði. Þar var ekki nóg svigrúm í rafkerfinu til að keyra hitabúnaðinn þannig að hægt væri að halda uppi starfsemi á mánudeginum. Það var ótrúlegt að taka þátt í og upplifa þann gríðarlega samtakamátt sem virkjaðist í þessu verkefni, þar sem fjölmargir aðilar komu að og unnu algert þrekvirki á stuttum tíma. Þegar upp var staðið hefur skólastarf verið að langmestu leyti óskert þrátt fyrir heitavatnsleysi á svæðinu. Þetta ber að þakka og er það gert hér með. Eftir að heita vatnið fór að berast í hitakerfi skólanna á mánudags kvöld hefur skólastarf í öllum skólum sveitarfélaganna gengið mjög vel og nánast eðlilega fyrir sig.

Það hefur verið lærdómsríkt og ánægjulegt að taka þátt í og upplifa hvernig aðgerðastjórnin og allir aðilar sem að málum koma hafa komið hafa unnið og staðið sig frábærlega. Við erum með aðgerðakerfi sem virkar fullkomlega. Það mátti mjög skýrt upplifa að setningin „þetta er ekki hægt“ er ekki til í orðabók viðbragðsaðila. Það er einfaldlega gengið í að leysa þau mál sem upp koma og þarf að leysa og sagan síðustu daga sýnir með afgerandi hætti að þannig er einfaldlega unnið að málum.

Það hefur mikið mætt á starfsmönnum Suðurnesjabæjar að leysa úr fjölmörgum málum sem uppi hafa verið þessa dagana. Suðurnesjabær býr einstaklega vel að frábæru og hæfu starfsfólki sem hefur leyst úr málum á faglegan og fumlausan hátt. Einstakir starfsmenn og verktakar hafa unnið að þessum málum dag sem nótt, á virkum dögum sem helgardögum og lagt allt sitt í verkefnið. Enda hefur allt gengið eins vel og aðstæður hafa boðið og rúmlega það. Starfsmenn Suðurnesjabæjar og verktakar sem unnu með þeim fá sérstakar þakkir fyrir frábæra frammistöðu og einstaklega vel unnin verk. 

Samfélagið og íbúarnir almennt hafa tekið virkan þátt í þessu fordæmalausa verkefni með því að fara að tilmælum og ráðgjöf til dæmis með því að gæta að rafmagnsnotkun, enda er grundvallar atriði við þessar aðstæður að allir leggi sig fram um að ofkeyra ekki rafmagnskerfinu, það hafa sannarlega allir gert. Þess vegna hefur gengið eins vel og raun ber vitni.

Nú er daglegt líf að mestu komið í fastar og eðlilegar skorður og ástand undanfarinna sólarhringa er að baki. Undirritaður á varla til nógu sterk lýsingarorð til að nota um allt það starf sem fjölmargir aðilar hafa lagt af mörkum undanfarna daga. Hins vegar fá allir aðilar hjartans þakkir fyrir frábæra frammistöðu og vel unnin verk þessa daga, sem allt hefur verið þágu samfélagsins. Í öllu þessu birtist kærleikur allra aðila í garð samborgaranna og samstarfsaðilanna, þegar svo er þá gengur allt vel.

