Fordæmalaust ástand og þrekvirki

Eldgos hófst fimmtudaginn 8.febrúar um kl 6 að morgni. Örfáum klukkustundum síðar höfðu vísindamenn keyrt hraunflæðilíkan sem fól í sér að hætt væri við að hraun frá eldgosinu ógnaði heitavatnslögn frá orkustöð HS Orku í Svartsengi sem flytur heitt vatn til byggðarlaganna á Suðurnesjum. Kl 12:05 rofnaði heitavatnslögnin eftir að hraunjaðarinn og glóandi hraunið fór yfir hana. Þar með var orðið heitavatnslaust á Suðurnesjum, nú voru góð ráð dýr !

Glóandi hraun flæðir yfir Grindavíkurveg í átt að heitavatnslögninni

Búið var að virkja Aðgerðastjórn almannavarna á svæðinu (AST) og allir viðbragðsaðilar voru komnir til starfa til að bregðast við ástandinu. Alger óvissa var uppi um hvað væri framundan og hve langur tími myndi líða þar til aftur væri mögulegt að koma heitu vatni í veitukerfin. HS Orka gerði strax tilraun til að nota nýja lögn sem hafði verið lögð í jörðu en lenti undir rauðglóandi hrauninu, en sú tilraun gekk ekki upp þar sem lögnin hafði orðið fyrir tjóni við að hraun flæddi yfir hana. Fljótlega fór að kólna í öllu húsnæði á veitusvæði HS Veitna á Suðurnesjum. Almenningur og stjórnendur sveitarfélaganna sáu fram á mikla kuldatíð, enda voru tveir fyrstu dagarnir með meira frosti en almennt gerist á svæðinu. Sem betur fer fór veðrið fljótt hlýnandi og það sem betra var að það var nánast hægviðri alla dagana því vindkæling er vægast sagt ekki góður kostur við þessar aðstæður. Strax og tilraunin með lögnina undir hrauninu var fyrir bí og reyndar áður en það gerðist voru stjórnendur HS Orku og þeirra sérfræðingar byrjaðir að undirbúa að koma upp annarri lögn til að leiða heita vatnið frá Svartsengi inn í dreifikerfi HS Veitna.

Öll þjóðin hefur fylgst með því þrekvirki sem unnið var af hálfu HS Orku, starfsmanna þeirra og frábærum verktökum sem unnu að verkinu, sem bar þann árangur að aðeins fjórum sólarhringum eftir að hraunrennslið rauf hitaveitulögnina  á fimmtudeginum, þá fór heitt vatn að streyma um lögnina og inn í dreifikerfið, íbúar fóru að fá heitt vatn aftur og á mánudags kvöldi hafði heitt vatn náð að streyma um allt dreifikerfi HS Veitna á svæðinu. Nú er þrýstingur í kerfinu hægt og bítandi að aukast þannig að dreifikerfið muni virka eins og það á að gera. HS Veitur, starfsmenn og verktakar hafa á sama tíma unnið þrekvirki við að halda dreifikerfinu í horfinu, m.a. með því að flytja hátt í 2.000 tonn af heitu vatni með tankbílum frá höfuðborgarsvæðinu og dæla því í dreifikerfið, sú aðgerð var mjög athyglisverð og bar m.a. þann árangur að mun fljótlegra var að veita heita vatninu um dreifikerfið þegar vatnið fór að berast frá HS Orku inn í kerfi HS Veitna. Þá hafa HS Veitur lagt sig fram um alls konar upplýsingagjöf og ráðgjöf til almennings til að tryggja sem best að allt fari vel.

