Uppskeruhátíðir skólabarna

Árhátíðir og viðburðir í skólum

Nú er tími árshátíða og annarra viðburða hjá börnunum í skólunum. Í þessari viku hafa nemendur Sandgerðisskóla og Gerðaskóla haldið sínar árshátíðir og í síðustu viku var skemmtilegur viðburður í Sandgerðisskóla undir heitinu „Rokkskólinn í Sandgerði“. Þar stigu á stokk efnilegir tónlistarmenn í skólanum og fluttu mjög skemmtilegt rokkprógramm.  Myndin hér að neðan er af hópnum sem tók þátt í sýningunni í Sandgerðisskóla.

Heimsókn nemenda Gerðaskóla til bæjarstjóra

Nú í vikunni komu ungir nemendur Gerðaskóla til bæjarstjóra með undirskriftalista sem nemendur skólans höfðu áritað. Tilefnið er að þegar hitaveitulögn rofnaði af völdum eldgoss í febrúar og heitavatnslaust var á Suðurnesjum, þá varð tjón á gólfi íþróttamiðstöðvarinnar í Garði. Íþróttasalurinn hefur verið ónothæfur síðan og nemendur skólans hafa ekki getað komist í íþróttir í salnum af þessum völdum. Þetta eru nemendur eðlilega ekki sáttir við og vilja komast í íþróttasalinn sem fyrst. Þau virðast hins vegar gera sér góða grein fyrir því að það getur tekið tíma að koma íþróttasalnum aftur í nothæft horf. Undirskriftalistinn er undir þeirri fyrirsögn að nemendurnir vilja íþróttahúsið aftur í ágúst. Það er alltaf ánægjulegt að fá svona heimsókn barna til bæjarstjórans og hér að neðan er mynd af bæjarstjóra og nemendunum þegar þær afhentu bæjarstjóra undirskriftalistann.

Bæjarráð

Í síðustu viku var reglulegur fundur hjá bæjarráði. Að venju voru mörg og mismunandi mál á dagskrá fundarins. Þar má m.a. nefna erindi vegna 80 ára afmælis lýðveldisins Ísland, með upplýsingum um hátíðahöld af því tilefni. Fjallað var um erindi frá framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna kjarasamninga, með hvatningu til sveitarfélaga að endurskoða þjónustugjaldskrár og samþykkti bæjarráð að fela bæjarstjóra að koma með tillögur þar um. Þá var fjallað um samantekt á mögulegum byggingarlóðum við þegar byggðar götur og var því máli vísað til úrvinnslu hjá framkvæmda-og skipulagsráði. Loks má nefna að fjallað var um uppbyggingu á gervigrasvelli.

Uppbygging nýrra íbúðarhverfa í Suðurnesjabæ

Mikil eftirspurn er eftir íbúðalóðum í Suðurnesjabæ. Nú í vikunni samþykkti framkvæmda-og skipulagsráð úthlutun á sex lóðum undir einbýlishús í Garði og Sandgerði. Framkvæmdir standa yfir í nýju íbúðahverfi í Garði og á næstu dögum hefjast framkvæmdir við 2.áfanga uppbyggingar Skerjahverfis í Sandgerði. Verktaki í Garði er Gröfuþjónusta Tryggva Einarssonar og skrifað hefur verið undir verksamning við Ellert Skúlason ehf um framkvæmdina í Skerjahverfi.

Viðvörun um eiturloft í Garði

Nú í vikunni kom viðvörun frá Umhverfisstofnun og Almannavörnum um að loftgæðamælir í Garði hafi sýnt gríðarlega há gildi loftmengunar sem álitið var að væri af völdum eiturgufa frá eldgosinu á Reykjanesi. Viðbragðsáætlun Suðurnesjabæjar var strax virkjuð, gefnar út viðvaranir og upplýsingum komið á framfæri við íbúa. Stuttu eftir að viðvörunin var gefin út kom tilkynning um að viðkomandi loftgæðamælir væri bilaður og ekkert að marka þessa mælingu. Þetta var að sjálfsögðu óþægileg uppákoma, en það jákvæða er að þetta var þegar upp var staðið mjög góð æfing við að virkja viðbragðsáætlun og tókst hún því mjög vel.

