Nokkuð er síðan síðasti molapistill fór í loftið og eru ýmsar ástæður fyrir því. Meðal annars sú að bæjarstjórinn tók sér smá frí og fór á íslendingaslóðir í suðurhöfum. Hins vegar hefur margt verið um að vera að undanförnu, mikið um fundahöld og viðburði ásamt hinu daglega lífi í störfum bæjarstjórans, starfsfólks Suðurnesjabæjar og íbúanna.
Menningin
Gyrðir Elíasson rithöfundur og myndlistarmaður sem er búsettur í Garði opnaði fyrir nokkru myndlistarsýningu að Sunnubraut 4 í Garði, sem hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli. Þar sýnir Gyrðir um 1.200 myndverk sem hann hefur unnið á undanförnum árum. Sýningin er hin glæsilegasta og er hreint með ólíkindum hve hann hefur verið afkastamikill í myndlistinni samhliða ritstörfum. Það er mikill heiður fyrir Suðurnesjabæ og samfélagið okkar að slíkur listamaður sé búsettur í okkar samfélagi og að við getum notið hans lista. Mikil aðsókn hefur verið að myndlistarsýningunni og lýkur henni um komandi helgi. Full ástæða er til að hvetja alla til að sækja sýninguna og njóta þessa einstæða viðburðar. Hér að neðan er Gyrðir við brot af myndum á sýningunni.
Menningarsjóður Suðurnesjabæjar veitir styrki til menningarverkefna í Suðurnesjabæ og voru styrkir afhentir í Sjólyst, húsi Unu í Sjólyst í vikunni. Það er mikilvægt að sveitarfélagið stuðli að menningarverkefnum með því að veita slíka styrki og er með það að markmiði að efla menningarlífið.
Ljóðasamkeppni Dagstjörnunnar stendur nú yfir og lýkur með því að verðlaun verða veitt sumardaginn fyrsta þann 25. apríl. Hollvinafélag Unu Guðmundsdóttur í Garði hefur um árabil efnt til ljóðasamkeppninnar, sem ber heitið Dagstjarnan eftir fallegu blómunum sem uxu við hús Unu, Sjólyst í Garði. Ljóðasamkeppnin er ætluð öllum íbúum sveitarfélagsins og eru nemendur í leik-og grunnskólum sveitarfélagsins sérstaklega hvattir til þátttöku. Þátttakendur skili sínum ljóðum í ráðhúsi Suðurnesjabæjar að Sunnubraut 4 í Garði.
Könnunarviðræður um hugsanlega sameiningu sveitarfélaga
Sveitarfélögin Suðurnesjabær, Reykjanesbær og Vogar ákváðu fyrr í vetur að stofna til samstarfs um könnunarviðræður varðandi hugsanlega sameiningu sveitarfélaganna. Stofnaður var verkefnishópur fulltrúa sveitarfélaganna sem hóf störf í febrúar sl. Nú í vikunni voru haldnir íbúafundir í sveitarfélögunum í þeim tilgangi að fá fram sjónarmið íbúanna til ýmissa málefna. Fundirnir voru vel sóttir og einnig tók íbúar þátt í fundinum með rafrænum hætti. Gert er ráð fyrir að bæjarstjórnir sveitarfélaganna taki afstöðu til þess í júní hvort haldið verði áfram með verkefnið með lögbundnu ferli sameiningarviðræðna sem enda með því að íbúarnir kjósi um hvort af sameiningu verði, eða hvort látið verði staðar numið og gott heita við lok þessara könnunarviðræðna. Hér eru myndir frá íbúafundi í Sandgerði 16.apríl.
Fundargestir fullir áhuga
Bæjarstjórarnir hressir og sameinaðir
Uppbygging íbúðahverfa
Nú standa yfir framkvæmdir við gatnagerð og uppbyggingu innviða í íbúðahverfum í Garði og Sandgerði. Innan skamms munu verða auglýstar íbúðalóðir til úthlutunar og er útlit fyrir að töluverð eftirspurn verði eftir lóðum til uppbyggingar. Einnig er unnið að því að bjóða upp á íbúðalóðir við þegar byggðar götur í báðum byggðakjörnum, svonefnd þétting byggðar og von er til að áður en langt um líður verði slíkar lóðir einnig auglýstar til úthlutunar.
Samstarf við Bláa herinn
Suðurnesjabær hefur átt gott samstarf við Bláa herinn undanfarin ár, enda mikilvægt að eiga að slíkan aðila sem vinnur að umhverfisverkefnum og hreinsun umhverfisins. Nú í vikunni var gengið frá samningi við Bláa herinn um samstarfsverkefni. Á myndinni hér að neðan er Tómas Knútsson hershöfðingi Bláa hersins með bæjarstjóranum eftir undirskrift samningsins.
Sýningin Verk og vit
Nú um helgina fer fram stórsýningin Verk og vit í Laugardagshöll. Suðurnesjabær tekur þátt í sýningunni í samstarfi við Reykjanesbæ, Kadeco og Isavia, þar sem verður kynning á sameiginlegum þróunarverkefnum um uppbyggingu atvinnulífs á Suðurnesi, meðal annars á svæðinu Bergvík/Helguvík þar sem unnið er að þróun og uppbyggingu atvinnustarfsemi í grænum anda og út frá hugmyndafræði um hringrásarhagkerfið. Spennandi verkefni sem mun vonandi ganga sem best eftir á næstu misserum og árum. Í tengslum við sýninguna hefur verið sett upp vefsíðan svaedi.is, þar sem eru ýmsar upplýsingar um lóðamál og fleira varðandi uppbyggingu í sveitarfélögunum. Hér er mynd af kynningarbás okkar á sýningunni.
Sorporkustöð
Undanfarin misseri og ár hefur mikið verið unnið að framtíðarlausnum í úrgangsmálum. Fram til þessa hefur sorp verið urðað víða um land en eina sorpbrennslustöðin í landinu er Kalka í Helguvík. Nú í lok vikunnar voru kynntar hugmyndir og tillögur um uppbyggingu á stórri sorporkustöð og er horft til þess að hún rísi í nágrenni við Kölku, á svæðinu Bergvík/Helguvík. Svona stöðvar eru þekktar og hafa um árabil verið starfræktar víða um heiminn, meðal annars í íbuðahverfum stórborga í Evrópu. Svona starfsemi fellur vel að hugmyndafræði hringrásarhagkerfis, meðal annars vegna þess að hún skilar frá sér hráefnum fyrir aðra starfsemi. Sem dæmi myndi svona orkustöð skila frá sér orku og varma sem má nýta meðal annars til að styrkja vinnslu á heitu vatni fyrir svæðið og þar með stuðla að auka orkuöryggi á svæðinu.
Veðurfarið
Um þessar mundir standa yfir átök milli vetrar og sumars, þar sem skiptast á alls konar veðurbrigði sem mun enda með því að veturinn lætur eftir og vorið tekur völdin. Sem merki um það má nefna að vorboðinn blessuð lóan sést nú víða á vappi. Að vanda verður spennandi að sjá hvernig sumarkoman og sumarið sjálft mun meðhöndla okkur með sínu veðurfari, vonandi verðum við sólarmegin að þessu sinni.
Góða helgi 😉