Hlaupár

Hlaupársdagurinn 29. febrúar

Á fjögurra ára fresti er svokallað hlaupár og þau ár telur febrúarmánuður 29 daga en ekki 28 daga eins og önnur ár. Í almanaki Háskóla Íslands er eftirfarandi almanaksskýring á hlaupári: „Hlaupár er almanaksár sem er degi lengra en venjuleg almanaksár, þ.e. 366 dagar í stað 365. Hlaupár eru alltaf þegar talan 4 gengur upp í ártalinu, nema á aldamótum þegar ártalið endar á 00. Þá er hlaupár aðeins þegar talan 400 gengur upp í ártalinu. Aukadeginum sem nefndur er hlaupársdagur, er aukið við febrúarmánuð. Nafnið hlaupár mun dregið af því, að merkisdagar eftir hlaupársdag „hlaupa yfir“ þann vikudag sem þeir myndu annars falla á. Reglur um hlaupár eru nauðsynlegar til að fella almanaksárið að árstíðaárinu, sem ekki telur heila tölu daga“.

Allmargir hafa fæðst á hlaupársdegi þann 29.febrúar. Það hlýtur að vera sérstakt fyrir viðkomandi að sjálfur afmælisdagurinn sé fjórða hvert ár. Það er því full ástæða til að óska öllum afmælisbörnum sem fæddust 29.febrúar sérstaklega til hamingju með afmælisdaginn í gær, þann 29.febrúar 2024.

Bæjarráð í vikunni

Fundur var í bæjarráði Suðurnesjabæjar nú í vikunni og að vanda voru ýmis mál úr ýmsum áttum á dagskrá fundarins. Í upphafi fundar komu starfsmenn Kadeco sem gestir á fundinn og kynntu þróunaráætlunina HB64, sem nær yfir landsvæðið Helguvík og Bergvík. Spennandi verkefni sem fróðlegt verður að fylgjast með á næstu misserum og árum. Fjallað var um íþróttamannvirki og íþróttamál, gestur fundarins vegna þessa dagskrárliðar var Unnur Ýr Kristinsdóttir íþrótta-og tómstundafulltrúi. Þá var fjallað um húsnæðisáætlun Suðurnesjabæjar, henni vísað til staðfestingar hjá bæjarstjórn. Meðal annarra mála má m.a. nefna fundargerð verkefnishóps um könnunarviðræður Suðurnesjabæjar, Reykjanesbæjar og Sveitarfélagsins Voga um hugsanlega/mögulega sameiningu sveitarfélaga, en þessi vinna er óformleg og án allra skuldbindinga sveitarfélaganna. Þá má einnig nefna að bæjarráð samþykkti að veita bæjarstjóra umboð til að ganga frá samningi við verktaka um framkvæmdir við gatnagerð í Skerjahverfi í Sandgerði og mun það verk væntanlega hefjast á næstu dögum. Alltaf nóg um að vera hjá bæjarráði.

FabLab Suðurnes

Fyrir nokkrum dögum var boðið til opnunar FabLab smiðjunnar sem staðsett er í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Fjöldi manns mætti í smiðjuna og kynntu sér þá starfsemi sem þar er í boði. Svona FabLab smiðjur hafa verið starfræktar á nokkrum stöðum í landinu og hefur orðið góður árangur af þeim. FabLab Suðurnes er opin öllum sem hafa hugmyndir og vantar vettvang til að vinna að þeim og koma þeim á fyrstu skref til úrvinnslu. Ástæða er til að hvetja alla sem hafa slíkar hugmyndir til að líta við í FabLab Suðurnes í fjölbrautaskólanum, fá leiðsögn og aðstoð við að vinna úr sínum hugmyndum. Verkefnisstjóri FabLab Suðurnes er Vihjálmur Magnússon, en hann starfaði m.a. við FabLab smiðju á Höfn og hefur því góða reynslu af svona starfsemi. Á myndinni hér að neðan er bæjarstjóri ásamt þeim Vilhjálmi og Kristjáni skólameistara Fjölbrautaskóla Suðurnesja þegar formleg opnun FabLab Suðurnes var síðasta föstudag.

Góðir gestir frá Grundarfirði

Það er alltaf ánægjulegt að taka á móti góðum gestum. Nú í dag, föstudag kom bæjarstjórn, bæjarstjóri og skipulagsfulltrúi Grundarfjarðarbæjar í heimsókn. Þau eru að kynna sér ákveðin mál varðandi skipulagsmál og uppbyggingu og bæjarstjórinn kynnti Suðurnesjabæ fyrir gestunum. Skipulagsfulltrúi Grundarfjarðarbæjar er Sigurður Valur Ásbjarnarson, sem á árum fyrr var bæjarstjóri Sandgerðisbæjar og var áhugavert að heyra hann fara yfir ýmis málefni frá því hann starfaði sem bæjarstjóri í Sandgerðisbæ. Undirritaður var fyrir nokkru síðan sveitarstjóri Eyrarsveitar, eins og Grundarfjarðarbær hét á þeim tíma, það var á árunum 1990-1995. Það var því sérstök ánægja að taka á móti grundfirðingunum, enda eru í þeim hópi góðir vinir frá fyrri tíð. Núverandi bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar er Björg Ágústsdóttir, en hún tók einmitt við starfi sveitarstjóra Eyrarsveitar þegar undirritaður lét af því starfi árið 1995, en rétt að geta þess að Björg hefur ekki samfellt starfað sem sveitar-og bæjarstjóri í Grundarfirði allan þennan tíma en gert það með hléum, en starfstími hennar er orðinn ansi langur og farsæll. Hér fyrir neðan eru myndir frá heimsóknin bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar, annars vegar gestirnir ásamt bæjarstjóra og hins vegar bæjarstjórar Suðurnesjabæjar og Grundarfjarðarbæjar ásamt Jósep forseta bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar. Bestu þakkir fyrir ánægjulega heimsókn kæru grundfirðingar.

Góða helgi.

Facebooktwittermail