Veðurfarið

Þegar þetta er ritað um miðjan dag föstudaginn 22.mars er sókskin og bjart veður, sem oft fylgir norðlægum áttum og er nokkur norðlægur vindur. Veðrið er hið besta, ekki síst ef miðað er við þennan árstíma. Í gærkvöldi og síðustu nótt snjóaði aðeins en snjóinn tók fljótt upp þegar leið inn í morguninn. Ágæt veðurspá er fyrir komandi helgi og ættu að vera fínar aðstæður til útivistar.

Góða helgi

Facebooktwittermail

Sól hækkar á lofti með hverjum degi

Er vorið að koma ?

Nú undanfarið hefur veðurfarið verið með þeim hætti að það er eins og sé vor í lofti. Það er að vísu ennþá bara byrjun mars mánuðar en engu að síður er þetta tilfinningin. Oft hefur þessi árstími einkennst af miklum snjóum og kulda, enda hávetur samkvæmt dagatalinu og í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við slíkt veðurfar á þessum tíma árs. Það er ágætt að veðurfarið sé með þessum hætti þessa dagana, það styttir að minnsta kosti veturinn en kannski er það ekki ákjósanlegt að öðru leyti, en það er önnur saga. Njótum meðan hægt er.

Bæjarstjórn í vikunni

Nú í vikunni var fundur hjá bæjarstjórn Suðurnesjabæjar, fundurinn var í beinni útsendingu um netið og má alltaf finna hlekk á útsendingu bæjarstjórnarfunda á facebook síðu Suðurnesjabæjar. Ýmis mál voru á dagskránni, mest afgreiðslumál frá nefndum og ráðum. Það er jafnan góður andi á fundum bæjarstjórnar og eru bæjarfulltrúar samheldinn hópur. Það skiptir miklu máli og er jafnan ávísun á góðan árangur bæjarstjórnar. Það á við um bæjarstjórn Suðurnesjabæjar.

Stjórnendafundur

Stjórnendahópur Suðurnesjabæjar kemur saman nokkrum sinnum á ári og er á þeim fundum farið yfir ýmis málefni, bæði til kynningar og umræðu. Að þessu sinni var meðal annars fjallað um náttúruvá á Reykjanesi og viðbragð almannavarna. Þá var kynning á stjórnendum sem hafa nýlega hafið störf hjá sveitarfélaginu og einnig ítarleg yfirferð um verkefni og starfsemi umhverfismiðstöðvar, þar sem fram kom hve fjölbreytileg og mörg verkefni starfsmenn umhverfismiðstöðvar leysa af hendi í þágu íbúanna. Loks var yfirferð um nýja húsnæðisáætlun Suðurnesjabæjar. Hér er mynd af Eyjólfi forstöðumanni umhverfismiðstöðvar fara yfir allt það sem hann og hans menn eru að gera alla daga allt árið.

Vinnustofa HB64

HB64 er þróunarverkefni sem Suðurnesjabær tekur þátt í ásamt Reykjanesbæ og Kadeco. Um er að ræða þróun, skipulag og uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu Helguvík (H) og Bergvík (B) og er í grunninn í anda hringrásarhagkerfis og grænnar starfsemi. Í vikunni var vinnustofa fulltrúa þessara aðila ásamt erlendum og innlendum ráðgjöfum, en gríðarleg tækifæri liggja í þessu verkefni og er horft til framtíðar með það að markmiði að á þessu svæði byggist smám saman upp öflugt atvinnulíf í þeim anda sem upp er lagt með. Það verður í senn spennandi og áhugavert að fylgjast með hvernig til muni takast í náinni framtíð að fylgja þessu verkefni eftir. Það var ekki töluð vitleysan hjá sérfræðingunum við þetta borð á vinnustofunni.

