Fyrsta vika Þorra með rysjóttu veðri og margt annað

Hjá Höllu í Sandgerði

Hið vinsæla og þekkta veitingafyrirtæki Hjá Höllu mun hefja starfsemi í framleiðslueldhúsinu í Vörðunni í Sandgerði um mánaðamótin febrúar/mars. Hjá Höllu er eitt margra atvinnufyrirtækja í Grindavík sem leitar leiða til að halda starfsemi sinni gangandi utan Grindavíkur, vegna þeirra aðstæðna sem því miður hafa orðið þar vegna náttúruhamfaranna undanfarið. Gengið hefur verið frá samningi við Höllu um að starfsemi fyrirtækisins verði til húsa í eldhúsinu í Vörðunni. Þar verður vinnslueldhús fyrirtækisins og þar munu vörur Hjá Höllu verða framleiddar fyrir fyrirtækja-og veisluþjónustu hennar, ásamt veitingavörum fyrir veitingastaðinn í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli.  

Við í Suðurnesjabæ bjóðum Hjá Höllu innilega velkomna til okkar með von um að starfsemi hennar gangi sem allra best í nýju umhverfi. Þar með verður Hjá Höllu með tvær starfsstöðvar í Suðurnesjabæ, annars vegar í Vörðunni í Sandgerði og hins vegar í Flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli.

Magnús Stefánsson bæjarstjóri og Halla M Svansdóttir innsigla leigusamning um afnot Hjá Höllu á framleiðslueldhúsinu í Vörðunni í Sandgerði

Fróðleiksfúsi í Þekkingarsetri Suðurnesja

Það var skemmtileg stund í Þekkingarsetri Suðurnesja í Sandgerði þegar fram fór vígsluathöfn þar sem Fróðleiksfúsi var kynntur til leiks. Fróðleiksfúsi er hugarsmíð Daníels G Hjálmtýssonar verkefnastjóra, sem hann með mikilli hugkvæmni og dugnaði hefur komið til framkvæmdar. Fróðleiksfúsi er gagnvirkur fræðsluleikur þar sem spjaldtölvur eru notaðar við að kalla fram ýmsan fróðleik um náttúru og lífríki Íslands og um ýmsa safngripi í Þekkingarsetrinu. Þar má m.a. nefna fjölda af uppstoppuðum fuglum, fiskum og ýmsum dýrum sem eru til sýnis í Þekkingarsetrinu. Þetta er frábær leið til þess að kynna þetta allt saman og veita alls konar fróðleik, sem ekki síst höfðar til barna og ungmenna enda tekur Þekkingarsetrið á hverju ári á móti nemendahópum á öllum aldri frá mörgum skólum. Verkefnið verður þýtt yfir á pólsku og ensku og verður því aðgengilegt á alþjóða vísu. Til hamingju Daníel og Þekkingarsetur, þetta er frábært og eftirtektarvert framtak.

Þetta er hann Fróðleiksfúsi:

Daníel G Hjálmtýsson skapari Fróðleiksfúsa

Bæjarráð

Í vikunni var fundur í bæjarráði. Á dagskrá var meðal annars að skipa fulltrúa Suðurnesjabæjar í verkefnishóp sem hefur það verkefni að skoða kosti þess að Suðurnesjabær, Reykjanesbær og Sveitarfélagið Vogar sameinist og mun verkefnishópur fulltrúa þessara sveitarfélaga skila tillögu til bæjarstjórna um hvort halda skuli áfram með verkefnið og hefja formlegar viðræður um sameiningu sveitarfélaganna eða láta staðar numið og fara ekki lengra með málið. Þá fjallaði bæjarráð um ýmis málefni sem tengjast Grindavíkurbæ, íbúum og atvinnulífi, sérstaklega hvað varðar húsnæðismál. Þá barst bæjarráði erindi frá bæjarstjóra Grindavíkurbæjar sem þakkaði góðar kveðjur og óskir sem bæjarráð bókaði og sendi frá sér eftir síðasta fund bæjarráðs. Loks má nefna að fulltrúar íþróttafélaganna Reynis og Víðis komu á fund bæjarráðs þar sem fjallað var um áform sveitarfélagsins um uppbyggingu á gervigrasvelli.