Facebooktwittermail

Óvenjulegir tímar fullir áskorana

Liðin vika hefur verið óvenjuleg, svo vægt sé til orða tekið. Undirritaður var frá störfum vegna veikinda fram á fimmtudag, ekkert alvarlegt í gangi.  Að morgni fimmtudags var mætt til starfa og búið að skipuleggja daginn til ýmissa verkefna og stóð til að enda daginn á að vera viðstaddur afhendingu styrkja hjá Uppbyggingarsjóði Suðurnesja. Það var hins vegar ljóst þegar lagt var af stað til starfa þann morgun að eldgos var hafið enn á ný og því tekið af hreinu æðruleysi. Þegar leið inn í morguninn og eftir fyrsta fund dagsins var boðað til fundar hjá Aðgerðastjórn almannavarna (AST), þar sem óttast var að hraunflæði úr hinu nýja eldgosi gæti mögulega náð í heitavatnslögnina frá Svartsengi. Skemmst er frá því að segja að hin úthugsaða áætlun um verkefni dagsins fauk út í veður og vind (það var reyndar blíðu veður og logn !) og við tók óvissuferð það sem eftir var dagsins. Fram í kvöldið skiptust á fundir hjá AST og Neyðarstjórn Suðurnesjabæjar þar sem var unnið að skipulagningu á starfsemi sveitarfélagsins og alls konar verkefnum sem tengdust því að heitavatnslögnin fór undir hraun í hádeginu. Á föstudeginum hélt þessi óvissuferð áfram með svipuðum fundahöldum. Verkefnalistinn fyrir fimmtudaginn og föstudaginn er því nánast óhreyfður þegar helgin náði yfir og vonandi verður hægt að fækka verkefnum á honum strax eftir helgina.

Suðurnesjabær býr vel að úrvals mannskap stjórnenda og starfsmanna. Neyðarstjórnin er mjög virk og lausnamiðuð, mjög vel hefur gengið að vinna úr þeim fjölda verkefna sem fylgja þeim atburði sem við eigum við. Allt gengur það út á að gæta sem best að húsnæði, stofnunum og öðru vegna heitavatnsleysis og passa vel upp á að engin tjón hljótist af. Þá er vel fylgst með íbúum sem njóta þjónustu sveitarfélagsins og brugðist við þeirra þörfum og óskum. Skipulag á starfsemi og þjónustu tekur mið af aðstæðum, allt í þágu þeirra sem við á. Þetta er heilmikið verkefni og hefur vel tekist til. Næst er að gera ráðstafanir til að taka á móti heita vatninu og gæta að því að þá verði engin tjón en á þessari stundu er óljóst hvenær heitt vatn mun flæða inn í Sandgerði og Garð en útlit er fyrir að það gæti mögulega orðið á sunnudagskvöld, vonandi fyrr.

HS Orka og HS Veitur hafa lagt mikið undir við að vinna úr þeim aðstæðum sem upp komu þegar hraunflæðið eyðilagði hitveitulögnina. Starfsmenn þeirra og alls konar verktakar sem hafa komið að málum hafa að mörgu leyti unnið þrekvirki og þar er mikil fagmennska í fyrirrúmi og lausnamiðuð vinnubrögð. Það er langt frá því að vera einfalt mál að lagfæra heitavatnslögnina eftir það áfall sem varð, og þar eru menn að vinna verk á mjög stuttum tíma sem alla jafna tekur vikur eða jafnvel mánuði. Jafnframt er mikil fagmennska í gangi varðandi veitukerfin og ekki má gleyma dreifingu raforku og eftirliti með því við þessar aðstæður. Allir þessir aðilar fá hrós og þakkir fyrir þeirra störf. Úr því byrjað er að hrósa og þakka, þá fá allir sem hafa unnið við aðgerðastjórn Almannavarna sérstakar þakkir fyrir þeirra störf. Það hefur verið mjög ánægjulegt að fá tækifæri til að fylgjast með þeirri fagmennsku sem þar ræður ríkjum, fumleysi og lausnamiðaðar ákvarðnir hafa heldur betur sannað sig og sýnt fram á hve almannavarnakerfi okkar virkar vel.

Ég á ekki von á að sleppa hendinni af ullarteppinu í sjónvarpssófanum fyrr en eftir helgina þegar von er til að ylur fari aftur að komast á heimilið. En, þegar hugsað er til þess við hvaða húsakost og aðbúnað fólk lifði við fyrir ekki svo mjög löngu síðan er full ástæða til að vera þakklátur þrátt fyrir smá tíma af hitaleysi. Við munum kunna að meta lífsgæðin þegar allt verður komið í samt horf aftur eftir stuttan tíma.

Góða helgi og hlýjar kveðjur til allra á Suðurnesjum, sem þurfa að búa við óvenjulegar og kuldalegar aðstæður um helgina.