Framboð á íbúðalóðum

Nú í vikunni auglýsti Suðurnesjabær nokkrar einbýlishúsalóðir lausar til umsókna.  Unnið er af krafti að gatnagerð og uppbyggingu innviða í íbúðahverfum bæði í Garði og Sandgerði og má reikna með að íbúðalóðir komi til úthlutunar í vor og í sumar. Suðurnesjabær hefur það að markmiði að uppfylla þarfir og mæta eftirspurn eftir íbúðalóðum, sem hefur verið mikil að undanförnu og er reiknað með að aukist jafnvel á næstu misserum. Við bjóðum nýja íbúa velkomna í Suðurnesjabæ.

Lífshlaupinu lokið þetta árið

Að undanförnu hefur staðið yfir hið árlega Lífshlaup. Lífshlaupið er heilsu-og hvatningarverkefni Íþrótta-og olympíusambands Íslands sem höfðar til allra landsmanna. Markmið þess er að hvetja landsmenn til þess að fara að ráðleggingum Embættis landslæknis um hreyfingu. Lífshlaupið í ár hófst 7.febrúar. Starfsfólk Suðurnesjabæjar hélt uppskeruhátíð í lok Lífshlaupsins, þar sem veittar voru viðurkenningar fyrir bestan árangur og ástundun, ásamt því að boðið var upp á annálað heilsufæði frá Hjá Höllu, sem hóf starfsemi í Vörðunni í Sandgerði nú í vikunni. Hér er mynd af þeim sem stóðu sig hvað best af starfsfólki ráðhúsa Suðurnesjabæjar, til hamingju !

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna

Í dag þann 8.mars er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Konur í nokkrum löndum hófu sína baráttu á þessum degi snemma á síðustu öld og smám saman hefur 8.mars orðið alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Við sendum konum um allan heim baráttukveðjur í tilefni dagsins á þeirra vegferð til aukinna réttinda og bættra lífskjara kvenna, sem því miður er mikil þörf á í mörgum löndum í heiminum.

Góða helgi

Facebooktwittermail

Hlaupár

Hlaupársdagurinn 29. febrúar

Á fjögurra ára fresti er svokallað hlaupár og þau ár telur febrúarmánuður 29 daga en ekki 28 daga eins og önnur ár. Í almanaki Háskóla Íslands er eftirfarandi almanaksskýring á hlaupári: „Hlaupár er almanaksár sem er degi lengra en venjuleg almanaksár, þ.e. 366 dagar í stað 365. Hlaupár eru alltaf þegar talan 4 gengur upp í ártalinu, nema á aldamótum þegar ártalið endar á 00. Þá er hlaupár aðeins þegar talan 400 gengur upp í ártalinu. Aukadeginum sem nefndur er hlaupársdagur, er aukið við febrúarmánuð. Nafnið hlaupár mun dregið af því, að merkisdagar eftir hlaupársdag „hlaupa yfir“ þann vikudag sem þeir myndu annars falla á. Reglur um hlaupár eru nauðsynlegar til að fella almanaksárið að árstíðaárinu, sem ekki telur heila tölu daga“.

Allmargir hafa fæðst á hlaupársdegi þann 29.febrúar. Það hlýtur að vera sérstakt fyrir viðkomandi að sjálfur afmælisdagurinn sé fjórða hvert ár. Það er því full ástæða til að óska öllum afmælisbörnum sem fæddust 29.febrúar sérstaklega til hamingju með afmælisdaginn í gær, þann 29.febrúar 2024.

