Óvenjulegir tímar fullir áskorana

Liðin vika hefur verið óvenjuleg, svo vægt sé til orða tekið. Undirritaður var frá störfum vegna veikinda fram á fimmtudag, ekkert alvarlegt í gangi.  Að morgni fimmtudags var mætt til starfa og búið að skipuleggja daginn til ýmissa verkefna og stóð til að enda daginn á að vera viðstaddur afhendingu styrkja hjá Uppbyggingarsjóði Suðurnesja. Það var hins vegar ljóst þegar lagt var af stað til starfa þann morgun að eldgos var hafið enn á ný og því tekið af hreinu æðruleysi. Þegar leið inn í morguninn og eftir fyrsta fund dagsins var boðað til fundar hjá Aðgerðastjórn almannavarna (AST), þar sem óttast var að hraunflæði úr hinu nýja eldgosi gæti mögulega náð í heitavatnslögnina frá Svartsengi. Skemmst er frá því að segja að hin úthugsaða áætlun um verkefni dagsins fauk út í veður og vind (það var reyndar blíðu veður og logn !) og við tók óvissuferð það sem eftir var dagsins. Fram í kvöldið skiptust á fundir hjá AST og Neyðarstjórn Suðurnesjabæjar þar sem var unnið að skipulagningu á starfsemi sveitarfélagsins og alls konar verkefnum sem tengdust því að heitavatnslögnin fór undir hraun í hádeginu. Á föstudeginum hélt þessi óvissuferð áfram með svipuðum fundahöldum. Verkefnalistinn fyrir fimmtudaginn og föstudaginn er því nánast óhreyfður þegar helgin náði yfir og vonandi verður hægt að fækka verkefnum á honum strax eftir helgina.

Suðurnesjabær býr vel að úrvals mannskap stjórnenda og starfsmanna. Neyðarstjórnin er mjög virk og lausnamiðuð, mjög vel hefur gengið að vinna úr þeim fjölda verkefna sem fylgja þeim atburði sem við eigum við. Allt gengur það út á að gæta sem best að húsnæði, stofnunum og öðru vegna heitavatnsleysis og passa vel upp á að engin tjón hljótist af. Þá er vel fylgst með íbúum sem njóta þjónustu sveitarfélagsins og brugðist við þeirra þörfum og óskum. Skipulag á starfsemi og þjónustu tekur mið af aðstæðum, allt í þágu þeirra sem við á. Þetta er heilmikið verkefni og hefur vel tekist til. Næst er að gera ráðstafanir til að taka á móti heita vatninu og gæta að því að þá verði engin tjón en á þessari stundu er óljóst hvenær heitt vatn mun flæða inn í Sandgerði og Garð en útlit er fyrir að það gæti mögulega orðið á sunnudagskvöld, vonandi fyrr.

HS Orka og HS Veitur hafa lagt mikið undir við að vinna úr þeim aðstæðum sem upp komu þegar hraunflæðið eyðilagði hitveitulögnina. Starfsmenn þeirra og alls konar verktakar sem hafa komið að málum hafa að mörgu leyti unnið þrekvirki og þar er mikil fagmennska í fyrirrúmi og lausnamiðuð vinnubrögð. Það er langt frá því að vera einfalt mál að lagfæra heitavatnslögnina eftir það áfall sem varð, og þar eru menn að vinna verk á mjög stuttum tíma sem alla jafna tekur vikur eða jafnvel mánuði. Jafnframt er mikil fagmennska í gangi varðandi veitukerfin og ekki má gleyma dreifingu raforku og eftirliti með því við þessar aðstæður. Allir þessir aðilar fá hrós og þakkir fyrir þeirra störf. Úr því byrjað er að hrósa og þakka, þá fá allir sem hafa unnið við aðgerðastjórn Almannavarna sérstakar þakkir fyrir þeirra störf. Það hefur verið mjög ánægjulegt að fá tækifæri til að fylgjast með þeirri fagmennsku sem þar ræður ríkjum, fumleysi og lausnamiðaðar ákvarðnir hafa heldur betur sannað sig og sýnt fram á hve almannavarnakerfi okkar virkar vel.

Ég á ekki von á að sleppa hendinni af ullarteppinu í sjónvarpssófanum fyrr en eftir helgina þegar von er til að ylur fari aftur að komast á heimilið. En, þegar hugsað er til þess við hvaða húsakost og aðbúnað fólk lifði við fyrir ekki svo mjög löngu síðan er full ástæða til að vera þakklátur þrátt fyrir smá tíma af hitaleysi. Við munum kunna að meta lífsgæðin þegar allt verður komið í samt horf aftur eftir stuttan tíma.

Góða helgi og hlýjar kveðjur til allra á Suðurnesjum, sem þurfa að búa við óvenjulegar og kuldalegar aðstæður um helgina.

Facebooktwittermail