Facebooktwittermail

Fyrsta vika Þorra með rysjóttu veðri og margt annað

Hjá Höllu í Sandgerði

Hið vinsæla og þekkta veitingafyrirtæki Hjá Höllu mun hefja starfsemi í framleiðslueldhúsinu í Vörðunni í Sandgerði um mánaðamótin febrúar/mars. Hjá Höllu er eitt margra atvinnufyrirtækja í Grindavík sem leitar leiða til að halda starfsemi sinni gangandi utan Grindavíkur, vegna þeirra aðstæðna sem því miður hafa orðið þar vegna náttúruhamfaranna undanfarið. Gengið hefur verið frá samningi við Höllu um að starfsemi fyrirtækisins verði til húsa í eldhúsinu í Vörðunni. Þar verður vinnslueldhús fyrirtækisins og þar munu vörur Hjá Höllu verða framleiddar fyrir fyrirtækja-og veisluþjónustu hennar, ásamt veitingavörum fyrir veitingastaðinn í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli.  

Við í Suðurnesjabæ bjóðum Hjá Höllu innilega velkomna til okkar með von um að starfsemi hennar gangi sem allra best í nýju umhverfi. Þar með verður Hjá Höllu með tvær starfsstöðvar í Suðurnesjabæ, annars vegar í Vörðunni í Sandgerði og hins vegar í Flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli.

Magnús Stefánsson bæjarstjóri og Halla M Svansdóttir innsigla leigusamning um afnot Hjá Höllu á framleiðslueldhúsinu í Vörðunni í Sandgerði

Fróðleiksfúsi í Þekkingarsetri Suðurnesja

Það var skemmtileg stund í Þekkingarsetri Suðurnesja í Sandgerði þegar fram fór vígsluathöfn þar sem Fróðleiksfúsi var kynntur til leiks. Fróðleiksfúsi er hugarsmíð Daníels G Hjálmtýssonar verkefnastjóra, sem hann með mikilli hugkvæmni og dugnaði hefur komið til framkvæmdar. Fróðleiksfúsi er gagnvirkur fræðsluleikur þar sem spjaldtölvur eru notaðar við að kalla fram ýmsan fróðleik um náttúru og lífríki Íslands og um ýmsa safngripi í Þekkingarsetrinu. Þar má m.a. nefna fjölda af uppstoppuðum fuglum, fiskum og ýmsum dýrum sem eru til sýnis í Þekkingarsetrinu. Þetta er frábær leið til þess að kynna þetta allt saman og veita alls konar fróðleik, sem ekki síst höfðar til barna og ungmenna enda tekur Þekkingarsetrið á hverju ári á móti nemendahópum á öllum aldri frá mörgum skólum. Verkefnið verður þýtt yfir á pólsku og ensku og verður því aðgengilegt á alþjóða vísu. Til hamingju Daníel og Þekkingarsetur, þetta er frábært og eftirtektarvert framtak.

Þetta er hann Fróðleiksfúsi:

Daníel G Hjálmtýsson skapari Fróðleiksfúsa

Bæjarráð

Í vikunni var fundur í bæjarráði. Á dagskrá var meðal annars að skipa fulltrúa Suðurnesjabæjar í verkefnishóp sem hefur það verkefni að skoða kosti þess að Suðurnesjabær, Reykjanesbær og Sveitarfélagið Vogar sameinist og mun verkefnishópur fulltrúa þessara sveitarfélaga skila tillögu til bæjarstjórna um hvort halda skuli áfram með verkefnið og hefja formlegar viðræður um sameiningu sveitarfélaganna eða láta staðar numið og fara ekki lengra með málið. Þá fjallaði bæjarráð um ýmis málefni sem tengjast Grindavíkurbæ, íbúum og atvinnulífi, sérstaklega hvað varðar húsnæðismál. Þá barst bæjarráði erindi frá bæjarstjóra Grindavíkurbæjar sem þakkaði góðar kveðjur og óskir sem bæjarráð bókaði og sendi frá sér eftir síðasta fund bæjarráðs. Loks má nefna að fulltrúar íþróttafélaganna Reynis og Víðis komu á fund bæjarráðs þar sem fjallað var um áform sveitarfélagsins um uppbyggingu á gervigrasvelli.