Eitt af því sem allir höfðu áhyggjur af var að allt skólastarf í leik-og grunnskólum var undir og það væri vond niðurstaða ef ekki væri hægt að halda skólastarfi gangandi vegna kulda í skólahúsnæði. Það væru hagsmunir allra í samfélaginu að skólastarf gæti haldist óskert. Að undirlagi almannavarna var hafist handa við það á laugardeginum að finna lausnir sem miðuðu að því að koma hita á allt skólahúsnæði þannig að skólastarf gæti gengið eins og ekkert hafi í skorist. Skemmst er frá að segja að það tókst að útvega rafhitunarbúnað í alla leik-og grunnskóla í Vogum, Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ og var þeim búnaði dreift í alla skóla á sunnudeginum. Búið var að greina getu rafkerfa skólanna til að keyra þennan búnað og gekk það upp í lang flestum tilvikum, að undanskildum grunnskólanum og leikskólanum í Sandgerði. Þar var ekki nóg svigrúm í rafkerfinu til að keyra hitabúnaðinn þannig að hægt væri að halda uppi starfsemi á mánudeginum. Það var ótrúlegt að taka þátt í og upplifa þann gríðarlega samtakamátt sem virkjaðist í þessu verkefni, þar sem fjölmargir aðilar komu að og unnu algert þrekvirki á stuttum tíma. Þegar upp var staðið hefur skólastarf verið að langmestu leyti óskert þrátt fyrir heitavatnsleysi á svæðinu. Þetta ber að þakka og er það gert hér með. Eftir að heita vatnið fór að berast í hitakerfi skólanna á mánudags kvöld hefur skólastarf í öllum skólum sveitarfélaganna gengið mjög vel og nánast eðlilega fyrir sig.

Það hefur verið lærdómsríkt og ánægjulegt að taka þátt í og upplifa hvernig aðgerðastjórnin og allir aðilar sem að málum koma hafa komið hafa unnið og staðið sig frábærlega. Við erum með aðgerðakerfi sem virkar fullkomlega. Það mátti mjög skýrt upplifa að setningin „þetta er ekki hægt“ er ekki til í orðabók viðbragðsaðila. Það er einfaldlega gengið í að leysa þau mál sem upp koma og þarf að leysa og sagan síðustu daga sýnir með afgerandi hætti að þannig er einfaldlega unnið að málum.

Það hefur mikið mætt á starfsmönnum Suðurnesjabæjar að leysa úr fjölmörgum málum sem uppi hafa verið þessa dagana. Suðurnesjabær býr einstaklega vel að frábæru og hæfu starfsfólki sem hefur leyst úr málum á faglegan og fumlausan hátt. Einstakir starfsmenn og verktakar hafa unnið að þessum málum dag sem nótt, á virkum dögum sem helgardögum og lagt allt sitt í verkefnið. Enda hefur allt gengið eins vel og aðstæður hafa boðið og rúmlega það. Starfsmenn Suðurnesjabæjar og verktakar sem unnu með þeim fá sérstakar þakkir fyrir frábæra frammistöðu og einstaklega vel unnin verk. 

Samfélagið og íbúarnir almennt hafa tekið virkan þátt í þessu fordæmalausa verkefni með því að fara að tilmælum og ráðgjöf til dæmis með því að gæta að rafmagnsnotkun, enda er grundvallar atriði við þessar aðstæður að allir leggi sig fram um að ofkeyra ekki rafmagnskerfinu, það hafa sannarlega allir gert. Þess vegna hefur gengið eins vel og raun ber vitni.

Nú er daglegt líf að mestu komið í fastar og eðlilegar skorður og ástand undanfarinna sólarhringa er að baki. Undirritaður á varla til nógu sterk lýsingarorð til að nota um allt það starf sem fjölmargir aðilar hafa lagt af mörkum undanfarna daga. Hins vegar fá allir aðilar hjartans þakkir fyrir frábæra frammistöðu og vel unnin verk þessa daga, sem allt hefur verið þágu samfélagsins. Í öllu þessu birtist kærleikur allra aðila í garð samborgaranna og samstarfsaðilanna, þegar svo er þá gengur allt vel.

Facebooktwittermail