Uppskeruhátíðir skólabarna

Árhátíðir og viðburðir í skólum

Nú er tími árshátíða og annarra viðburða hjá börnunum í skólunum. Í þessari viku hafa nemendur Sandgerðisskóla og Gerðaskóla haldið sínar árshátíðir og í síðustu viku var skemmtilegur viðburður í Sandgerðisskóla undir heitinu „Rokkskólinn í Sandgerði“. Þar stigu á stokk efnilegir tónlistarmenn í skólanum og fluttu mjög skemmtilegt rokkprógramm.  Myndin hér að neðan er af hópnum sem tók þátt í sýningunni í Sandgerðisskóla.

Heimsókn nemenda Gerðaskóla til bæjarstjóra

Nú í vikunni komu ungir nemendur Gerðaskóla til bæjarstjóra með undirskriftalista sem nemendur skólans höfðu áritað. Tilefnið er að þegar hitaveitulögn rofnaði af völdum eldgoss í febrúar og heitavatnslaust var á Suðurnesjum, þá varð tjón á gólfi íþróttamiðstöðvarinnar í Garði. Íþróttasalurinn hefur verið ónothæfur síðan og nemendur skólans hafa ekki getað komist í íþróttir í salnum af þessum völdum. Þetta eru nemendur eðlilega ekki sáttir við og vilja komast í íþróttasalinn sem fyrst. Þau virðast hins vegar gera sér góða grein fyrir því að það getur tekið tíma að koma íþróttasalnum aftur í nothæft horf. Undirskriftalistinn er undir þeirri fyrirsögn að nemendurnir vilja íþróttahúsið aftur í ágúst. Það er alltaf ánægjulegt að fá svona heimsókn barna til bæjarstjórans og hér að neðan er mynd af bæjarstjóra og nemendunum þegar þær afhentu bæjarstjóra undirskriftalistann.

Bæjarráð

Í síðustu viku var reglulegur fundur hjá bæjarráði. Að venju voru mörg og mismunandi mál á dagskrá fundarins. Þar má m.a. nefna erindi vegna 80 ára afmælis lýðveldisins Ísland, með upplýsingum um hátíðahöld af því tilefni. Fjallað var um erindi frá framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna kjarasamninga, með hvatningu til sveitarfélaga að endurskoða þjónustugjaldskrár og samþykkti bæjarráð að fela bæjarstjóra að koma með tillögur þar um. Þá var fjallað um samantekt á mögulegum byggingarlóðum við þegar byggðar götur og var því máli vísað til úrvinnslu hjá framkvæmda-og skipulagsráði. Loks má nefna að fjallað var um uppbyggingu á gervigrasvelli.

Uppbygging nýrra íbúðarhverfa í Suðurnesjabæ

Mikil eftirspurn er eftir íbúðalóðum í Suðurnesjabæ. Nú í vikunni samþykkti framkvæmda-og skipulagsráð úthlutun á sex lóðum undir einbýlishús í Garði og Sandgerði. Framkvæmdir standa yfir í nýju íbúðahverfi í Garði og á næstu dögum hefjast framkvæmdir við 2.áfanga uppbyggingar Skerjahverfis í Sandgerði. Verktaki í Garði er Gröfuþjónusta Tryggva Einarssonar og skrifað hefur verið undir verksamning við Ellert Skúlason ehf um framkvæmdina í Skerjahverfi.

Viðvörun um eiturloft í Garði

Nú í vikunni kom viðvörun frá Umhverfisstofnun og Almannavörnum um að loftgæðamælir í Garði hafi sýnt gríðarlega há gildi loftmengunar sem álitið var að væri af völdum eiturgufa frá eldgosinu á Reykjanesi. Viðbragðsáætlun Suðurnesjabæjar var strax virkjuð, gefnar út viðvaranir og upplýsingum komið á framfæri við íbúa. Stuttu eftir að viðvörunin var gefin út kom tilkynning um að viðkomandi loftgæðamælir væri bilaður og ekkert að marka þessa mælingu. Þetta var að sjálfsögðu óþægileg uppákoma, en það jákvæða er að þetta var þegar upp var staðið mjög góð æfing við að virkja viðbragðsáætlun og tókst hún því mjög vel.

Veðurfarið

Þegar þetta er ritað um miðjan dag föstudaginn 22.mars er sókskin og bjart veður, sem oft fylgir norðlægum áttum og er nokkur norðlægur vindur. Veðrið er hið besta, ekki síst ef miðað er við þennan árstíma. Í gærkvöldi og síðustu nótt snjóaði aðeins en snjóinn tók fljótt upp þegar leið inn í morguninn. Ágæt veðurspá er fyrir komandi helgi og ættu að vera fínar aðstæður til útivistar.

Góða helgi

Facebooktwittermail