Frístundabíll hefur akstur

Lengi hefur verið kallað eftir því að sérstakur frístundabíll hefji akstur með börn til íþróttaiðkunar milli byggðarkjarnanna Garðs og Sandgerðis. Nú er þetta orðið að veruleika og hófst þessi akstur nú 1.febrúar, því ber að fagna. Lagt er upp með að þróa þessa þjónustu áfram með það að markmiði að auðvelda börnum aukna þátttöku í íþróttum í sveitarfélaginu. Vonandi gengur þessi þjónusta vel og vel takist að þróa hana áfram í þágu barna og ungmenna í Suðurnesjabæ.

Fab Lab smiðja á Suðurnesjum

Nú hefur verið opnuð svonefnd Fab Lab nýsköpunarsmiðja í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Svona smiðjur hafa verið starfræktar víða um landið og gefið mjög góða raun. Smiðjan er öllum opin sem hafa hugmyndir og vilja vinna að nýsköpunarverkefnum með stuðningi fagfólks og við góða aðstöðu. Þar er hægt að gera frumgerðir, læra á stafræn framleiðslutæki svo sem þrívíddarprentara, laser skera, viðarfræsara og ýmsan annan búnað. Að smiðjunni standa sveitarfélögin á Suðurnesjum, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, háskóla-, iðnaðar-og nýsköpunarráðuneytið, mennta-og barnamálaráðuneytið, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, MSS, Keilir, Fisktækniskóli Íslands og Þekkingarsetur Suðurnesja. Forstöðumaður er Vilhjálmur Magnússon. Allir hugmyndaríkir einstaklingar eru hvattir til að nýta sér þennan vettvang, m.a. með því að senda skilaboð á netfangið fablab@fss.is. Þessu ber að fagna og vonandi mun smiðjan stuðla að aukinni nýsköpunarstarfsemi á Suðurnesjum, enda eru hér margir hugmydaríkir einstaklingar sem þurfa að finna sínum hugmyndum farveg, nú er tækifærið !

Stjórn Fab Lab smiðjunnar ásamt forstöðumanni

Dagur kvenfélagskonunnar

Þann 1.febrúar ár hvert er dagur kvenfélagskonunnar, þann dag árið 1930 var stofndagur Kvenfélagasambands Íslands en einstök kvenfélög eiga mun lengri sögu. Í Suðurnesjabæ er kvenfélagið Gefn í Garði og kvenfélagið Hvöt í Sandgerði. Kvenfélög eru fjölmörg í landinu og hafa þau í áranna rás lagt mikið af mörkum í sínum samfélögum með alls kyns starfsemi. Um leið og kvenfélagskonum er óskað til hamingju með dag kvenfélagskonunnar eru þeim færðar þakkir fyrir umhyggju og ómælt framlag með ýmsum hætti í þágu sinna samfélaga og samborgara.

Suðurnesjalína 2

Nú í vikunni kom fram að Landsnet mun fljótlega hefja framkvæmdir við lagningu Suðurnesjalínu 2. Þetta er langþráður áfangi sem lengi hefur verið unnið að og kallað eftir. Með tilkomu línunnar mun raforkuöryggi aukast til muna á Suðurnesjum og eykst flutningsgeta raforku jafnframt verulega. Ástæða er til að fagna þessu, enda löngu kominn tími til að þetta verkefni verði að veruleika.

Vel heppnað þorrablót

Síðastliðinn laugardag var haldið fjölmennt þorrablót á vegum Knattspyrnufélagsins Víðis og unglingaráðs Víðis og Reynis. Blótið fór fram í íþróttamiðstöðinni í Garði, um 700 manns mættu til leiks, tóku vel til matar og skemmtu sér fram á nótt. Mikil og almenn ánægja var með þetta frábæra þorrablót.

Stuð og stemmari á þorrablóti

Veðurfarið

Eins og fram kemur í fyrirsögn þessa pistils, þá hefur veðurfarið undanfarna viku verið frekar rysjótt. Veðurstofan hefur nokkrum sinnum birt viðvaranir, kuldatíð og vætutíð hafa skipst á og nóg hefur verið að gera hjá starfsmönnum sveitarfélagsins og verktökum við snjómokstur og snjóhreinsun. Það vill nú oft vera svo að vetrarveður komi á óvart, þrátt fyrir að við búum á Íslandi þar sem allra veðra er von allt árið! Veturinn styttist með hverri viku sem líður og sól hækkar á lofti. Vonandi verður veðurfarið okkur hagstætt næstu vikurnar.