Bæjarráð í vikunni

Fundur var í bæjarráði Suðurnesjabæjar nú í vikunni og að vanda voru ýmis mál úr ýmsum áttum á dagskrá fundarins. Í upphafi fundar komu starfsmenn Kadeco sem gestir á fundinn og kynntu þróunaráætlunina HB64, sem nær yfir landsvæðið Helguvík og Bergvík. Spennandi verkefni sem fróðlegt verður að fylgjast með á næstu misserum og árum. Fjallað var um íþróttamannvirki og íþróttamál, gestur fundarins vegna þessa dagskrárliðar var Unnur Ýr Kristinsdóttir íþrótta-og tómstundafulltrúi. Þá var fjallað um húsnæðisáætlun Suðurnesjabæjar, henni vísað til staðfestingar hjá bæjarstjórn. Meðal annarra mála má m.a. nefna fundargerð verkefnishóps um könnunarviðræður Suðurnesjabæjar, Reykjanesbæjar og Sveitarfélagsins Voga um hugsanlega/mögulega sameiningu sveitarfélaga, en þessi vinna er óformleg og án allra skuldbindinga sveitarfélaganna. Þá má einnig nefna að bæjarráð samþykkti að veita bæjarstjóra umboð til að ganga frá samningi við verktaka um framkvæmdir við gatnagerð í Skerjahverfi í Sandgerði og mun það verk væntanlega hefjast á næstu dögum. Alltaf nóg um að vera hjá bæjarráði.

FabLab Suðurnes

Fyrir nokkrum dögum var boðið til opnunar FabLab smiðjunnar sem staðsett er í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Fjöldi manns mætti í smiðjuna og kynntu sér þá starfsemi sem þar er í boði. Svona FabLab smiðjur hafa verið starfræktar á nokkrum stöðum í landinu og hefur orðið góður árangur af þeim. FabLab Suðurnes er opin öllum sem hafa hugmyndir og vantar vettvang til að vinna að þeim og koma þeim á fyrstu skref til úrvinnslu. Ástæða er til að hvetja alla sem hafa slíkar hugmyndir til að líta við í FabLab Suðurnes í fjölbrautaskólanum, fá leiðsögn og aðstoð við að vinna úr sínum hugmyndum. Verkefnisstjóri FabLab Suðurnes er Vihjálmur Magnússon, en hann starfaði m.a. við FabLab smiðju á Höfn og hefur því góða reynslu af svona starfsemi. Á myndinni hér að neðan er bæjarstjóri ásamt þeim Vilhjálmi og Kristjáni skólameistara Fjölbrautaskóla Suðurnesja þegar formleg opnun FabLab Suðurnes var síðasta föstudag.

Góðir gestir frá Grundarfirði

Það er alltaf ánægjulegt að taka á móti góðum gestum. Nú í dag, föstudag kom bæjarstjórn, bæjarstjóri og skipulagsfulltrúi Grundarfjarðarbæjar í heimsókn. Þau eru að kynna sér ákveðin mál varðandi skipulagsmál og uppbyggingu og bæjarstjórinn kynnti Suðurnesjabæ fyrir gestunum. Skipulagsfulltrúi Grundarfjarðarbæjar er Sigurður Valur Ásbjarnarson, sem á árum fyrr var bæjarstjóri Sandgerðisbæjar og var áhugavert að heyra hann fara yfir ýmis málefni frá því hann starfaði sem bæjarstjóri í Sandgerðisbæ. Undirritaður var fyrir nokkru síðan sveitarstjóri Eyrarsveitar, eins og Grundarfjarðarbær hét á þeim tíma, það var á árunum 1990-1995. Það var því sérstök ánægja að taka á móti grundfirðingunum, enda eru í þeim hópi góðir vinir frá fyrri tíð. Núverandi bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar er Björg Ágústsdóttir, en hún tók einmitt við starfi sveitarstjóra Eyrarsveitar þegar undirritaður lét af því starfi árið 1995, en rétt að geta þess að Björg hefur ekki samfellt starfað sem sveitar-og bæjarstjóri í Grundarfirði allan þennan tíma en gert það með hléum, en starfstími hennar er orðinn ansi langur og farsæll. Hér fyrir neðan eru myndir frá heimsóknin bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar, annars vegar gestirnir ásamt bæjarstjóra og hins vegar bæjarstjórar Suðurnesjabæjar og Grundarfjarðarbæjar ásamt Jósep forseta bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar. Bestu þakkir fyrir ánægjulega heimsókn kæru grundfirðingar.

Góða helgi.

Facebooktwittermail