Frístundabíll hefur akstur

Lengi hefur verið kallað eftir því að sérstakur frístundabíll hefji akstur með börn til íþróttaiðkunar milli byggðarkjarnanna Garðs og Sandgerðis. Nú er þetta orðið að veruleika og hófst þessi akstur nú 1.febrúar, því ber að fagna. Lagt er upp með að þróa þessa þjónustu áfram með það að markmiði að auðvelda börnum aukna þátttöku í íþróttum í sveitarfélaginu. Vonandi gengur þessi þjónusta vel og vel takist að þróa hana áfram í þágu barna og ungmenna í Suðurnesjabæ.

Fab Lab smiðja á Suðurnesjum

Nú hefur verið opnuð svonefnd Fab Lab nýsköpunarsmiðja í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Svona smiðjur hafa verið starfræktar víða um landið og gefið mjög góða raun. Smiðjan er öllum opin sem hafa hugmyndir og vilja vinna að nýsköpunarverkefnum með stuðningi fagfólks og við góða aðstöðu. Þar er hægt að gera frumgerðir, læra á stafræn framleiðslutæki svo sem þrívíddarprentara, laser skera, viðarfræsara og ýmsan annan búnað. Að smiðjunni standa sveitarfélögin á Suðurnesjum, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, háskóla-, iðnaðar-og nýsköpunarráðuneytið, mennta-og barnamálaráðuneytið, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, MSS, Keilir, Fisktækniskóli Íslands og Þekkingarsetur Suðurnesja. Forstöðumaður er Vilhjálmur Magnússon. Allir hugmyndaríkir einstaklingar eru hvattir til að nýta sér þennan vettvang, m.a. með því að senda skilaboð á netfangið fablab@fss.is. Þessu ber að fagna og vonandi mun smiðjan stuðla að aukinni nýsköpunarstarfsemi á Suðurnesjum, enda eru hér margir hugmydaríkir einstaklingar sem þurfa að finna sínum hugmyndum farveg, nú er tækifærið !

Stjórn Fab Lab smiðjunnar ásamt forstöðumanni

Dagur kvenfélagskonunnar

Þann 1.febrúar ár hvert er dagur kvenfélagskonunnar, þann dag árið 1930 var stofndagur Kvenfélagasambands Íslands en einstök kvenfélög eiga mun lengri sögu. Í Suðurnesjabæ er kvenfélagið Gefn í Garði og kvenfélagið Hvöt í Sandgerði. Kvenfélög eru fjölmörg í landinu og hafa þau í áranna rás lagt mikið af mörkum í sínum samfélögum með alls kyns starfsemi. Um leið og kvenfélagskonum er óskað til hamingju með dag kvenfélagskonunnar eru þeim færðar þakkir fyrir umhyggju og ómælt framlag með ýmsum hætti í þágu sinna samfélaga og samborgara.

Suðurnesjalína 2

Nú í vikunni kom fram að Landsnet mun fljótlega hefja framkvæmdir við lagningu Suðurnesjalínu 2. Þetta er langþráður áfangi sem lengi hefur verið unnið að og kallað eftir. Með tilkomu línunnar mun raforkuöryggi aukast til muna á Suðurnesjum og eykst flutningsgeta raforku jafnframt verulega. Ástæða er til að fagna þessu, enda löngu kominn tími til að þetta verkefni verði að veruleika.

Vel heppnað þorrablót

Síðastliðinn laugardag var haldið fjölmennt þorrablót á vegum Knattspyrnufélagsins Víðis og unglingaráðs Víðis og Reynis. Blótið fór fram í íþróttamiðstöðinni í Garði, um 700 manns mættu til leiks, tóku vel til matar og skemmtu sér fram á nótt. Mikil og almenn ánægja var með þetta frábæra þorrablót.

Stuð og stemmari á þorrablóti

Veðurfarið

Eins og fram kemur í fyrirsögn þessa pistils, þá hefur veðurfarið undanfarna viku verið frekar rysjótt. Veðurstofan hefur nokkrum sinnum birt viðvaranir, kuldatíð og vætutíð hafa skipst á og nóg hefur verið að gera hjá starfsmönnum sveitarfélagsins og verktökum við snjómokstur og snjóhreinsun. Það vill nú oft vera svo að vetrarveður komi á óvart, þrátt fyrir að við búum á Íslandi þar sem allra veðra er von allt árið! Veturinn styttist með hverri viku sem líður og sól hækkar á lofti. Vonandi verður veðurfarið okkur hagstætt næstu vikurnar.

Facebooktwittermail