Facebooktwittermail

Bóndadagur, upphaf Þorra

Blótum þorra

Í dag föstudaginn 26.janúar er Bóndadagur, sem markar upphaf Þorra. Tímabil þorrablóta er því hafið, reyndar hafa ýmsir hlaupið á sig og haldin hafa verið þorrablót undanfarnar tvær helgar, en það er mjög skiljanlegt að erfitt sé að bíða eftir Þorra með að halda þessar frábæru skemmtanir með tilheyrandi áti á lostætum þorramat. Þorrablót Suðurnesjamanna verður haldið í íþróttamiðstöðinni í Garði laugardaginn 27.janúar. Knattspyrnufélagið Víðir ásamt unglingaráði Reynis og Víðis standa að þorrablótinu, þar munu um 700 manns koma saman og blóta þorra, ásamt því að njóta spennandi skemmtidagskrár og sletta úr klaufum á dansleik.

Vatnsveita í Árnarétt

Vegna jarðhræringa og óvissu um framgang mála af þeirra völdum á Reykjanesi hafa verið uppi áhyggjur af því að tjón geri orðið á vatnsveitunni sem flytur neysluvatn frá Lágum til Suðurnesjabæjar og Reykjanesbæjar. Ef það myndi gerast verður vatnslaust í þessum byggðarlögum sem telja hátt í 30 þúsund manns, ásamt mikilvægri atvinnustarfsemi. Á árum áður var virkt vatnstökusvæði við svokallaða Árnarétt rétt sunnan við byggðina í Garði, en hafði ekki verið nýtt í langan tíma. Til stóð að taka vatnstökusvæðið út úr aðalskipulagi Suðurnesjabæjar en þegar jarðhræringar hófust á Reykjanesi fyrir nokkrum árum var tekin ákvörðun um að halda þessu vatnstökusvæði inni í aðalskipulaginu að ósk HS Veitna. Á síðasta ári óskaði HS Veitur eftir því að fá heimild til að bora tvær vatnstökuholur á svæðinu til að tryggja varavatnsból fyrir svæðið ef illa fer með vatnslögnina frá Lágum. Vasklega var gengið til verks og var gengið frá öllum tilheyrandi leyfum og fjármögnun með forgangshraða þannig að HS Veitur réðust í verkefnið. Nú er verkefninu lokið, búið að bora tvær vatnstökuholur og ekkert því til fyrirstöðu að dæla gæða neysluvatni inn á veitukerfin í Suðurnesjabæ og Reykjanesbæ. Áætlað er að vatnsveitan í Árnarétt geti gefið um 100 l/s inn í veitukerfin, sem er nægilegt magn fyrir íbúðabyggðirnar í sveitarfélögunum báðum. Hér er um að ræða mikilvægt verkefni sem tryggir öryggi íbúanna í sveitarfélögunum varðandi neysluvatn. HS Veitur eiga mikið hrós skilið fyrir vasklega framgöngu í þessu máli, allt í þágu íbúanna á svæðinu. Sömuleiðis eiga allir aðilar sem komu að framgangi málsins hrós og þakkir skilið fyrir vel unnið verkefni.

Þriðjudaginn 23.janúar var sérstök athöfn þar sem borholurnar voru teknar í notkun og var skálað í afbragðs vatni úr vatnsveitunni af því tilefni. Allir aðilar voru mjög kátir og glaðir með þennan mikilvæga áfanga.

