Lognið eftir storminn

Daglegt líf komið í eðlilegt horf

Eftir að hitaveitan varð óvirk við það að hraunrennsli rauf heitavatnslögn frá Svartsengi fyrir rúmri viku síðan er daglegt líf komið í eðlilegt horf á ný. Mikilvægt var að hægt var að halda skólastarfi gangandi alla vikuna og smám saman hefur byggst upp þrýstingur í veitukerfinu aftur. Eina sem eftir stendur er að ná upp eðlilegum hita og þrýstingi í sundlaugunum, nú hillir undir að sundlaugarnar opni jafnvel nú um helgina.  Nánar er fjallað um atburðarásina sem hófst með eldgosinu á fimmtudaginn í síðustu viku í síðasta pistli í Molum.

Gatnagerð á fullu

Nú standa yfir framkvæmdir við gatnagerð og uppbyggingu innviða í öðrum áfanga í Teiga-og Klapparhverfi í Garði. Gröfuþjónusta Tryggva Einarssonar vinnur verkið og er von til að hægt verði að hefja úthlutanir á lóðum í lok mars eða byrjun apríl. Unnið er að því að framkvæmdir við annan áfanga í Skerjahverfi í Sandgerði hefjist af fullum krafti um næstu mánaðamót. Með framkvæmdum í báðum hverfunum eykst lóðaframboð í Suðurnesjabæ og er þar um að ræða lóðir fyrir nánast allar gerðir íbúðarhúsa, allt frá einbýli til fjölbýlis, ásamt rað-og parhúsum. Það verður spennandi að sjá hver eftirspurn verður eftir lóðunum þegar þær fara til úthlutunar.

Framkvæmdir í Teiga-og Klapparhverfi í Garði

Sjóvarnir

Framkvæmdir standa yfir við að styrkja sjóvarnir á nokkrum stöðum með ströndinni. Nú er verið að styrkja varnir framan við byggðina í Garði. Þegar því lýkur verður farið í önnur verkefni þar sem nauðsynlegt er að byggja upp og styrkja sjóvarnir til varnar ágangi sjávar og sjávarflóðum. Sjávarflóð eru helsta náttúruváin sem steðjar að Suðurnesjabæ og er mikilvægt að byggja upp sem öflugastar varnir gegn þeim og það er verkefni sem Suðurnesjabær vinnur í samstarfi við Vegagerðina.

Unnið að styrkingu sjóvarna framan við Garð

Blái herinn – „ekkert jafnast á við hreina strönd“

Suðurnesjabær hefur átt gott samstarf við Bláa herinn mörg undanfarin ár, sem felst í því að halda ströndinni hreinni ásamt öðrum umhverfisverkefnum. Þetta samstarf hefur skilað góðum árangri. Mörg undanfarin ár hefur Blái herinn unnið að hreinsunarverkefnum á ströndum sveitarfélagsins. Þetta er mikilvægt verkefni sem hefur skilað hreinni ströndum og mun halda áfram næstu árin enda nauðsynlegt meðan heimsbyggðin notar hafið sem ruslakistu. Tómas Knútsson hershöfðingi Bláa hersins leit við í ráðhúsinu og afhenti viðurkenningu fyrir samstarf og framlag, ásamt þakklæti fyrir stuðninginn við það verkefni að hreinsa strendur landsins. Full ástæða til að hrósa Tómasi og Bláa hernum fyrir ómetanlegt framlag í hreinsunarstarfi mörg undanfarin ár. Það ætti að vera sameiginlegt verkefni okkar allra að halda ströndum landsins hreinum, það varðar ekki síst ímynd landsins og okkar allra sem fiskveiðiþjóðar.

Tómas hershöfðingi afhendir bæjarstjóra og Einari Friðrik deildarstjóra umhverfismála viðurkenningar-og þakklætisskjal

Veðrið

Þegar þetta er skrifað föstudaginn 16.febrúar er hægviðri og hitastigið komið upp fyrir frostmark. Eftir að hitaveitan varð óvirk fyrir rúmri viku og allt húsnæði missti hita var heppilegt að veðrið var flesta dagana einkar hagstætt, ekki vindasamt og ekki mikið frost. Samkvæmt veðurspám eru hlýindi framundan næstu daga og þá tekur væntanlega upp nánast allan snjó og klaka sem legið hefur yfir undanfarið. Síðan má gera ráð fyrir að kólni aftur, enda erum við ennþá stödd í febrúarmánuði og allra veðra von. Hins vegar nálgast vorið með hverjum degi sem líður.

Góða helgi

Facebooktwittermail