Bæjarstjórar Suðurnesjabæjar og Reykjanesbæjar kátir með nýju borholur vatnsveitunnar við Árnarétt

Uppbygging íbúðarhúsnæðis

Unnið er að gatnagerð í Klappar-og Teigahverfi í Garði samkvæmt deiliskipulagi hverfisins og styttist óðum í að íbúðalóðum verði úthlutað. Fljótlega hefjast framkvæmdir við annan áfanga Skerjahverfis í Sandgerði samkvæmt deiliskipulagi. Með þessum framkvæmdum verður töluvert framboð af lóðum undir allar gerðir íbúða, í rað-og parhúsum, fjölbýli og einbýli. Auk þessa eru nú í gangi framkvæmdir við byggingu íbúðarhúsnæðis á lóðum sem þegar hefur verið úthlutað í báðum þessum hverfum, auk nokkurra lóða á öðrum stöðum í sveitarfélaginu. Suðurnesjabær er ört vaxandi sveitarfélag og mikil eftirspurn hefur verið eftir íbúðalóðum sem sveitarfélagið vill mæta með auknu framboði af lóðum.

Sviðsstjóri mennta-og tómstundasviðs

Nýlega var gengið frá ráðningu á sviðsstjóra mennta-og tómstundasviðs Suðurnesjabæjar. Um er að ræða nýja stöðu í kjölfar skipulagsbreytinga á fjölskyldusviði, sem felur í sér að fjölskyldusviði er skipt upp í tvö svið, mennta-og tómstundasviði annars vegar og velferðarsvið hins vegar.  Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir nýráðin sviðsstjóri mennta-og tómstundasviðs kom í heimsókn og undirritaði ráðningarsamning með bæjarstjóra, ásamt því að hún hitti helsta væntanlegt samstarfsfólk. Hafdís mun hefja störf formlega 1.apríl nk.

Hafdís sviðsstjóri og bæjarstjóri undirrita ráðningarsamning

Nafn á bæjarhátíð

Bæjarhátíð íbúa Suðurnesjabæjar verður haldin undir lok sumars. Almennt hafa bæjarhátíðir í sveitarfélögum sérstakt heiti, gjarnan með skírskotun til staðhátta, menningar eða annars sem viðkemur hverjum stað. Bæjarhátíð íbúa Suðurnesjabæjar hefur ekki fengið ákveðið heiti eftir að Suðurnesjabær varð til árið 2018. Áður höfðu bæjarhátíðir í Garði og Sandgerði sín heiti, í Garði var Sólseturshátíð og í Sandgerði voru Sandgerðisdagar. Nú hefur Ferða-, safna-og menningarráð leitað eftir tillögum frá íbúum um heiti á bæjarhátíðina okkar. Við hvetjum sem flesta að skila hugmyndum um heiti á bæjarhátíðina á íbúavefinn Betri Suðurnesjabær á heimasíðu sveitarfélagsins, sudurnesjabaer.is fyrir 1.apríl 2024.

Veður og rafmagn

Miðað við árstíma og ekki síst miðað við veðurfar fyrir ári síðan, þá hefur janúar farið nokkuð vel með okkur ef litið er til veðurfarsins. Á köflum hefur verið hið besta veður, ekki mikið um snjó en nokkkuð kalt á köflum. Nú að morgni bóndadags er hæglætisveður í Suðurnesjabæ, smá snjókoma og hitastigið um frostmarkið. Útlit er þokkalegt næstu daga en ef hugsað er til baka nokkur ár þá hafa gjarnan komið leiðinda veðurkaflar í byrjun febrúar, sem er á næsta leiti en vonandi sleppum við við það að þessu sinni. Í gær, fimmtudag og í fyrrinótt var nokkuð um þrumur og eldingar og laust eldingu í raforkukerfið þannig að Suðurnesjalína 1 sló út um miðjan dag í gær, kerfið sló út og allt Reykjanesið varð rafmagnslaust um stund. Þá vantaði okkur að hafa Suðurnesjalínu 2 og þetta tilvik sannaði enn og aftur hvað raforkukerfið á svæðinu er ótryggt með eina flutningslínu út á Reykjanesið. Nú hillir undir að Suðurnesjalína 2 verði að veruleika, sem er langþráður áfangi og mun auka raforkuöryggi á svæðinu.

Góða helgi og góða skemmtun á fjölmörgum þorrablótum sem verða haldin vítt og breitt um landið á næstu vikum !

Facebooktwittermail